Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í árslok 2014 hafi ríkisábyrgðir numið samtals 1.213 milljörðum króna. Stærstur hluti þeirra, eða 73%, var vegna lána til Íbúðalánasjóðs en um fjórðungur var vegna lána til Landsvirkjunar. Einungis tveir aðilar hafa fengið endurlán frá ríkissjóði frá árinu 2012: Lánasjóður íslenskra námsmanna og Vaðlaheiðargöng hf.
Í skýrslunni kemur fram að dæmi séu um að lögbundið umsagnarhlutverk Ríkisábyrgðasjóðs hafi verið skert í sérlögum. Þetta hafi t.d. verið gert þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að ábyrgjast skuldabréf Íslenskrar erfðagreiningar árið 2002. Þá hafi lögum um ríkisábyrgðir verið vikið til hliðar nánast í heild sinni. Þegar Alþingi veitti ráðherra heimild til að fjármagna Vaðlaheiðargöng árið 2012 hafi tilteknum ákvæðum laganna verið vikið til hliðar, þ. á m. ákvæðum sem eiga að takmarka áhættu ríkissjóðs. Ríkisendurskoðun geldur varhug við slíku verklagi. Stofnunin hvetur fjármála- og efnahagsráðuneytið til að hafa tilgang og markmið laganna ávallt að leiðarljósi þegar það leggur fram tillögur um ríkisábyrgðir eða endurlán ríkissjóðs.
The post Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneyti til að fara að lögum appeared first on Fréttatíminn.