Græna ljósið í samstarfi við Nordisk Film & TV Fond stendur fyrir Norrænni kvikmyndaveislu í Háskólabíói frá 23.-27. október. Á hátíðinni verða sýndar allar fimm myndirnar sem tilnefndar eru í ár til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Opnunarmynd hátíðarinnar að þessu sinni er framlag Svíþjóðar, kvikmyndin Gentlemen. Í einu aðalhlutverka myndarinnar er Íslendingurinn Sverrir Guðnason, sem meðal annars lék í verðlaunamyndinni Monica Z. Myndin fjallar um Klas Östergren, sem er ungur rithöfundur á skjön við umheiminn. Úr öruggu skjóli íbúðar sinnar í Stokkhólmi segir hann sögu fyrrum sambýlinga sinna.
Fúsi, eftir Dag Kára, er framlag Íslands. Fúsi er liðlega fertugur og býr einn með móður sinni. Líf hans er í afar föstum skorðum og lítið sem kemur á óvart. Þegar ung stúlka og kona á hans reki koma óvænt inn í líf hans, fer allt úr skorðum og hann þarf að takast á við ýmislegt í fyrsta sinn.
Stille hjerte frá Danmörku. Þrír ættliðir koma saman til helgardvalar. Sanne og Heidi hafa horfst í augu við það að móðir þeirra, sem er langt leidd af sjúkdómi, vill deyja áður en heilsu hennar hrakar enn frekar.
Mot naturen frá Noregi. Myndin er ferðalag um hugarfylgsni aðalpersónunnar, Martins, og þaðan út í óbeislaða náttúruna. Martin er einn á fjallgöngu og allar hugsanir og hreinskilnislega óvægnar vangaveltur hans um sjálfan sig og sína nánustu renna óritskoðaðar til áhorfenda.
Þau hafa flúið, frá Finnlandi. Saga tveggja táninga sem hafa einangrast frá umheiminum og leita stöðugt nýrra flóttaleiða frá samfélagi sem hefur snúið baki við þeim. Stúlkan er aðlaðandi og opinská en pilturinn er dulur og stamar. Leiðir þeirra liggja saman á betrunarheimili fyrir unglinga.
Dagskrá og miðasala á eMiði.is. Forsala er hafin á allar sýningar Norrænnar kvikmyndaveislu.
The post Norræn kvikmyndaveisla appeared first on Fréttatíminn.