MS mun frá og með 1. október bjóða þeim sem vilja framleiða úr mjólk að fá allt að 300 þúsund lítra af mjólk á ári, á sama verði og MS greiðir til bænda, en það eru tæpar 85 krónur fyrir hvern lítra sem bændur framleiða. Með þessum aðgerðum, segir í tilkynningu MS, er vonast til að styrkja smærri framleiðendur og gera nýjum aðilum auðveldara með að hefja rekstur. „Jafnframt má segja að þessi jöfnun á aðstöðu stórs og lítilla aðila sé mikilvægt sanngirnismál og að MS sé að mæta samfélagslegri skyldu með hliðsjón af markaðsstöðu sinni og stærðarhagkvæmni,“ segir enn fremur. Aðgerðirnar fela í sér rúmlega 11% lækkun frá almennu verði á ógerilsneyddri hrámjólk og mun MS veita öðrum framleiðendum endurgjaldslausan aðgang að því kerfi sem fyrirtækið rekur til þess að safna, gæðaprófa og miðla óunninni mjólk. Gert er ráð fyrir að árangurinn af þessum breytingum verði metinn að þremur árum liðnum og framhaldið ráðist af því hvernig til tekst.
Samkeppni á jafnréttisgrundvelli
Mjólkurbúið Kú fagnar þessari áherslubreytingu. „Fyrir fyrirtæki eins og okkar hefur þessi lækkun mjög mikla þýðingu og þá ekki síður að geta loks keypt hráefni til framleiðslu okkar á jafnréttisgrunni,“ segir í tilkynningu frá búinu. Hálfdán Óskarsson, framkvæmdastjóri mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík, er einnig kampakátur með þessar breytingar. „Þetta er alveg nýtt fyrir okkur þegar kemur að samskiptum við MS. Þeir eru greinilega að hugsa stöðuna upp á nýtt. Við vonum að þeir meini þetta allt frá innstu hjartarótum, að þeir ætli að vera liðlegri við okkur hina svo hægt sé að keppa á jafnréttisgrundvelli.“
3-4 milljónir sem sparast
Mjólkurvinnslan Arna var stofnuð árið 2013. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á laktósafríum mjólkurafurðum fyrir einstaklinga sem finna fyrir óþægindum við neyslu á venjulegum mjólkurafurðum og nota til þess mjólk sem er framleidd á Vestfjörðum. „Með þessari breytingu getum við keypt 300.000 lítra á 11% lægra verði, en við framleiðum meira en það á ársgrundvelli. Þessi lækkun mun hins vegar spara okkur þrjár til fjórar milljónir og það munar auðvitað um það,“ segir Hálfdán. Hingað til hefur Arna keypt lítrann á 95 krónur en frá og með 1. október mun lítrinn kosta 85 krónur. „Við höfum ekki hækkað verð frá því við komum á markað fyrir tveimur árum, þrátt fyrir verðhækkanir frá verðlagsnefnd búvara sem tók gildi 1. ágúst síðastliðinn. Þetta léttir undir með því að standa við þá ákvörðun og vonandi verðum við með óbreytt verð áfram.“ Hálfdán segir jafnframt að greinilegt sé að nýr forstjóri vilji láta til sín taka og segir það gleðiefni. „Við bjóðum MS velkomna á 21. öldina, það er greinilegt að hugsunarhátturinn og viðhorfið er að breytast til hins betra.“
The post Aukin tækifæri fyrir smærri framleiðendur í mjólkuriðnaði appeared first on Fréttatíminn.