Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi hefur í tölvupósti til blaðamanns Fréttatímans beðist velvirðingar ef það uppátæki Forlagsins að senda skáldaða persónu í viðtal hafi valdið óþægindum.
Forsaga málsins er sú að í Fréttatímanum á föstudaginn birtist viðtal við höfund skáldsögunnar Lausnarinnar, Evu Magnúsdóttur, ásamt mynd af henni. Kom síðan á daginn að umræddur höfundur er ekki til, Eva Magnúsdóttir er dulnefni og myndin tekin af Shutterstock myndaveitunni.
Blaðamaður hafði samband við Jóhann Pál sem neitaði að tjá sig um málið en sendi tveimur tímum síðar tölvupóst með einni setningu: „Biðst velvirðingar ef þetta hefur kostað þig óþægindi,“ segir hann. Annað ekki.
Málið hefur vakið mikla athygli og hver fjölmiðillinn á fætur öðrum tekið það upp, en enn verjast Forlagsmenn allra frétta.
The post Útgefandi biðst velvirðingar appeared first on Fréttatíminn.