Hjartavernd er þátttakandi í samevrópsku verkefni sem hefur það að markmiði að útrýma D-vítamínskorti.
Það sem við höfum verið að skoða hérna í Hjartavernd er hvernig D-vítamínskortur hefur áhrif á heilsu og dánartíðni og við sjáum að þeir sem eru mjög lágir í D-vítamíni hafa verri horfur en aðrir. Við höfum verið að reyna að leita að einhverjum erfðaþætti sem gæti skýrt þetta, en á þessu stigi málsins get ég hvorki sagt af eða á um þann þátt,“ segir Guðný Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna hjá Hjartavernd, en rannsóknir Hjartaverndar á þessum þætti eru hluti af stóru samevrópsku verkefni sem kallast Food-based solutions for Optimal vitamin D Nutrition and health through the life cycle, sem skammstafað er ODIN. Stjórnendur verkefnisins eru þau Mairead Kiely og Kevin Cashman frá University College og National University í Cork á Írlandi, en að verkefninu komur fjöldi þjóða auk þess sem 31 stofnanir og fyrirtæki taka þátt í því.
Verkefnið hefur staðið í tvö ár og mun standa í tvö ár til viðbótar en um mánaðamótin komu til landsins vísindamenn frá Austurríki, Hollandi, Noregi, Danmörku, Bandaríkjunum og Írlandi til að kynna sér niðurstöður rannsóknar Hjartaverndar. „Verkefnið gengur út á það að reyna að vinna gegn D-vítamínskorti hjá fólki á norðlægum slóðum, en það hefur sýnt sig að hann er mjög algengur, ekki síst hjá börnum og unglingum,“ segir Guðný. „Það er verið að reyna að finna leiðir til að auka D-vítamín magn í fæðunni í stað þess að fólk þurfi að taka einhver viðbótarefni eins og t.d. lýsi. Það eru ekkert mörg matvæli rík af D-vítamíni, aðallega feitur fiskur, og það er þegar byrjað að D-vítamínbæta mjólk en það borða auðvitað ekki allir mjólkurvörur og þeim fækkar meira að segja sífellt.“
Spurð hvort sólarleysi sé ekki orsakaþáttur í D-vítamínskorti segir Guðný auðvitað svo vera og með aukinni notkun sólarvarnarkrema minnki áhrif hennar enn. „Einn þáttur verkefnisins felst í því að reyna að meta hversu mikla sólarorku fólk þurfi til þess að viðhalda nægilega miklu D-vítamíni. Er nóg að sóla hendur og andlit í hálftíma á dag eða þarf lengri tíma? Aukin notkun sólarvarnar er líka áhyggjuefni í þessu samhengi, ef þú hindrar útfjólubláu geislana frá því að komast í húðina þá myndast ekki D-vítamín í húðinni sem er ein af öflugustu leiðunum til að fá nægt D-vítamín.“
Sumir óttast að hægt sé að taka of mikið af D-vítamíni og Guðný segir það vissulega hægt en til þess að það verði hættulegt þurfi ótrúlega mikið magn og það sé ástæðulaus ótti.
Eitt af því sem verkefnið hefur í för með sér og Guðný telur til mikilla bóta fyrir rannsóknir í þessum málaflokki er að með samstarfinu næst samræming í mælingar. „Það hafa verið mismunandi rannsóknir í gangi og svo hafa aðferðirnar við að mæla D-vítamínmagn líka verið misjafnar þannig að það hefur aldrei verið hægt að bera saman niðurstöður ólíkra rannsókna milli landa. Hjá okkur er búið að „standardísera“ þessar mælingar, sem tók sinn tíma og nú er búið að samræma mælingar í öllum löndum sem þátt taka í verkefninu, sem gerir okkur kleift að bera saman rannsóknir á raunhæfan máta.“
Næstu skref í þátttöku Hjartaverndar í verkefninu eru að taka saman niðurstöður rannsóknanna og koma þeim á framfæri. „Okkar þáttur snýr að erfðafræðinni og rannsóknum á því hvort erfðir hafa með þetta að gera,“ segir Guðný. „En á þessu stigi get ég hvorki sagt af eða á um hvort sú er raunin. Við vorum á fundinum núna að taka saman og samræma gögnin frá öllum þessum mismunandi hópum og næsta skref verður að skoða hvort við getum séð eitthvað út úr því.“
Mynd Hari
The post Reynt að vinna gegn D-vítamínskorti fólks á norrænum slóðum appeared first on FRÉTTATÍMINN.