Mér skilst að bjórstjórinn á Skúla hafi talað svo vel um okkur að þeir spurðu okkur hvort við vildum ekki gera bjór saman. Svo þeim leiddist örugglega ekki meðan þeir væru hér á Íslandi,“ segir Árni Theodór Long, bruggeistari hjá Borg brugghúsi.
Árni og Valgeir Valgeirsson, kollegi hans, tóku á móti bruggurunum Patrick og Jonathan frá Arizona Wilderness á fimmtudagskvöld og planið var að brugga saman bjór, samvinnuverkefni Borgar og Arizona Wilderness. Þetta er annað samstarf við erlent brugghús sem Borg ræðst í á skömmum tíma en eins og Fréttatíminn hefur greint frá gerðu Árni og félagar tvo bjóra með kollegum sínum í Nørrebro Bryghus, 2-14 og 14-2.
Eins og kom fram í Fréttatímanum í síðustu viku voru þeir Arizona-menn gestir á Skúla Craft Bar í vikunni. Þar kynntu þeir tíu af sínum áhugaverðustu bjórum og spjölluðu við bjóráhugafólk. Arizona Wilderness er ekki nema tveggja ára gamalt brugghús en var valið besta nýja brugghúsið á sínu fyrsta ári af Ratebeer.com.
Þegar Fréttatíminn ræddi við Árna í byrjun vikunnar lá ekki endanlega fyrir hvers konar bjór yrði bruggaður. „Við höfum svona hálf ákveðið að gera þetta fríhendis. Planið var að hittast og sjá hvort ekki myndi eitthvað gott fæðast,“ sagði Árni í léttum tón.
Hann fékkst þó til að upplýsa að búið væri að taka frá brettanomyces-ger og útkoman yrði einhvers konar saison-bjór. „Þeir eru mikið fyrir að nota hráefni úr sínu umhverfi í Arizona og voru mjög áhugasamir um að sjá hvað þeir geta notað af íslenskum hráefnum. Eitt af því sem nefnt hefur verið eru ber, fyrst það er nú berjatímabil. Ég er sjálfur sérlega spenntur fyrir bláberjum og sérstaklega aðalbláberjum. Það er ekki ólíklegt að þau verði notuð.“
Ertu þá búinn að vera að tína ber fyrir þetta samstarfsverkefni?
„Nei, ég er reyndar ekki búinn að fara í berjamó þetta árið. En ég tíndi grimmt í fyrra. Það er þó ekkert sem gæti slagað í svona bruggun. Við myndum þurfa minnst 150 kíló og maður er ekkert að fara að tína það.“
Árni þekkti ekki til Arizona Wilderness áður en eftir að hafa lesið sér til um brugghúsið var hann spenntur að bragða á bjórum þeirra á Skúla á miðvikudagskvöld. Hann kvaðst telja að afrakstur samstarfsins yrði seldur á bjórbar Arizona Wilderness í heimabænum Gilbert.
„Við munum svo væntanlega selja þetta hér eins og aðra bjóra okkar. Nema þetta verði skelfilegt, þá hendum við þessu!“
The post Brugga fríhendis með gestum frá Arizona appeared first on Fréttatíminn.