Hollenskt par var í vikunni handtekið og úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald eftir að um 80 kíló af hvítu efni fundust í bíl þess.
Eitt stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp hér á landi er nú til rannsóknar hjá rannsóknarlögreglunni á Austurlandi í samstarfi við fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða innflutning á um 80 kílóum af hvítu efni sem enn hefur ekki verið efnagreint, eftir því sem næst verður komist. Lögregla verst allra frétta en búist er við yfirlýsingu frá henni hvað úr hverju.
Málið kom upp á Seyðisfirði á þriðjudaginn þegar hollenskt par á fimmtugsaldri sem komið hafði til landsins með Norrænu var handtekið eftir að um 80 kíló af hvítu efni fundust í húsbíl þess. Parið var í framhaldinu úrskurðað í tveggja vikna gæsluvarðhald og flutt til Reykjavíkur. Karlmaðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi á Litla Hrauni, samkvæmt fréttum RÚV og mbl.is, en engar upplýsingar hafa fengist um gæslustað konunnar.
Parið hafði tekið húsbílinn á leigu hjá erlendri bílaleigu og samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins hafði ekki verið gerð tilraun til að fela efnið vandlega, heldur hafi það verið í nokkrum plastpokum sem voru í farangri og búnaði bílsins. Árni Elíasson, yfirtollvörður á Seyðisfirði, sagði í kvöldfréttum RÚV á miðvikudagskvöldið að málið hefði ekki átt sér langan aðdraganda. „Það er ekki hægt að segja það en grunnurinn að þessu er vönduð áhættugreining hjá tollinum á Íslandi í samvinnu við tollyfirvöld í Færeyjum og lögreglu hér á landi,“ sagði hann.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Fréttatímans tókst ekki að ná sambandi við rannsóknaraðila málsins, hvorki hjá lögreglunni á Austurlandi né í Reykjavík og tollverðir á Seyðisfirði sögðust ekki hafa neitt meira um málið að segja, enda væri það komið alfarið í hendur lögreglu.
Engar upplýsingar hafa fengist um hvort einhverjir Íslendingar eigi aðild að innflutningnum, en í einni frétt RÚV um málið kemur fram að parið hafi fullyrt að það hafi engin tengsl við landið – það hafi aldrei komið hingað áður.
Reynist um 80 kíló af fíkniefnum að ræða er þetta eitt alstærsta fíkniefnamál sem upp hefur komið hér á landi. Í Pólstjörnumálinu svokallaða árið 2008, sem þá var stærst slíkra mála, nam innflutningurinn 40 kílóum af amfetamíni og e-töflum. Í því máli var þyngsti dómur yfir sakborningi níu og hálfs árs fangelsi.
The post Eitt stærsta fíkniefnamál sem upp hefur komið á Íslandi appeared first on Fréttatíminn.