Vigdís Másdóttir leikkona hefur verið fjarri sviðinu í fimm ár en stígur á það á ný í Kassa Þjóðleikhússins eftir viku þegar verkið 90210 Garðabær eftir Heiðar Sumarliðason verður frumsýnt. Ein ástæða þess að Vigdís hvarf af sjónarsviðinu er að hún varð fyrir alvarlegri líkamsárás komin fjóra mánuði á leið og það dró langan dilk á eftir sér. Hún hafði reyndar slæma reynslu af sviðsljósi almennt síðan hún tæplega 14 ára gömul var valin Fordstúlka Íslands og varð aðhlátursefni Spaugstofunnar um leið og fólk krossaði sig yfir þessari meðferð á vesalings barninu.
„Árásin setti mig í ákveðnar skorður. Ég var ófrísk og óttaðist mjög að missa barnið, eða að eitthvað væri að því. Þessi verknaður hafði það í för með sér að það kom risaskarð í öryggi mitt og það smitaðist út í allt. Áfallastreituröskun er svo ótrúlega merkilegt fyrirbæri og mér finnst að sömu leiti að mér hafi verið gefin gjöf þarna, til þess að ég öðlaðist meiri og betri skilning á mér; af hverju ég geri það sem ég geri og er eins og ég er. Áfallastreituröskun er mæld á ákveðnum skala og ég skoraði mjög hátt á þeim skala mjög lengi. Viðbrögð mín við ýmsu áreiti voru algjörlega órökrétt, til dæmis þurfti ég að fela mig á bak við hurð ef síminn hringdi til þess að hann sæi mig ekki. Ég gerði mér fulla grein fyrir því að þetta væri fáránlegt, en ég réði bara ekki við mig, ég varð að gera þetta. Ég hef alltaf litið á sjálfa mig sem tiltölulega sterkan einstakling og mér finnst mjög áhugavert að skoða það hvernig þessi sterki einstaklingur varð allt í einu fullkomlega vanmáttugur, hefur enga stjórn á neinu. Þetta ástand varði í langan tíma, sjálfsagt líka vegna ótta míns um að það væri ekki allt í lagi með barnið,“ segir Vigdís um eftirköst árásarinnar.
Ítarlegt viðtal við Vigdísi um Fordstúlkuferilinn, árásina og leiklistina birtist í Fréttatímanum á morgun.
The post Hrottaleg árás setti lífið úr skorðum appeared first on Fréttatíminn.