Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Íslendingar langt frá viðmiði Sameinuðu þjóðanna

$
0
0

Íslendingar leggja 0,21% af þjóðartekjum til þróunarmála og eru því langt frá 0,7% viðmiði Sameinuðu þjóðanna, að því er fram kemur í Heimsljósi, vefriti um þróunarmál sem gefið er út af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Árið 2013 komust Bretar í úrvalsflokk þjóða sem uppfylla alþjóðlegar skyldur um 0,7% framlög til þróunarmála miðað við þjóðartekjur, segir í vefritinu þar sem vitnað er í fréttaskýringu breska blaðsins Guardian um framlög ríkra þjóða til þróunarmála með fyrirsögninni – Alþjóðleg þróunaraðstoð: hvaða þjóðir eru örlátastar?

„Af 29 þjóðum sem eru meðlimir í DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD, voru auk Breta aðeins Norðmenn, Svíar, Danir og Luxemborgarar sem ráðstöfuðu meira en 0,7% af þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu á árinu 2013. Það ár hækkuðu framlög Breta um 27,8% til þróunarmála og samkvæmt nýjustu tölum frá árinu 2014 hafa Bretar bætt um betur og verja nú 0,71% af þjóðartekjum til þróunarmála.

Framlög Íslendinga eru lægst allra þjóða innan OECD, „tæknilega“ séð, eins og það er orðað í The Guardian, eða aðeins 35 milljónir Bandaríkjadala, miðað við síðasta ár eftir 3,8% niðurskurð milli ára. Við erum líka í hópi neðstu þjóða þegar framlögin eru reiknuð sem hlutfall af þjóðartekjum en á síðasta ári námu þau 0,21%. Samkvæmt nýframlögðu fjárlagafrumvarpi stendur ekki til að breyta þeirri prósentutölu á næsta ári,“ segir enn fremur.

„Þegar horft er til örlátustu þjóðanna á síðasta ári sést að hæstu framlögin berast frá Bandaríkjunum, eða 32 milljarðar Bandaríkjadala. En þegar hins vegar horft er á hlutfall af þjóðartekjum sést að Bandaríkin eru langt frá örlátustu þjóðunum því hlutfallið er aðeins 0,19%, eða sambærilegt og hjá Portúgal og Japan, örlítið minna en framlag Íslands. Norrænar þjóðir eru hins vegar í úrvalsflokknum, Svíar örlátastir með 1,1% þjóðartekna til þróunarmála, eða 6,2 milljarða Bandaríkjadala. Þeir voru líka fyrstir þjóða til að uppfylla viðmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7% framlög af þjóðartekjum og náðu því marki árið 1974 – og hafa alla tíð síðan verið yfir viðmiðunarmarkinu. Næst örlátasta þjóðin eru Lúxemborgarar sem létu 1,07% af þjóðartekjum af hendi rakna til þróunarsamvinnu á síðasta ári, Norðmenn koma þar á eftir með 0,99% og Danir með 0,85%. Bretar voru síðan í fimmta sæti.

Utan OECD eru hins vegar þjóðir sem verja miklum fjármunum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu en eins og The Guardian bendir á voru Sameinuðu arabísku furstadæmin með hlutfallslega hæstu framlög á síðasta ári eða 1,17% af þjóðartekjum. Þeir fjármunir fara að stórum hluta til Egyptalands.

Þær þjóðir sem verja minnstu fjármagni til þróunarmála innan DAC ríkjanna eru Slóvakar með 0,08%, Tékkar, Grikkir og Slóvenar með 0,11%, Suður-Kórea með 0,13% og Spánn með 0,14%,“ segir í vefritinu. „Utan OECD ríkjanna,“ segir þar, „eru líka þjóðir sem sýna nánasarhátt eins og Ísrael með 0,07% og Lettland með 0,08%.“

The post Íslendingar langt frá viðmiði Sameinuðu þjóðanna appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652