Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hjá Forlaginu, viðurkennir í samtali við Vísi.is að blekking Forlagsins varðandi höfundinn sem gengur undir dulnefninu Eva Magnúsdóttir og viðtal var við í Fréttatímanum á föstudaginn hafi gengið of langt. „Í mínum huga var þetta meiri samkvæmisleikur en staðreyndin er sú að höfundurinn vill halda nafni sínu leyndu. En það má vel vera að það hafi verið of langt gengið og mér þykir það mjög leitt.“
Jóhann Páll segir myndina af myndabankanum Shutterstock, sem notuð var með viðtalinu, hafa komið frá höfundinum sjálfum, en sama mynd er notuð í auglýsingum Forlagsins um bókina og því ljóst að Jóhann Páll hefur vitað allan tímann að myndin var ekki af höfundinum.
Hann fullyrðir að höfundurinn sjálfur hafi svarað spurningum blaðamanns Fréttatímans, en kýs að svara ekki þeirri augljósu spurningu hvers vegna blaðamaðurinn hafi ekki verið upplýstur um að um dulnefni væri að ræða. Það hefur viðgengist í gegnum tíðina að taka tölvupóstsviðtöl við höfunda sem skrifa undir dulnefni, án þess að ljóstra upp um raunverulegt nafn þeirra og nægir að nefna Stellu Blómkvist í því samhengi. Það er því vandséð hverju forlagið hugðist ná fram með þessum blekkingarleik.
Það vekur einnig athygli í þessu samtali Vísis við Jóhann Pál að hann virðist ekki sjá ástæðu til að biðja Fréttatímann og lesendur blaðsins afsökunar, aðeins blaðamanninn og talar enn eingöngu um óþægindi og vonbrigði. „Já, já, já. Við fórum of langt. Auðvitað þykir mér það mjög leitt að valda blaðamanni vonbrigðum og leiðindum með því.“
The post Útgefandi Forlagsins kallar blekkingu samkvæmisleik appeared first on Fréttatíminn.