Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Einlæg og sönn lýsing á þunglyndi

$
0
0

„Þetta er verk sem fær mann virkilega til að hugsa um lífið og ástina og trúna og öll þessi stóru mál sem tengjast því að vera manneskja,“ segir Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona sem frumsýndi einleikinn 4.48 Psychosis eftir Söruh Kane í Kúlu Þjóðleikhússins í gærkvöld.

„Sarah skrifaði þetta stuttu áður en hún fyrirfór sér eftir harða glímu við þunglyndi og þetta verk er mög einlæg og sönn lýsing á upplifun hennar og því sem hún gengur í gegnum. Hún fer með okkur í ferðalag í gegnum huga sinn og fær okkur til að skoða hvar við sjálf erum stödd. Hér er virkilega farið út á dýpið og kafað djúpt í sálina.“

Það er leikhús Eddu Bjargar, Edda productions, sem setur verkið upp í samvinnu við Þjóðleikhúsið og Aldrei óstelandi, Friðrik Friðriksson leikstýrir, Stefán Hallur Stefánsson er dramatúrg og tónlistin er samin og flutt af eiginmanni Eddu Bjargar, Stefáni Má Magnússyni og bróður hans Magnúsi Erni. „Við erum öll í góðra vina hópi hérna,“ segir Edda Björg. „Mjög samhentur og góður hópur sem ég er ótrúlega ánægð með að hafa fengið með mér í þetta verkefni. Þýðingin hennar Diddu er alveg stórkostleg og ég bara get ekki beðið eftir að áhorfendur fái að upplifa þetta með okkur.“

Önnur sýning á 4.48 Psychosis verður á sunnudagskvöldið, 13. september, og sú þriðja 16. september.

 

The post Einlæg og sönn lýsing á þunglyndi appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652