Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Að rótum rythmans: Bó og félagar í Graceland og Nashville

$
0
0

Rúmlega fjörutíu manna hópur félaga úr Félagi tónskálda og textahöfunda (FTT) fór á dögunum í mikla reisu til Bandaríkjanna. Ferðinni var heitið til Nashville, Memphis og New Orleans þar sem skoðuð voru hljóðver, tónleikastaðir, söfn og heimili Elvis Aaron Presley meðal annars. Margt var um þekkta einstaklinga í ferðinni og meðal þeirra sem sóttu Bandaríkin heim voru Björgvin Halldórsson, Bragi Valdimar Skúlason, Hrafn Gunnlaugsson og Guðmundur Jónsson svo einhverjir séu nefndir, sem og skipuleggjandinn sjálfur, Jakob Frímann Magnússon. Söngvarinn Stefán Hilmarsson fór í ferðina ásamt eiginkonu sinni og segir hann ferðina hafa verið ótrúlega upplifun. Bæði hvað varðar fróðleik og skemmtanagildi.

„Þessi ferð hefur staðið til í eitt ár meira eða minna,“ segir Stefán Hilmarsson þegar hann er spurður út í tildrög ferðarinnar. „Þegar ég sá þetta auglýst vissi ég að þetta yrði ferð sem ekki mætti missa af. Við vorum rúmlega fjörutíu, skemmtilega blandaður hópur, landsþekktir músíkantar í bland við minna þekkta, fólk með tengingu við félagið og allnokkrir makar. Þetta var ansi stíf dagskrá, sex nætur á þremur hótelum, svo maður þurfti að hafa sig allan við, en afar skemmtilegt og vel skipulagt,“ segir hann.

Björgvin þenur hörpuna í Ground Zero. Ljósmynd/SH
Björgvin þenur hörpuna í Ground Zero. Ljósmynd/SH

12025537_10206371856388717_1784097244_n

 

Kaleo í næsta húsi

„Við flugum til Washington og þaðan beint til Nashville. Þar vorum við í tvær nætur, skoðuðum m.a. hljóðver sem þar eru mörg og sum með þeim bestu í heiminum. Hópurinn heimsótti Creative Workshop hljóðverið og var þar samið lag á staðnum og blásið til hljóðritunar,“ segir Stefán. „Jakob Frímann stýrði því af röggsemi og fékk alla til að taka þátt. Að því loknu héldu flestir í miðbæinn að skoða bæinn og Frægðarhöll kántrýtónlistarinnar, en einhverjir luku við gerð lagsins á meðan og gerðu klárt fyrir söng, sem kláraður var síðdegis og lagið svo frumflutt í rútu á leið til kvöldverðar.

Hljóðverin í Nashville eru mörg staðsett í venjulegum húsahverfum og má því segja að þetta séu upptökuheimili eins og Rúnar Júlíusson kallaði Geimstein á sínum tíma. Synir Rúnars voru einmitt með í ferðinni ásamt mökum, börnum og vinum, þannig að andi hans var nálægur. Víst er að Rúnar hefði notið sín vel á þessum slóðum,“ segir Stefán. „Í næsta húsi við Creative Workshop er þekkt hljóðver, Blackbird Studios. Stúdíóáhugaðurinn Kiddi Hjálmur leit þar við til að skoða, en var tjáð af forsvarsmanni að það þyrfti að bíða betri tíma því upptökur stæðu yfir. Við fréttum svo um kvöldið að þar hefði verið hljómsveitin Kaleo, sem er skemmtileg tilviljun og hefði auðvitað orðið gaman að hitta fyrir landa okkar þarna.“

Ólafur Páll Gunnarsson var með í för
Ólafur Páll Gunnarsson var með í för
Bó fyrir utan heimili kóngsins. Ljósmynd/Jón Páll
Bó fyrir utan heimili kóngsins. Ljósmynd/Jón Páll

Værð í Graceland

„Eftir tvo daga í Nashville tókum við flug til Memphis, sem er frekar stutt ferðalag,“ segir Stefán. „Þar var mikið span á okkur og við byrjuðum á að skoða STAX safnið, sem er Soul-minjasafn. Það var einkar skemmtilegt fyrir okkur Guðmund Jónsson að komast að rótum þeirrar tónlistar sem Sálin byrjaði að spila. Þaðan héldum við í Sun-Studios sem er líklega frægasta hljóðver rokksögunnar. Elvis, Johnny Cash og Jerry Lee Lewis unnu þar á meðal annarra á árdögum rokksins. Þar fengum við mjög skemmtilegan túr um hljóðverið og við vorum leidd í allan sannleika þessa sögufræga hljóðvers,“ segir Stefán. „Þarna er mikill andi í Sun, sem er mikið til eins og það var þegar Elvis og félagar tóku þar upp. Annars virtist manni Memphis víða vera í svolítilli niðurníðslu. Í Nashville virtist hins vegar meiri velsæld, líklega meiri aurar í kántríinu en soul-músíkinni,“ segir hann.

Í Memphis gistum við á Heartbreak Hotel sem er rétt við landareign Elvis Presley og næsta dag var ferðinni heitið í Graceland, heimili kóngsins. Við fengum alveg sér túr, vorum þar um kvöld þegar túristastraumurinn var búinn. Þetta var pínulítið eins og að vera í kirkju hreinlega,“ segir Stefán. „Gestir voru andaktugir og einhver værð yfir mannskapnum. Þetta er myndarlegt hús með nokkrum viðbyggingum og magnað að ganga þarna um og heyra sögur af sigrum og sorgum Kóngsins. Heimilið er að mestu óbreytt frá því sem var þegar Elvis skyldi við og flugvélar hans og bílar eru þarna einnig á landareigninni.“

Í messu hjá Al Green í Memphis. Ljósmynd/SH
Í messu hjá Al Green í Memphis. Ljósmynd/SH
Stefán í STAX safninu. Ljósmynd/SH
Stefán í STAX safninu. Ljósmynd/SH
Björgvin með míkrófón sem brúkaður var af Elvis, Jerry Lee, Johnny Cash og fleirum í Sun Studios. Ljósmynd/SH
Björgvin með míkrófón sem brúkaður var af Elvis, Jerry Lee, Johnny Cash og fleirum í Sun Studios. Ljósmynd/SH

New Orleans ævintýri líkust

„Á sunnudagsmorgni sóttum við messu í Memphis hjá prestinum og sálarsöngvaranum Al Green. Það var eftirminnileg upp- og innlifun. Því næst var ferðinni heitið til New Orleans, en það var um sjö tíma rútuferð frá Memphis með nokkrum stoppum,“ segir Stefán. „Þó er hægt að hugsa sér verri félagsskap í slíka rútuferð, þannig að ferðin sat ekki lengi í manni. Á leiðinni var stoppað í smábænum Clarksdale í Mississippi Delta. Við áðum þar í úthverfi, frekar tómlegu og niðurníddu, en þar er að finna þekktan blúsbar, Ground Zero,“ segir hann. „Staðurinn er í eigu leikarans Morgan Freeman og bæjarstjóra Clarksdale, en sonur stjórans er mikill Íslandsvinur og góðkunningi Jakobs Frímans, sem hafði sett upp þessa heimsókn og lænað upp litlu blúsbandi,“ segir Stefán. „Björgvin tók í munnhörpuna og Gummi í gítarinn og við áttum þarna skemmtilega stund. Svo hélt ferðin áfram til New Orleans, með viðkomu á hinum frægu gatnamórum, Crossroads, en sagan segir að frumblúsarinn Robert Johnson hafi selt Kölska sálu sína þar.

New Orleans er gríðarlega skemmtileg borg og góður andi sem þar svífur yfir,“ segir hann. „Lokdaginn fórum við í siglingu með gufuskipi á Mississippi-ánni í blíðskaparveðri. Síðan spókuðum við okkur í gamla bænum, Franska hverfinu svokallaða. Þar eru fjölmargar fallegar smábúðir og knæpur og tónlistarmenn á hverju götuhorni. Þarna drukkum við í okkur stemminguna og héldum glöð og uppfull af góðum anda heim á leið.

 

Björgvin og Stefán S. Stefánsson um borð í Lisu Marie, flugvél Elvis Presley. Ljósmynd/SH
Björgvin og Stefán S. Stefánsson um borð í Lisu Marie, flugvél Elvis Presley. Ljósmynd/SH
Guðmundur Jónsson og Bó í fljótabát á Mississippi ánni. Ljósmynd/SH
Guðmundur Jónsson og Bó í fljótabát á Mississippi ánni. Ljósmynd/SH
Hjónin Anna Björk og Stefán fyrir utan Graceland.
Hjónin Anna Björk og Stefán fyrir utan Graceland.

Þetta var ógleymanleg ferð. Skipuleggjendur eiga hrós skilið, sér í lagi Jakob Frímann, sem hélt vandlega um taumana og fór auðvitað með himinskautum við kynningar og sagði ófáar skemmtisögurnar. Það er óborganlegt að ferðast með Jakobi,“ segir Stefán Hilmarsson að lokum.

Björgvin fyrir utan Sun Studios
Björgvin fyrir utan Sun Studios
Jakob Frímann í upptökuklefa í Three Man Records í Nashville sem er í eigu Jack White.
Jakob Frímann í upptökuklefa í Three Man Records í Nashville sem er í eigu Jack White.

The post Að rótum rythmans: Bó og félagar í Graceland og Nashville appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652