900 milljónir í ídýfur og sósur
Íslendingar keyptu Vogaídýfur og sósur frá E. Finnsson fyrir 905 milljónir króna í fyrra. Vogabær, sem framleiðir hvort tveggja, hagnaðist um 14 milljónir í fyrra. Allt hlutafé fyrirtækisins er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga.
Opna verslun á Strikinu
66°norður opnar aðra verslun sína í Kaupmannahöfn síðar í þessum mánuði. Verslunin verður neðst á Strikinu, skammt frá Kongens Nytorv.
26,9
milljóna hagnaður varð af rekstri Kaffibarsins í fyrra. Hagnaðurinn jókst um tæpar 20 milljónir króna á milli ára og skýrist aukningin að stærstum hluta af endurútreikningi lána upp á 16 milljónir. Eigandi Kaffibarsins er Svanur Kristbergsson.
Skráð á framhjáhaldssíðu
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona hans, skráðu sig á framhjáhaldssíðuna Ashley Madison fyrir nokkrum árum. Þóra greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í vikunni. Hún segir að þetta hafi þau gert fyrir forvitnis sakir, í hálfkæringi og af léttúð. Netfang Bjarna hjá N1 var notað við skráninguna og notendanafn þeirra var Icehot1.
Balti í samstarf við Ridley Scott
Framleiðslufyrirtæki Ridley Scott, Scott Free, og framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, RVK Studios, ætla að framleiða sjónvarpsþáttaröð eftir íslenska tölvuleiknum EVE Online. Þetta kemur fram á vef Variety.
Sextán í Lögregluskólann
16 nýnemar hófu nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins um mánaðamótin. Af þeim nýnemum sem teknir voru inn hafa 10 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til tæplega 20 mánaða. Meðalaldur nýnemanna er 25,5, í hópum eru 11 karlar og 5 konur.
The post Vikan sem var: Íslendingar eyddu 900 milljónum í ídýfur og sósur appeared first on FRÉTTATÍMINN.