„Um síðustu helgi leituðu tvær manneskjur til okkar eftir að hafa verið byrlað lyf í drykk á skemmtistað,“ segir Anna Bentína Hermansen, starfsmaður hjá Stígamótum. „Önnur þeirra hafði verið á skemmtistað í Reykjavík þar sem hún datt niður, missti allan mátt og varð alveg stjörf. Hún hafði ekki drukkið mikið áður en þetta átti sér stað og sem betur fer var kærastinn með henni þegar þetta gerðist því hann hringdi í neyðarlínuna um leið,“ segir Anna Bentína sem blöskrar viðbrögð neyðarlínunnar. „Kærastanum var sagt að fara bara með stúlkuna heim og láta hana æla. Mér finnst mjög alvarlegt að fólk fái svona viðbrögð því hvað sem er hefði getað verið að hrjá stúlkuna, jafnvel heilablóðfall.“
Mikilvægt að tilkynna glæpinn
Anna Bentína furðar sig á viðbrögðum neyðarlínunnar við lyfjabyrlan og reyndar líka á móttöku hjúkrunarfræðings á bráðamóttöku Landspítalans. „Önnur stúlka sem kom til okkar hafði farið á bráðamóttökuna eftir að hafa verið byrlað lyf á skemmtistað þar sem hún talaði við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn sagði stúlkunni að þar sem ekki hefði verið um nauðgun að ræða að þá yrði ekki tekin skimun á blóðsýni. Það finnst mér líka mjög alvarlegt því þetta er ekkert nema nauðgunartilraun.“

„Hlutverk okkar á Stígamótum er að segja frá reynslu fólks til að upplýsa samfélagið og reyna að hafa áhrif til batnaðar. Okkur finnst þetta mjög alvarlegt mál,“ segir Anna Bentína. Hún segir erfitt að meta það hvort nauðgunartilraunir á borð við þessar séu að aukast. „Tvær manneskjur hafi komið til Stígamóta þessa einu helgi en líklegast séu þær sem hafi lent í þessu miklu fleiri. Þegar við skimum eftir þessu og gerum komuskýrslu við fólk þá er ein spurningin; „hvers konar ofbeldi hefur þú orðið fyrir“ og þá heyrir þetta undir nauðgunartilraun. Við þurfum í raun að bæta þetta kerfi og setja nýjan flokk inn í komuskýrsluna því við erum að heyra meira af þessu,“ segir Anna Bentína sem ítrekar mikilvægi þess að tilkynna glæpinn til lögreglu.
Bráðamóttaka sér ekki aukningu
„Við sjáum ekki aukningu í þessum málum hjá okkur,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, deildarstjóri Samskiptadeildar Landspítalans. „Ef grunsemdir eru fyrir því að einstaklingi hafi verið byrlað lyf og hann kemur á neyðarmóttöku innan 2 sólarhringa eru teknar blóðprufur en lyfin eru fljót að hverfa úr blóðinu. Blóðið er svo skimað. Einstaklingar sem leita til neyðarmóttöku ráða því sjálfir hvort haft er samband við lögreglu. Í þeim tilvikum sem einstaklingar eru undir 18 ára aldri er það gert í samráði við forráðarmenn.“
The post Tveimur konum byrlað lyf í drykk appeared first on Fréttatíminn.