Ásta Guðrún Helgadóttir er önnum kafin á þinginu en fellst á að hitta mig um stund á kaffihúsi í miðbænum áður en hún mætir aftur á þingfund þar sem hún er á mælendaskrá. Hún kemur eins og hvirfilvindur inn á kaffihúsið, í stuttri kápu með flaksandi hár og eins langt frá staðalímynd alþingismanns og hægt er að komast, og pantar sér sódavatn áður en við setjumst í sófahorn og hefjum spjallið. Að rótgrónum íslenskum sið byrjum við á yfirheyrslu um ættir og uppruna.
„Ég er uppalin á Seltjarnarnesi, að mestum hluta. Pabbi minn er Helgi Njálsson, verslunarmaður sem lengi rak fataverslunina Iðunni, og mamma mín er Ingibjörg Sara Benediktsdóttir tannlæknir. Afi minn og langafi stofnuðu Iðunni sem pabbi tók síðan við, þannig að ég ólst upp við mikinn áhuga á tísku, prjónaskap og saumum og var meira að segja að hugsa um að verða klæðskeri þegar ég var sextán ára. Mamma er frá Húsavík þar sem afi var tónlistarkennari og sú fjölskylda hefur mikinn áhuga á músík. Ég lærði á píanó þegar ég var í grunnskóla og menntaskóla og það blundar alltaf í manni að læra meira í tónlistinni. Það er alltaf mikið sungið þegar móðurfjölskyldan kemur saman en hjá föðurfjölskyldunni er áherslan á að ræða pólitík.“
Úr hijab í geimeftirlit
Þannig að þú ert alin upp við það að pólitík sé daglegt umræðuefni?
„Ekki bara það, heldur mátti ég sitja og hlusta og taka þátt í umræðunni. Okkur systkinunum var aldrei sagt að fara út að leika þegar gestir voru og fengum að segja okkar álit óhindrað. Ég held að það eigi stóran þátt í því að ég er þar sem ég er í dag. Það er rosalega mikilvægt að segja börnum aldrei að þegja af því að fullorðna fólkið sé að tala og þessar umræður mótuðu mig mikið.“
Eftir stúdentspróf frá MR hélt Ásta til Noregs, þar sem hún vann í ár en lagðist síðan í ferðalög. Kom heim og lagði stund á sagnfræði við HÍ auk þess að taka kúrs í heimspeki í háskólanum í Varsjá og læra tungumálið farsí í háskóla í Teheran, sem hún segir hafa verið stórkostlega upplifun. „Á ferðalaginu sem ég sagði þér frá var ég tvær vikur í Íran, sem mér fannst alveg frábært og mig langaði til að fá meiri innsýn í tungumálið og menninguna þar og komast að því hvernig þetta land virkaði. Ég skráði mig því í mánaðarkúrs í farsí í háskólanum og bjó í Teheran í mánuð.“
Spurð hvort ekki sé allt í rúst í Teheran hristir Ásta höfuðið. „Alls ekki, þetta er fínasta land. Það hefur náttúrulega verið beitt viðskiptaþvingunum mjög lengi og það er ýmislegt sem virkar öðruvísi en hér en það sem mér fannst merkilegast var að tala við konur sem mundu hvernig Íran var áður en yfirtakan fór fram. Það var mjög merkilegt, til dæmis að fá að vita hvað hijabið er, því allar konur verða að vera með hijab, slæðu um höfuðið, en þegar allir eru með það verður það alveg merkingarlaust, bara eðlilegur hluti af lífinu. Við, erlendu nemendurnir í háskólanum, urðum auðvitað líka að vera með hijab og ég get sagt þér það að það næsta sem ég hef komist því að skilja hvers virði frelsi er var þegar maður stalst til að taka það niður og leyfa hárinu að flaksast. Að fara út með slegið hárið, í stuttbuxum og hlýrabol að skoða stjörnurnar í Íran er ábyggilega það hættulegasta sem ég hef gert í lífinu, en líka það magnaðasta.“
Eftir heimkomuna frá Íran hélt Ásta áfram náminu í háskólanum en fór um tíma í starfsnám til Brussel þar sem hún vann fyrir þingmann á Evrópuþinginu og tók meðal annars þátt í starfi við undirbúning lagasetningar um geimeftirlit í Evrópu. „Ég var til dæmis mikið að tala við fólkið sem vinnur og hrærist í geimiðnaðinum, það var mjög speisað. En það var líka meðal þess áhugaverðasta sem ég hef gert að reyna að skilja þessa pólitík sem er stunduð á þessum level.“
„Ég er eiginlega hætt að segja eitthvað frá daglegu lífi mínu á Facebook, það getur endað í blöðunum, þannig að, jú, ég er strax farin að hegða mér aðeins öðruvísi.“
Eins og að vera komin aftur í MR
Ásta segir það aldrei hafa verið á verkefnalistanum að fara út í pólitík, hvað þá verða alþingismaður. „Ég leiddist bara út í þetta, það var aldrei meiningin. Ég sat með Smára McCarthy, vini mínum, sem var að leita að fólki til að vera á lista Pírata í síðustu alþingiskosningum og hann spurði hvort ég vildi ekki vera með. Ég var á þeim tíma að vinna að ritgerð um súfragettuna Sylviu Pankhurst í kúrsi í HÍ sem hét Konur og stjórnmál og var alveg ofandottin yfir því hvað þessar konur þurftu að ganga langt til þess að það væri hlustað á þær. Það er svo ótrúlegt hvað við erum komnar langt á rúmum hundrað árum. Það er ekki svo langt síðan það voru alls ekki sjálfsögð réttindi að bjóða sig fram verandi kona og ekki heldur sem ungur einstaklingur. Ég er fædd 1990 og ólst upp við það að Vigdís var forseti og fullt af konum á Alþingi þannig að tilhugsunin um að vera á lista til alþingiskosninga var ekkert fáránleg. Ég, 23 ára gömul, þurfti ekki að gera annað en segja, OK, ég er memm!“
Ásta viðurkennir að hún hafi ekki séð það fyrir sér að verða alþingismaður í fullu starfi þótt hún hafi tekið sæti á lista Pírata en þannig hafi málin æxlast og hún takist að sjálfsögðu á við þá ábyrgð sem því fylgir. En hefur það að setjast á þing breytt miklu í lífi hennar?
„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég bý ennþá í einu herbergi eins og ég gerði þegar ég var í háskólanum og á stundum ekki fyrir inneign á símann minn eins og fátækur námsmaður. Mér líður reyndar dálítið eins og ég sé komin aftur í MR þarna í Alþingishúsinu, enda hafði fólkið sem bjó til hefðirnar fyrir þingið auðvitað Lærða skólann að fyrirmynd. Það er hringt inn og út, þú átt þitt sæti við borð og þarft að biðja leyfis að fá að tala, þetta er allt voðalega MR-ískt.“
Flugfreyjudraktir sem einkennisklæðnaður
Fylgifiskur þess að verða alþingismaður er að lenda í kastljósi þjóðarinnar, verða þekkt andlit, og Ásta segist aðeins vera farin að finna fyrir því nú þegar.
„Ég virði mitt einkalíf mjög mikið og til dæmis það að vera allt í einu komin með rosalega marga vini á Facebook sem vilja fylgjast með mér finnst mér dálítið óþægilegt. Mér finnst það auðvitað rosalega gaman og þakka fyrir það, en að sama skapi finnst mér það dálítið erfitt. Ég er eiginlega hætt að segja eitthvað frá daglegu lífi mínu á Facebook, það getur endað í blöðunum, þannig að, jú, ég er strax farin að hegða mér aðeins öðruvísi. Ég er hins vegar ekki mikið úti á djamminu, þannig að ég hef ekki orðið fyrir áreiti þar, enda þarf maður að vakna fyrir allar aldir til að mæta í nefndarstörf svo það verður ekki inni í myndinni að djamma fram á rauða nætur.“
Sem dæmi um neikvæðu athyglina sem þingmannsstarfinu fylgir tek ég sem dæmi þegar Davíð Oddsson tók sér það fyrir hendur fyrir skömmu að ásaka Pírata um að draga niður virðingu Alþingis með óvirðulegum klæðaburði, en Ástu finnst það nú bara fyndið. „Ég verð að fá að lýsa því yfir að ég á eina hlaupaskó en allir hinir skórnir mínir eru úr leðri, þannig að ég tek þetta ekki til mín“ segir hún hlæjandi. „Við vorum reyndar að grínast með það að við ættum kannski að hringja í WOW Air og fá flugfreyjudraktir lánaðar hjá þeim sem einkennisklæðnað Pírata, þær eru næstum í réttum lit, bara aðeins of bleikar. En svona í alvöru þá eru þessi ummæli Davíðs fyrst og fremst dæmi um hversu rökþrota hann er, getur bara farið í manninn en ekki málefnin.“
Sama staða og fyrir hrun
Tíminn er að hlaupa frá okkur og Ásta er farin að gjóa augum á klukkuna, enda liggur henni á að komast aftur á þingfundinn, ég skelli því á hana lokaspurningunni: Hvað er það sem þú munt helst berjast fyrir á þinginu?
„Ég er búin að vera að lesa Rannsóknarskýrslu Alþingis og það er svo ógurlega margt sem við þurfum að takast á við ef við ætlum ekki að þurfa að lenda í öðru hruni. Ég átti erfitt með að lesa fyrstu tvö bindin því það var svo margt óeðlilegt í gangi. Þegar allt kemur til alls snýst þetta allt saman um vald og hver hefur valdið. Mig langar mikið að sjá aukið valdajafnvægi í íslensku samfélagi og margt sem snertir það hefur með aukið aðgengi að upplýsingum að gera; opna nefndarfundi, sannleiksskyldu ráðherra og um það snýst frumvarp sem ég hef lagt fram en er ekki enn komið á dagskrá þingsins. Þetta virðast vera litlir hlutir en eru í rauninni að auka vald fólksins, þannig að meira gagnsæi, meiri upplýsingaskylda er það sem mig langar helst að beita mér fyrir. Eitt af því sem situr í mér úr fyrsta bindi Rannsóknarskýrslunnar er þegar Davíð Oddsson nefndi það sem eina ástæðu hrunsins hvað framkvæmdavaldið hefði verið sterkt á þessum tíma. Núna erum við nefnilega að sjá nákvæmlega sömu stöðu á Íslandi og þá; alveg rosalega sterkt framkvæmdavald og takmarkað sjálfstæði þingsins. Valdajafnvægið inni á þingi er þannig að meirihlutinn ræður, punktur. Flokkurinn leggur línuna og menn kjósa yfirleitt ekki á móti flokknum sínum, hvað sem þeim finnst persónulega, þannig að ef ráðherra leggur fram frumvarp kemst það yfirleitt alltaf í gegn. Hversu eðlilegt er það til lengri tíma litið? Þegar frumvarpið um einkavæðingu bankanna var lagt fram fór það í gegnum þingið án nokkurra breytinga og Alþingi hafði eftir það ekkert um það að segja hverjir kaupendurnir voru. Það virðist vera að gerast aftur með sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum og það verður fróðlegt að sjá hvort fjármálaráðherra kemst upp með þetta aftur. Mér finnst sagan svolítið vera að endurtaka sig og ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma í veg fyrir það.“
The post Alþingi er alveg eins og MR appeared first on Fréttatíminn.