Smjör og salt. Það er það sem flestir brúka á maisstöngulinn sinn. Hvort sem hann fer frosinn út í pott, ferskur af grillinu eða jafn vel upp úr dós. En þetta er ekki alveg svona heilagt. Í Mexikó og í veitingavögnum um allan heim er verið að bjóað upp á grillaðan maisstöngul löðraðan í mæjónesi og osti.
Hei! Ekki fara, ekki hætta að lesa. Þetta er gott ég lofa. Það er hægt að nota gamaldags frosin eyru, forsjóða þau aðeins og skella svo í nokkrar mínútur á grillið. En það er ennþá betra að nýta sér sumarið og uppskerutímann til að fá ferskt korn í „skinninu“.
Grilla kornið við háan hita í um 15 mínútur eða svo. Allt í lagi þótt hýðið brenni. Má jafn vel fá í sig smá eld. Betra að vera þó ekki með steikina á grillinu rétt á meðan. Svona til að fá ekki öskuna yfir allt og út um allt.
Á meðan maisinn er á grillinu er hrært í heimagerða mæjónesblöndu (sjá uppskrift til hliðar). Parmasen ostur er rifinn niður með microrifjárni eða settur í matvinnsluvél svo úr verði hálfgert parmasenduft. Það er líka hægt að kaupa parmasenduft ef það er eitthvað sem kitlar bragðlaukana. Við hin höldum okkur við alvöru. Getur líka verið fínt að bæta smá fetaosti út í matvinnsluvélina. Þeir mexíkósku nota ost sem heitir Cotija en hann getur ýmist verið ferskur og svipar þá til fetans eða þroskaður og þá meira í ætt við Parmesan. Við hins vegar höfum takmarkaðan aðgang að þessum osti og brúkum því hina tvo eða í raun bara hvaða ost sem þykir góður þá stundina. Matarlöggan er í verkfalli og kemur því ekki á vettvang.
Þegar kornið hefur kólnað örlítið eftir af grillinu er komið er um að gera að taka hýðið af og strengina sem undir því eru. Gott að henda þeim svo aðeins út aftur. Svona rétt til þess að fá nokkrar grillrendur. Þá er bara að löðra í mæjóinu, strá ostinum yfir og krydda rétt í lokin með chilikryddi eða cyanne. Þeir sem svo elska límónusafan sinn meira en góðu hófi gegnir geta svo kreist smá yfir í lokin.
Þeir sem nenna, og kunna, hræra að sjálfsögðu í sitt eigið mæjónes. Nú ef ekki þá finnum við uppáhaldsmæjó fjölskyldunnar. Hvort heldur sem er pólskt, Hellmanns eða Gunnars. Kreistum safa úr c.a. hálfri límónu eða einum fjórða af sítrónu, það finnur enginn muninn. Safanum er hrært út í mæjóið. Chili- eða Cayennedufti sem og hvítlauks- og lauksdufti er svo blandað við ásamt góðu hnefafylli af söxuðum kóríanderlaufum. Það tekur heldur enginn eftir því þótt kóríanderlaufin breytist í steinselju – ef hún er það eina sem er til. Salt og Pipar eftir smekk. Má alveg vera slatti af piparnum en passa saltið – sérstalega ef nota á parmesanost. Því hann er saltur. Gott að láta sósuna taka sig í smá stund.
Heilsufrík sem ekki kunna að meta mæjóið geta sett svolítið af sýrðum rjóma á móti mæjónesunni. Nú eða reynt að nota skyr eða hvað það nú er sem heilsusamir mæjóneshatarar nota þegar við hin erum að brúka á nesið.
Mæjónesblanda sem dugir á fjóra stöngla
1 dl. Mæjó
½ lime (safinn)
Hnefafylli af kóríanderlaufum
nokkrar hristur af:
Chilidufti
Hvítlauksdufti
laukdufti
PiparSalt
The post Megagóðir matarmiklir mexíkóskir maisstönglar appeared first on FRÉTTATÍMINN.