Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fegurðardrottningin sem vinnur í álveri og drekkur Guinness

$
0
0
Indíana Svala Ólafsdóttir er ein þeirra stúlkna sem keppa í Ungfrú Ísland um helgina. Hún er tæplega tvítug Grafarvogsmær og vinnur við að keyra beyglubíl í álverinu í Straumsvík. Þess á milli rápar hún í búðum og spilar á gítar.

Ég er að vinna í álverinu í Straumsvík. Þar keyri ég beyglubíl. Það er áltökubíll, bíllinn sem fer í kerin og tekur álið upp úr kerjunum og setur í ofnana svo hægt sé að steypa úr því. Ég hef alltaf haft áhuga á vélum og er með vinnuvélaréttindi. Stefnan er svo að taka meiraprófið, áhuginn liggur á þessu sviði – tækjum og bílum.

Staðalbúnaður
Ef ég er að fara í bíó eða Kringluna eða eitthvað svoleiðis er ég oftast í frekar „plain“ buxum og kannski siffon-skyrtu og svartri kápu. Mér finnst mjög gaman að vera fín þegar ég get. En meira hversdags er ég kannski bara í buxum, hlýrabol og leðurjakka. Uppáhaldsbúðin mín er sennilega Zara en annars versla ég óhemju mikið þegar ég fer til útlanda. Ég er 180 sentímetrar á hæð þannig að ég er ekki mikið á hælum en ég er reyndar byrjuð að ganga aðeins á hælum núna.

Hugbúnaður
Þegar ég er ekki að vinna rápa ég stundum um í búðum eða fer í World Class. Svo spila ég á gítar, mest bara einhver lög sem mig langar að raula með. Ég er náttúrlega að vinna mikið á nóttunni svo ég geri ekki mikið þegar ég er í vinnusyrpum. Svo er alltaf mest kósí að vera bara heima uppi í rúmi og horfa á þætti eða mynd. Af þáttum horfi ég mest á Friends, bara aftur og aftur. Ég er ekki enn búin að fá nóg. Ég fer líka af og til út að djamma. Þá fer ég á Austur og á Danska. Uppáhalds drykkurinn minn er gin & tónik og uppáhalds bjórinn minn er Guinness.

Vélbúnaður
Ég er með iPhone 6 og Acer tölvu með snertiskjá. Af öppum nota ég mest Facebook og Instagram. Facebook nota ég mest fyrir „tjattið“ og til að setja inn myndir og skoða myndir hjá öðrum. Ég fer inn á Tumblr þegar mér leiðist og stundum skoða ég Twitter. Ég set einstaka sinnum eitthvað inn þar.

Aukabúnaður
Uppáhaldsmaturinn minn er innbakað naut með portvínssósu sem mamma eldar. Ég elda voða lítið sjálf, er mest í samlokugerð og svona. Ég hef mjög gaman af hestum og fer oft í sveitina til ömmu á hestbak. Ég hef líka gaman af að mála mig og nota til dæmis augnbrúnagel, það er alveg mest töff. Ég á bíl en hef aldrei notað hann. Hann er bilaður en pabbi er að gera við hann fyrir mig. Pabbi er allur í þessu, er með öll vinnuvélaréttindi og kennararéttindi. Algjör pabbapabbi. Í sumar fór ég til Spánar og heimsótti vinkonu mína. Það var „toppnæs“ frí. Í vetur stefni ég að því að kíkja til Færeyja en vinkona mín býr þar.

The post Fegurðardrottningin sem vinnur í álveri og drekkur Guinness appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652