Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Skálda eigin ævi

$
0
0

Skáldævisaga er til þess að gera nýtt hugtak í íslenskum bókmenntum, heyrðist fyrst í kringum útgáfu á bókum Guðbergs Bergssonar, Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Gott ef Guðbergur skáldaði ekki þetta hugtak upp sjálfur. Slíkar bækur voru þó auðvitað skrifaðar löngu fyrr, eða dettur einhverjum í hug að bækur Þórbergs Þórðarsonar Ofvitinn og Íslenskur aðall séu eitthvað annað en skáldævisögur?

Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar kom út árið 2000 og síðan hafa varla liðið jól án þess að skáldævisögur væru á útgáfulistum forlaganna. Er skemmst að minnast sögu Vigdísar Grímsdóttur, Dísusögu, sem út kom fyrir tveimur árum og var að því leyti sérstæð að hún var skrifuð af öðrum helmingi persónu höfundar. Ekki vakti Ósjálfrátt Auðar Jónsdóttur minni athygli, enda fádæma skemmtileg og vel skrifuð bók.

Jón Gnarr hefur einnig umbreytt ævi sinni í skáldskap í bókunum Indíáninn og Sjóræninginn og nú í haust kemur út þriðja bók hans í þeirri seríu, Útlaginn, þar sem hann tekst á við unglingsárin frá 14 til 19 ára aldurs, dvöl sína á heimavistarskólanum Núpi í Dýrafirði og hlífir hvorki sjálfum sér né öðrum í lýsingum á ofbeldi og misþyrmingum. Jón hefur sjálfur sagt í viðtali að þetta sé hræðileg bók sem enginn ætti að þurfa að skrifa og að hann voni að enginn lesi hana, en það þarf varla að efast um að bókin sú fái lesendur, ekki síst eftir slíkar yfirlýsingar.

Þórunn Erlu Valdimarsdóttir hefur sent frá sér tvær bækur sem hún hefur kallað skáldættarsögur, Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem hún sagði sögur ömmu sinnar og móður og nú er hún komin að sjálfri sér í bókinni Stúlka með höfuð sem kemur út í október. Kunnugir segja að sú bók sé þegar farin að valda titringi hjá herramönnum á virðulegum aldri þar sem kvisast hefur að í bókinni nafngreini Þórunn alla ástmenn sína framan af ævi og gefi hverjum fyrir sig einkunn. Þegar ofan á bætist hvað Þórunn er fantaflinkur höfundur með óvenjulega sýn á lífið verður að telja þá bók með þeim forvitnilegri á útgáfulistum haustsins.

Hallgrímur Helgason hefur hingað til haldið eigin lífi kirfilega aðskildu frá bókum sínum, svona eftir því sem það er hægt, en nú bregður svo við að hann sendir frá sér skáldævisögu sem nefnist Sjóveikur í München, þar sem hann setur ákveðið tímabil í lífi sínu í skáldlegan búning. Ungur myndlistarmaður einn í námi í útlandinu og síælandi í stresskasti hljómar reyndar ansi Hallgrímslega svo kannski hefur hann ekki verið eins langt frá eigin reynslu í fyrri bókum og við höfum haldið. Verður allavega spennandi að fá nýja bók frá Hallgrími sem ekki hefur sent frá sér bók síðan Konan við 1000° gerði allt vitlaust árið 2011.

 

The post Skálda eigin ævi appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652