„Það eru yfir milljón manns búnir að sjá myndbandið núna svo ég er nokkuð viss um að það verður stappað í brúðkaupinu. Við erum pínu stressuð um að það komist ekki allir fyrir og hótelið verði ósátt við okkur,“ segir Sara Heimisdóttir, 26 ára Reykvíkingur sem gengur að eiga líkamsræktarfrömuðinn Rich Piana í Las Vegas á fimmtudaginn í næstu viku.
Verður í þröngum brúðarkjól sem sýnir bakið vel
Það brá mörgum í brún í síðustu viku þegar vefmiðlar á Íslandi fjölluðu um brúðkaup Söru og Rich Piana. Hann tilkynnti um ráðahaginn á Youtube-rás sinni og myndbandinu var dreift með ógnarhraða á samfélagsmiðlum. Myndbandið hefur nú fengið yfir eina milljón áhorfa. Brúðkaupið verður á fimmtudagskvöldið í næstu viku, 17. september, á Mr. Olympia sýningunni í Las Vegas.
„Þetta verður ekki beint hefðbundið brúðkaup. Við giftum okkur með öðru pari, Ashley og Coty, sem eru í liðinu – eru sponsoruð af Rich. Ég verð samt í hvítum brúðarkjól. Ekki týpískum, stórum hvítum kjól heldur mjög þröngum og flottum kjól sem sýnir bakið vel.“
Koma einhverjir gestir frá Íslandi?
„Já. Bróðir minn kemur og hugsanlega pabbi, ef hann kemst. Móðir mín býr í Flórída og hún kemur. Svo koma tvær bestu vinkonur mínar frá Íslandi. Þær fljúga til LA á mánudag og keyra yfir með okkur. Svo verða auðvitað fullt af vinum héðan.“
„Sumir halda að hann sé að pumpa einhverju í vöðvana á sér en hann er bara svona stór. Þetta er ekkert bull.“
Kynntust á Facebook
Sara segir að þau hafi nýlega ákveðið að gifta sig og hafi því þurft að hafa hraðar hendur við undirbúninginn. En hver er sagan að baki þessu öllu saman?
„Við töluðum aðeins saman fyrir tveimur árum og vissum hvort af öðru en svo kynntumst við í gegnum Facebook. Við byrjuðum saman fyrir einhverjum mánuðum síðan en þetta small svona rosalega vel saman. Við erum eiginlega alveg eins, eigum svo margt sameiginlegt og þetta var bara „meant to be.“ Sumt fólk mun aldrei finna svo ást í lífinu en við erum mjög heppin að hafa fundið hvort annað.“
Sé ekki fyrir mér að flytja aftur til Íslands
Sara flutti til Orlando fyrir um fimm árum. „Ég ákvað að gera eitthvað meira með líf mitt, að láta draumana rætast. Ísland er bara svo lítið land. Mamma var búin að vera flugfreyja hjá Flugleiðum í 25 ár svo ég hafði verið mikið hér og er mjög amerísk í mér. Ég er meira að segja fædd 4. júlí. Ég sé ekki fyrir mér að flytjast aftur til Íslands,“ segir hún.
Fylgistu ennþá með því sem gerist heima á Íslandi?
„Voða lítið. Bara því sem fólk segir mér. Ég er ekkert hangandi á netinu að skoða hvað er í gangi. Ég gerði það fyrst eftir að ég flutti út en núna veit ég bara það sem fjölskylda og vinir segja mér. En tengslin eru til staðar því öll fjölskyldan býr þar nema mamma og ég er búin að vera með fullt af dóti í geymslu í fimm ár. Ég þarf klárlega að koma einn daginn, það er orðið langt síðan ég hef séð alla. Ég er ekki alveg búin að gleyma ykkur.“
Sara settist á skólabekk eftir að hún fluttist til Flórída. Fyrst lærði hún sálfræði og svo lögfræði. „Svo kynntist ég Rich og við náðum strax vel saman. Við vitum að við viljum vera saman að eilífu og ætlum að gera allt í okkar valdi til að láta það ganga. Ég ákvað því að flytja frá Flórída til Los Angeles og tek mér pásu frá skólanum.“
Peningasóun að keppa í fitness
Eftir að Sara flutti út til Flórída keppti hún í fitness. Það var hluti af því að láta drauma sína rætast.
„Mig langaði alltaf að keppa þegar ég var á Íslandi, að fara á svið, enda er þetta vinsælt sport. Þegar ég kom út fékk ég mér þjálfara og fór að keppa. Mér gekk vel en þetta kostar rosalega peninga og þú notar alla þína orku. Það passaði ekki vel með skólanum.“
Hún segir að Rich hafi fengið sig til að líta þetta öðrum augum en hún áður gerði. „Eins og fólk getur séð er hann öðruvísi en allir. Þú finnur ekki hreinskilnari mann. Þess vegna elskar fólk hann, hann er svo hreinn og beinn. Hann segir til dæmis ungu fólki það sem aðrir segja þeim ekki. Hann sagði mér að það væri bara heimskulegt að vera að keppa í þessu sporti, það væri bæði peninga- og tímasóun. Maður er að kaupa sér rándýr bíkiní með öllu blinginu á. Ég ætti frekar að nota tímann í að stofna fyrirtæki og reyna að græða peninga. Þetta var mjög skemmtileg upplifun og það er allt í lagi að prófa að keppa en maður á ekki að hanga of lengi í þessu sporti. Jafnvel þó maður nái að verða atvinnumaður, ef maður er ekki einn af þeim bestu þá er engan pening upp úr þessu að hafa.“
Búinn að æfa í 30 ár
Hver eru framtíðarplön þín?
„Núna er ég að hjálpa Rich með hans fyrirtæki, 5% Nutrition, og planið er að stofna önnur fyrirtæki. Ég stefni að því að komast sem lengst áfram sjálf. Að verða þekkt og komast áfram. Það er hægt að græða peninga í þessum bransa með því að koma upplýsingum áfram til fólks. Til dæmis með myndböndum á Youtube og fleiru. Ég set því skólann á pásu, maður er hvort sem er aldrei of gamall til að læra.“
Hún segir að Rich veki athygli hvert sem þau fari og auðvelt sé að nýta sér það.
„Sara Piana hljómar mjög vel.“
„Við förum á sýningar og hann er með básinn sinn og það er þriggja tíma röð að koma að sjá hann. Mamma sagði um daginn að hún hefði ekki gert sér grein fyrir hvað hann er þekktur. Pabbi er alltaf í World Class í Laugum heima á Íslandi og hann segir að það viti allir hver hann er.“
Rich er náttúrlega stór maður… hann fer ekkert framhjá fólki.
„Já, hann er mjög stór. Hann er náttúrlega búinn að æfa í einhver þrjátíu ár. Sumir halda að hann sé að pumpa einhverju í vöðvana á sér en hann er bara svona stór. Þetta er ekkert bull.“
Finnst þér hann aldrei of stór?
„Nei. Hann er auðvitað misjafnlega stór, það getur sveiflast upp eða niður um 20 pund hvort hann er vatnaður eða meira „lean“. En hann er auðvitað stærri en flestir gaurar sem eru „pro“. Enda elskar hann að fara að æfa, að fara í ræktina.“
Ferðast um allan heim
Hvernig er hefðbundinn dagur hjá ykkur?
„Við reynum að vakna snemma og ég tek „cardio“ heima, fer á brettið. Svo borðum við. Rich fer svo yfirleitt að vinna í vídeóunum sínum, það er alltaf eitthvað að gera sem tengist fyrirtækjunum. Síðan förum við í ræktina. Eftir það gerum við eitthvað sjálf, förum út að borða eða í bíó eða erum með hundunum okkar. Þetta er yfirleitt frekar venjulegt nema þegar Rich fer á sýningar. Hann þarf að ferðast mikið. Á næsta ári förum við væntanlega um allan heim, England, Þýskaland, Brasilíu og víðar. Hann fer á margar sýningar út af fyrirtækinu.“
„Ég sagði frá upphafi að ég vildi eignast fjölskyldu.“
Planið að eignast börn saman
Ætlarðu ekkert að koma með eiginmanninn tilvonandi og sýna honum Ísland?
„Jú, það er planið, einn daginn. Við ætluðum að koma í ár en það gafst ekki tími til þess. En það er klárlega planið. Ég veit að það eru margir sem myndu vilja fá hann í heimsókn.“
Ætlið þið að eignast börn saman?
„Það er alveg búið að ræða það, já. Ég sagði frá upphafi að ég vildi eignast fjölskyldu. Það verður kannski ekki á næsta ári eða árið þar eftir. En það er „semi“ stutt í það.“
Þetta verða náttúrlega „hrikalegir“ krakkar, með svona sterka foreldra?
„Já, ég held það,“ segir hún og hlær við.
Ætla að fá sér húðflúr í brúðkaupinu
Sara og Rich búa í Los Angeles, í tæplega fimm hundruð fermetra húsi með stórum garði og körfuboltavelli. Hún segir að þau ætli reyndar að flytja innan tíðar og minnka aðeins við sig. „Það er mjög dýrt að búa þarna. Við ætlum að finna okkur eitthvað á einni hæð með sundlaug. Við þurfum ekki körfuboltavöll og garðinn notum við bara fyrir hundana.“
Á samfélagsmiðlunum má sjá að þið keyrið um á flottum bílum á borð við Maserati…
„Já, Rich vill alltaf eiga það flottasta og ég hef alltaf verið mikil bílakelling. Við erum alveg eins með það. Við erum reyndar eiginlega eins með allt, hann er eins og karlaútgáfan af mér,“ segir hún.
Eitt er þó ólíkt með ykkur. Þú ert ekki öll í húðflúrum eins og hann.
„Nei, ég er ekki í þeim bransa. Við ætlum reyndar að fá okkur King & Queen á hliðina á handarbakinu á okkur. Það verður tattú-listamaður í brúðkaupinu sem mun húðflúra fólk frítt.“
Ætlarðu að taka upp eftirnafn hans?
„Já, klárlega. Það getur enginn sagt Heimisdóttir hérna og Sara Piana hljómar mjög vel.“
The post Sumt fólk mun aldrei finna svona ást í lífinu appeared first on Fréttatíminn.