Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Haust sófakartöflunnar

$
0
0

Jú, jú haustið er komið og allir miðlar fullir af „fréttum“ um hvernig best sé að rækta líkamann í hinni eða þessari líkamsræktarstöðinni í vetur. Minna fer fyrir greinum um það hvernig rækta beri sína innri sófakartöflu og löngu tímabært að bæta úr því. Við erum ekki öll með líkamsrækt á heilanum og sum okkar eru meira að segja fullkomlega sátt við það að fiska værðarvoðina niður úr efsta skápnum, kaupa birgðir af kertum og súkkulaði og búa okkur undir að verja kvöldunum í makindum við bóklestur eða áhorf góðs sjónvarpsefnis. Eina vandamálið er að ákveða hvað á að lesa eða horfa á því jafnvel áköfustu sófakartöflur komast ekki yfir að fylgjast með öllu því bitastæða sem haustið býður upp á í þessum geirum – ekkert frekar en líkamsræktartröllin komast yfir að stunda allar gerðir líkamsræktar sem í boði eru. Hér eru nokkrar hugmyndir um skipulagða sófadagskrá sem ætti að halda kartöflunum uppteknum flest kvöld fram að jólum.

Sunnudagur

Strax núna á sunnudaginn, 13. september, hefur RÚV sýningar á bresku framhaldsþáttunum Poldark, sem fengið hafa mikla kynningu hérlendis á þeim forsendum að íslenska leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir leikur eitt aðalhlutverkanna. Það er þó ekki það eina sem þessir þættir hafa til brunns að bera, þetta eru vandaðir períóðuþættir, sem fengið hafa mikið áhorf og umtal í Bretlandi. Þættirnir eru framleiddir af BBC og hafa slegið hressilega í gegn, ekki síst vegna yfirþyrmandi kynþokka leikarans í aðalhlutverkinu, Aidans Turner. Mér skilst að hann sé meira og minna ber að ofan í senunum og að breskar konur beinlínis kikni í hnjánum við áhorfið.
Ný þáttaröð af Rétti, hefst um miðjan október á Stöð 2 og verða þættirnir sýndir á sunnudagskvöldum. Það er Baldvin Z sem leikstýrir og af þeim brotum að ráða sem sýnd hafa verið til kynningar á þáttunum er hér hörkustöff á ferðinni; kynlíf og ofbeldi úr íslenskum veruleika í stórum skömmtum. Þoli menn illa ofurskammt af óhuggulegheitum er lítið mál að teygja sig í bók úr staflanum á sófaborðinu og næla sér í eins og eina ljóðabók, til dæmis Tilfinningarök eftir Þórdísi Gísladóttur eða Blýengilinn hans Óskars Árna og halda svo inn í draumalandið með ljóðrænt bros á vör.

Mánudagur

Mánudagskvöld eru hefðbundin glæpaþáttakvöld og fastlega má gera ráð fyrir því að sýningar á nýju seríunum af Broen, sem hefjast 28. september á RÚV, og House of Cards eftir áramótin, verði á þeim svo allar áhyggjur af leiðindum og mánudagsblús séu óþarfar. Til að hrista af sér mánudagsdrungann er þó kannski ráðlegra að sökkva sér ofan í góða skáldsögu og á þeim verður enginn hörgull þetta haustið. Jón Kalman Stefánsson sendir frá sér framhald af Fiskarnir hafa enga fætur, Einar Már Guðmundsson skrifar skáldsögu um Jörund hundadagakonung, Auður Jónsdóttir skrifar um konu sem glímir við flogaveiki og minnisleysi og Lilja Sigurðardóttir sendir frá sér sakamálasögu beint úr íslenskum undirheimum. Fleiri stórkanónur verða með skáldsögur þegar líður á haustið og má nefna Hallgrím Helgason með sína fyrstu sjálfsævisögulegu bók, Ólaf Jóhann Ólafsson með nýja sögu frá New York og Ólaf Gunnarsson sem skrifar um Syndara. Það er því eiginlega einboðið að hvíla sjónvarpsgleraugun, skella á sig lesgleraugum, hita kakó – jafnvel baka eins og eina köku – helga mánudagskvöldin skáldsagnalestri og taka bara glæpaþættina í tímavélinni fyrir fréttir á þriðjudaginn.

Þriðjudagur

Þriðjudagar eru samkvæmt rannsóknum erfiðustu dagar vikunnar og því mikilsvert að finna eitthvað til að létta lundina. Glæpaþættir frá mánudagskvöldinu eru ágætis upphitun fyrir kvöldið, eða bara Friends og Modern Family á Gullstöðinni, það er óþarfi að ofreyna heilasellurnar svona snemma vikunnar. Framhaldið fær að ráðast af því hvernig stemningin er, en það verður þó að hvetja til þess að sjónvarpssnakkið sé í hollara lagi þetta kvöldið eftir sykurát gærkvöldsins og benda á að döðlur og gráfíkjur eru fyrirmyndar leið til að ná sér í sykurbragðið með góðri samvisku. Last Week Tonight með John Oliver er ómissandi krydd í þriðjudagskvöldið og vilji fólk hlæja enn meira er gráupplagt að horfa bara á Gullstöðina allt kvöldið, þar eru gamlar gersemar eins og The new girl, How I met your mother og Two and a half man fastir liðir. Sé fólk í alvarlegri hugleiðingum má leggjast yfir léttar fræðibækur eins og Þarmar með sjarma og Erfið samskipti eða þungaviktarrit eins og Geirmundar sögu Heljarskinns, sem er ný útlegging Bergsveins Birgissonar á þeirri merku sögu.

Miðvikudagur

Miðvikudagar eru hefðbundnir stelpudagar á Stöð 2, sumum ónefndum til mikils ama, og þættir eins og Greys Anatomy, Mistresses og fleiri í þeim dúrnum eiga þau kvöld skuldlaust. Tilvalið að hóa saman vinkonunum, skella á sig andlistsmaska, narta í konfekt og sötra böbblí – í hófi – og horfa saman á sápuna. Fyrir þá/þær sem ekki aðhyllast slíkan dekadens verða Hæpið og Kiljan á sínum stað á RÚV og Facebook alltaf innan seilingar til að láta sitt gáfuljós skína um efni og efnistök þáttanna. Umræðan í Kiljunni ætti líka að æsa upp áhugann á að kynna sér nýjustu bækurnar og hér koma glæpasögurnar sterkar inn, til mótvægis við böbblí og gáfumannatal. Arnaldur verður auðvitað með nýja bók 1. nóvember, en Erlendur og Marion fá frí í þetta sinn og rifjuð eru upp kynnin við lögguteymið úr Skuggasundi. Ragnar Jónasson, Yrsa Sigurðardóttir og Jón Óttar Ólafsson eru öll með sakamálasögur, í bókum Yrsu og Jóns Óttars hittum við fyrir gamalkunnar persónur en Ragnar kynnir galvaskur til leiks glænýja aðalpersónu, hina 64 ára gömlu lögreglukonu Huldu Hartmannsdóttur.

Fimmtudagur

Hvernig væri að taka aftur upp gamla hefð og hafa fimmtudagskvöldin sjónvarpslaus? Það er að segja heima hjá þér. Kveikja bara alls ekki á kassanum heldur nokkrum kertum, elda eitthvað gómsætt og bjóða kannski fjölskyldunni upp á upplestur úr nýjum barnabókum? Í þeim geira kennir ýmissa áhugaverða grasa í útgáfu haustsins og ekki minni höfundar en Gerður Kristný, Ævar Þór, Guðni Líndal og Gunnar Theodór eru öll með nýjar barnabækur, auk þess sem stórbók með öllum bókum Guðrúnar Helgadóttur er komin út. Slökkvið á tölvunum, símunum og æpöddunum, setjist í hring og lesið upphátt til skiptis, það er garanteruð leið til að efla fjölskyldutengslin.

Föstudagur

Föstudagskvöld þýða pítsa og bjór, popp og kók, Logi í beinni og Útsvar eða Gísli Marteinn, sem snýr aftur á með spjallþátt á RÚV, og svo einhver hugguleg hasarmynd undir svefninn. Punktur og basta.

Laugardagur

Pétur Jóhann ætlar að halda partí á Stöð 2 á laugardagskvöldum í vetur í nýjum þætti sem nefnist Spilakvöld, eitthvað sem skemmtanaþyrstir ættu að kunna vel að meta sem upphitun fyrir djammið. Við, hinar rótföstu sófakartöflur, munum hins vegar kannski frekar svíkja lit og skella okkur yfir á DR 1, þar sem Barnaby og fleiri góðkunningjar eiga fastan sess á laugardögum. Svo má auðvitað alltaf krækja sér í krassandi mynd á leigunni, standi laugardagsmyndir sjónvarpsstöðvanna ekki undir væntingum, og deyfa spennuna með einu rauðvínsglasi og nokkrum ostbitum. Það er nú ekki laugardagskvöld nema einu sinni í viku.

 

Íslenskir þættir í haust

RÚV:
Hæpið – sept
Sprotarnir – sept
Föstudagsljós – sept
Rokk og poppsaga Íslands – sept
Ísþjóðin – okt
Studíó A – okt
Spaugstofan í 30 ár – okt
Rætur – nóv
Tónahlaup – des

Stöð 2:
ÍGT3
Atvinnumennirnir okkar
Gunnar Nelson í Las Vegas
Neyðarlínan
Logi
Spilakvöld
Hindurvitni
Landnemarnir

The post Haust sófakartöflunnar appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652