Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Bragi Guðbrandsson sýknaður í meiðyrðamáli Guðmundar Týs

$
0
0

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, var sýknaður í Héraðsdómi í morgun í meiðyrðamáli sem Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, höfðaði á hendur honum.

Málið varðar ummæli sem Bragi lét falla opinberlega árið 2010 í kjölfar atburðarásar sem leiddi til þess að meðferðaheimilinu Götusmiðjunni, sem Guðmundur Týr var forstöðumaður á, var lokað.

Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, tapaði meiðyrðamáli sínu gegn Braga Guðbrandssyni í Héraðsdómi í dag.

Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, tapaði meiðyrðamáli sínu gegn Braga Guðbrandssyni í Héraðsdómi í dag.

Í dómnum kemur fram að árið 2010 hafi hópur starfmanna Götusmiðjunnar sent Barnaverndarstofu bréf þar sem kvartað var undan stjórnunarháttum Guðmundar Týs og kallað var eftir aðgerðum Barnaverndarstofu. Kvartað var undan fjarvistum forstöðumannsins og framkomu hans við starfsmenn.

Guðmundur Týr vísaði einum þessara starfsmanna burt af staðnum og á fundi með börnum á vistheimilinu þar sem Guðmundur Týr útskýrði málavöxtu lét hann falla ummæli sem samkvæmt dómnum ollu óþægindum hjá börnunum, jafnvel ótta. Á fundinum bað Guðmundur Týr börnin að halda trúnað um persónuleg málefni starfsmannsins og að sögn Guðmundar hafi umræðan snúist upp í trúnað almennt og að í gamla daga, þegar Guðmundur var götukrakki, hefðu hnéskeljar verið brotnar á þeim sem brytu trúnað.

Barnavernd hóf athugun á málinu og þóttu viðtöl við börnin sýna að haft hefði verið í hótunum við börnin um líkamsmeiðingar. Ákveðið var að flytja börnin samdægurs af staðnum. Í kjölfarið birtust fréttir í fjölmiðlum af þessum atburðum og Guðmundur Týr ásakaður um að hóta börnum. Ummæli Braga í fréttum um málið eru tilefni þess að Guðmundur Týr höfðaði meiðyrðamál gegn Braga og fór fram á að þau yrðu dæmd dauð og ómerk.

Ummæli Braga vörðuðu ásakanir á hendur Guðmundi Tý um „stjórnunarvanda sem væri farinn að bitna á meðferðinni og skaða börnin“ og að „ákveðin samskipti við börnin hefðu farið yfir velsæmismörk og valdið vanlíðan og óöryggi“. Hann hefði „atað starfsmann óhróðri“ og „hótað börnunum líkamsmeiðingum ef þau segðu frá“. Auk þess að „ekkert af starfsfólki treysti sér til að vinna áfram í Götusmiðjunni“ og að Guðmundur Týr hefði „lagt starfsmenn í einelti“.

Niðurstaða dómsins er að ummæli Braga brytu ekki í bága við tjáningarfrelsi samkvæmt stjórnarskrá og þau hafi ekki falið í sér óviðurkvæmileg ummæli sem skaðað hafi Guðmund Tý.

Bragi fagnar dómnum í samtali við Fréttatímann og segir að sér sé létt enda hafi áður fallið dómur í sama máli sem nú sé leiðréttur. „Í fyrra var ég sakfelldur í sama máli í dómi sem felldur var að mér fjarstöddum og án minnar vitneskju og kom ég því ekki vörnum við. Mér var ekki birt sú stefna þar sem ég var í útlöndum á þeim tíma og féll svokallaður útivistardómur í málinu. Ég fór hins vegar fram á endurupptöku málsins sem fallist var á og er dómurinn í dag algjörlega gagnstæð niðurstaða. Ég er vandur að virðingu minni og það hefur hvílt á mér að hafa þurft að lesa það á netinu að ég hafi hotið dóm,“ segir Bragi.

Guðmundur Týr er mjög ósáttur við dóminn og segist muni áfrýja honum til Hæstaréttar. „Þetta er algjörlega óskiljanlegur dómur sem ég mun ekki una,“ segir Guðmundur Týr.

Hann hefur nýlega sett á fót þjónustumiðstöð þar sem tekið er á móti börnum og unglingum í fíkniefnavanda.

The post Bragi Guðbrandsson sýknaður í meiðyrðamáli Guðmundar Týs appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652