Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Cara er ekki tabú

$
0
0

Við fyrstu sýn virðist líf fyrirsætunnar Cöru Delevingne vera dans á rósum. Öll helstu tískuhús heims keppast um að fá hana til að ganga tískupallana fyrir sig, henni er boðið í öll helstu partíin og hún er einnig farin að reyna fyrir sér á hvíta tjaldinu, með ágætis árangri. Hún er auk þess fluggáfuð og fyndin í þokkabót og er ein skærasta stjarna samfélagsmiðlanna. Cara greindi hins vegar nýlega frá því í viðtali að hún hefur glímt við þunglyndi frá því á unglingsárunum.

Cara var í viðtali hjá Women in the World, viðtalsvettvangi á vegum New York Times þar sem konur sem notið hafa velgengni á ýmsum sviðum ræða það sem þeim liggur á hjarta. Cara ræddi við leikarann Rupert Everett og byrjaði hún á því að lesa fyrir hann ljóð eftir sjálfa sig. Að því loknu greindi hún frá upplifun sinni af andlegum veikindum. „Ég held að ég hafi gert það miklar kröfur á sjálfa mig að ég fékk andlegt áfall. Ég fór svo langt niður að ég hugsaði um að svipta mig lífi, ég vildi ekki lifa lengur,“ sagði Cara.

„Ég hélt að ég væri algjörlega ein, en á sama tíma vissi ég hversu heppin ég væri og að ég ætti yndislega fjölskyldu og vini, en það skipti ekki máli. Ég vildi bara að heimurinn myndi gleypa mig.“ Cara greindi svo frá reynslu sinni af þunglyndinu og þeirri meðferð sem hefur hjálpað henni að takast á við sjúkdóminn. Hún sagði meðal annars að jóga og það að læra að segja nei hafi verið hluti af hennar bataferli.

Þunglyndi og aðrir andlegir sjúkdómar hafa verið mikið í umræðunni í íslensku samfélagi þessa dagana og hefur umræðuhópurinn Geðsjúk verið stofnaður á Facebook. Hópurinn heldur utan um verkefnið „Geðsjúk: Ég er ekki tabú“ þar sem leitast er eftir að vekja athygli á geðsjúkdómum og uppræta þau tabú sem snúa að slíkum sjúkdómum. Kassamerkið #égerekkitabú heldur utan um umræðuna á Twitter. Þar hafa fjölmargir notendur stigið fram og opnað sig um geðsjúkdóma sína. Þó svo að Cara sjálf hafi ekki nýtt sér kassamerkið má með sanni segja að hún sé ekki tabú, hún vill opna umræðuna um geðsjúkdóma og takast á við þá.

Hér má sjá viðtalið í heild sinni: 

 

The post Cara er ekki tabú appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652