Góður félagsskapur, hreyfing sem þú hefur gaman af og skýr markmið eru atriði sem gott er að hafa í huga áður en haldið er út í haustið með það í huga að stunda líkamsræktina af kappi. Anna Eiríks, þjálfari hjá Hreyfingu og Róbert Traustason, þjálfari hjá Boot Camp í Sporthúsinu fara hér yfir það sem þau telja að skipti máli svo hægt sé að ná árangri í ræktinni.
„Það sem hjálpar mörgum við að koma sér af stað og ná árangri fyrst um sinn er að vera ábyrgur gagnvart einhverjum öðrum,“ segir Róbert. „Sumir hafa það mikinn sjálfsaga að þeir þurfa enga utanaðkomandi hvatningu en fyrir aðra getur stuðningur frá maka, vinum eða vinnufélögum skipt sköpum. Þá er oft gott að hvetja einhvern annan með sér því það að styðja við bakið á öðrum tekur fókusinn af manni sjálfum og gefur manni hvatningu líka, en með æðri tilgangi.“ Róbert segir það einnig skipta máli að finna sér hreyfingu sem manni finnst gaman að stunda. „Stöðugleiki í æfingum og mataræði skiptir sköpum og þú endist ekki lengi í öfgamataræði eða hreyfingu sem þér finnst drepleiðinleg. Þegar þér finnst gaman að hreyfa þig og þú nærð árangri, þá byrja hin púslin að smella líka. Þú ferð fyrr í háttinn, hugsar betur um næringuna og gerir hluti sem þig órar ekki fyrir í dag.“

Róbert Traustason, þjálfari hjá Boot Camp í Sporthúsinu.
Skýr markmið
„Markmiðin þurfa að vera skýr, mælanleg, raunhæf og tímasett til að hægt sé að ná þeim,“ segir Róbert. „Ekki segja bara að þú ætlir að koma þér í form heldur ákveddu hvað það er sem þú skilgreinir sem gott form. Er það að hlaupa 10 kílómetra á undir ákveðnum tíma, ná ákveðið mörgum upphýfingum eða bara hreyfa sig ákveðið oft í viku?“ Anna Eiríksdóttir, þjálfari í Hreyfingu, tekur í sama streng og segir að ein besta leiðin til þess að koma sér af stað eftir sumarið sé að byrja á því að setja sér markmið og finna sér hreyfingu við sitt hæfi. „Ég mæli klárlega með því að fara á námskeið eða til einkaþjálfara því þá fær fólk þær leiðbeiningar, stuðning og aðhald sem það þarf til að ná markmiðum sínum en það finnst mér skipta mjög miklu máli. Við í Hreyfingu bjóðum upp á fjölbreytt úrval af góðum námskeiðum og erum með frábæra þjálfara sem taka vel á móti fólki.“

Anna Eiríksdóttir, þjálfari í Hreyfingu.
Heilsan er dýrmæt
Anna segir jafnframt að félagsskapurinn skipti máli við æfingar. „Það að æfa í góðum hóp eða með öðrum er miklu vænlegra til árangurs heldur en að æfa einn, og ekki aðeins árangursríkara heldur líka miklu skemmtilegra. Ekki gefast upp þó svo það sé erfitt að byrja, því ávinningarnir af því að hreyfa sig og borða holla fæðu eru svo margir og okkur líður oftast betur í eigin skinni þegar við hugum vel að heilsunni. Við eigum aðeins einn líkama, hugsum vel um hann og setjum heilsuna í forgang.“
The post Góð ráð til að koma sér af stað í ræktinni appeared first on FRÉTTATÍMINN.