Langvinn lungnateppa er samheiti yfir ýmsa sjúkdóma, m.a. lungnaþembu, langvinna berkjubólgu og reykingalungu. Um er að ræða bólguástand sem leiðir til ertingar í berkjunum, aukinnar slímmyndunar og stækkunar og eyðileggingar á lungnablöðrunum. Lungnateppa einkennist af hósta og mæði sem versnar smám saman með árunum. Nauðsynlegasta „meðferðin“ er að hætta að reykja. Lokastig sjúkdómsins er í raun mjög kvalafullur dauðadagi þar sem sjúklingurinn nánast kafnar hægt og rólega.
Hvað er til ráða?
Það er ekki hægt að lækna langvinna lungnateppu en til er meðferð sem léttir á einkennum og minnkar líkur á fylgikvillum og felst hún í lífsstílsbreytingum, lyfjameðferð og þjálfun.
Lífsstílsbreytingar:
- Meiri vatnsdrykkja. Ef drukkin eru 8-10 glös yfir daginn þynnist lungnaslímið. Þetta skal þó gert í samráði við lækni ef sjúklingur er t.d. með alvarlegan hjartasjúkdóm samfara.
- Leita samstundis meðferðar við berkjusýkingum.
- Forðast óbeinar reykingar.
- Forðast skyndilegar hitabreytingar og kalt og blautt veður.
- Öll hreyfing er af hinu góða hversu lítil sem hún er og röskir göngutúrar geta haldið lungnastarfseminni við og jafnvel bætt hana.
- Reykingafólk ætti strax að hætta að reykja. Þær skemmdir sem hafa orðið á lungnavefnum ganga ekki til baka en hægt er að draga úr framvindu sjúkdómsins og stöðva frekari skemmdir. Forðast ætti kringumstæður sem erta eins og reyk og svælu.
Clik here to view.

Heimild: doktor.is
The post Langvinn lungnateppa appeared first on Fréttatíminn.