Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Engir sameiginlegir sturtuklefar í Leiklistarskólanum

$
0
0

Upphaf leiklistarferils Eysteins má rekja til Wisconsin í Bandaríkjunum. „Ég bjó í fimm ár í Wisconsin á meðan foreldrar mínir voru í námi. Ég var sjö ára þegar ég lék í fyrsta leikritinu, reyndar bara skólaleikriti, en þá settum við upp Galdrakarlinn í Oz þar sem ég lék fuglahræðuna. Hlutverkið hentaði mér vel, enda heilalaus grínisti. Þannig byrjaði leiklistaráhuginn líklega, mér fannst þetta allavega æðislega gaman, ég var svo opinn krakki. Ég fékk meira að segja að kynna leikritið og allt.“ Stuttu seinna flutti fjölskyldan heim og Eysteinn gekk í Hlíðaskóla þar sem leiklistaráhuginn hélt áfram að vaxa.

Þegar Schwarzenegger, 50 Cent og Scooter ætluðu að taka yfir heiminn

„Ég og vinir mínir sömdum leikrit og settum á svið í forkeppni innan skólans fyrir Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna. Handritið hefði ekki átt að verða valið undir neinum kringumstæðum, en það gekk út á það að Arnold Schwarzenegger, 50 Cent og Scooter ætluðu að taka yfir heiminn. Vondi karlinn í leikritinu var svo uppblásin kynlífskind. Einhverra hluta vegna var þetta svo valið, en með smá breytingum. Í staðinn fyrir kynlífskindina kom freestyle dansatriði, sem betur fer,“ segir Eysteinn og hlær. Seinna, þegar Eysteinn var byrjaður í Listaháskólanum var hann beðinn um að vera kynnir á Skrekk og hafði mjög gaman af. „Skrekkur er frábær vettvangur til að kynnast leiklistinni. Að bjóða öllum krökkum sem vilja að koma og setja upp atriði í einu af stærstu leikhúsum landsins, er auðvitað algjör snilld. Hljóðmennirnir, ljósamennirnir og allir sem að þessu standa taka á móti krökkunum eins og fagfólki og þannig fá þau smjörþefinn af þessu. Þannig gerðist þetta hjá mér.“

Ætlaði að gerast skáld og breyta heiminum

Eysteinn gekk í Versló og tók þar mjög virkan þátt í félagslífinu. En þó svo að leiklistaráhuginn hafi verið mikill segist Eysteinn aldrei þorað að hafa farið með hann alla leið. „Ég ætlaði aldrei beint í leiklistarskólann. Eftir Versló flutti ég til Bandaríkjanna í eitt ár. Pabbi var þá nýfluttur þangað með stjúpmömmu minni og litlu systkinum mínum, á okkar gömlu heimaslóðir. Ég var svo mikið að finna mig á þessum tíma og las allt sem ég komst í, þannig ég skráði mig í skapandi skrif. Ég ætlaði væntanlega að skrifa einhverja skáldsögu og breyta heiminum, en það gerðist náttúrulega ekki. Ég fór í leikfélagið í skólanum og uppgötvaði þar að mig langaði frekar að nota þann miðil til að segja sögur, að fá að vera einhver karakter og einbeita mér að honum, frekar en að skrifa einhverja skáldsögu sem er algjör fjarstæða og eitthvað sem ég á aldrei eftir að gera.“

Eysteinn fann fyrir einangrun í smábænum í Wisconsin og fór fljótt að þrá eitthvað stærra og meira. „Ég var orðinn graður í að komast eitthvert annað í leiklistarnám. Ég sótti bæði um í London og hérna heima en stefndi alltaf til London. En svo lifði ég mig svo mikið inn í prufurnar í Listaháskólanum og heillaðist af hópnum, en ég hafði séð mörg þeirra leika í Stúdentaleikhúsinu stuttu áður. Ég fór því ekkert til London, það small allt hérna heima.“ Við tóku þrjú ár í Listaháskólanum og segir Eysteinn að hann hafi ekki alveg vitað við hverju hann átti að búast. „Maður hafði heyrt svo margar tröllasögur af þessum skóla, sameiginlegir sturtuklefar milli kynja og fleira, sem er náttúrulega ekki satt,“ segir hann hlæjandi. „En það var mjög mikil nánd og það er alls ekki slæmt. Bekkjarsystkinin verða eins og systkini manns. Ég er samt ekki að segja að við höfum verið nakin allan daginn eða slíkt, sumir fóru aldrei úr fötunum.

En ég fór reyndar oft úr fötunum því mér finnst það gaman.

Ég var búinn að vera í skólanum í tvær vikur þegar ég reif mig úr öllum fötunum í einhverju verkefni.“

Ítarlegt viðtal við Eystein má finna í Fréttatímanum um helgina. 

 

The post Engir sameiginlegir sturtuklefar í Leiklistarskólanum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652