Mjög stór skriða féll úr fjallinu fyrir ofan Reynisfjöru í Mýrdal í nótt og er sjórinn brúnlitaður á því svæði þar sem skriðan féll. Lögreglan á Suðurlandi ítrekar að austasti hluti Reynisfjöru er lokaður almenningi
„Lögreglan á Suðurlandi ítrekar lokun sína í austasta hluta Reynisfjöru en þegar lögregla kannaði svæðið snemma í morgun kom í ljós að mjög stór hluti úr fjallinu hafði þá nýlega fallið í fjöruna og í sjó fram líkt og meðfylgjandi ljósmynd sýnir.
Er sjórinn brúnlitaður á því svæði þar sem skriðan féll. Lögreglan mun kanna málið nánar í dag ásamt sérfræðingum,“ segir lögreglan á Suðurlandi.
Lögreglan á Suðurlandi lokaði í gær af austasta hluta Reynisfjöru vegna grjóthruns úr berginu yfir fjörunni. Tveir ferðamenn; karlmaður um tvítugt og barn, höfðu slasast lítillega þegar þeir fengu grjót yfir sig úr berginu. Fékk lögreglan einnig ábendingar um að svipað atvik hefði átt sér stað á sunnudag.
The post Mjög stór skriða féll úr fjallinu við Reynisfjöru í nótt appeared first on Fréttatíminn.