Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ellefu hundruð síðna stríðsárabók Páls Baldvins

$
0
0

„Ég byrjaði að vinna að þessu fyrir rúmum þremur árum en þetta er gömul hugmynd sem ég hafði rætt við Jóhann Pál fyrir löngu, að búa til stríðsárasögu,“ segir Páll Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðingur og landskunnur gagnrýnandi.

Páll Baldvin hefur látið lítið fyrir sér fara síðan hann hætti sem bókagagnrýnandi hér á Fréttatímanum fyrir þremur árum. Hann hefur setið við skriftir og í næsta mánuði er afrakstur vinnu hans væntanlegur í verslanir; ellefu hundruð blaðsíðna stórvirki um stríðsárin á Íslandi. Bókin nefnist Stríðsárin 1938-1945.

Vildi stækka sviðið

„Það hefur mikið verið skrifað um þennan tíma en hugmyndin var að reyna að finna einhvern víðari fókus en verið hefur í þeim ritum sem hafa komið út – eftir Gunnar M. Magnúss, Tómas Þór Tómasson og Þór Whitehead. Ég vildi stækka aðeins sviðið og ekki fjalla bara um tímann frá hernámi að stríðslokum. Þess vegna nær bókin frá ársbyrjun 1938 fram til áramóta 1945,“ segir Páll.
„Ástæðan er fyrst og fremst sú að þá var íslenskt samfélag þegar komið í algjöra öng og í raun orðið gjaldfall á íslenska ríkinu og farið að lokast fyrir alla markaði. Erlend ríki voru farin að ásælast mjög hér aðstöðu. Þeir aðilar sem verða ráðandi næstu árin í stjórnmálum og listalífi eru allir komnir fram og það var upplagt að hafa þennan inngang að þessu verki, árin 38 og 39,“ segir Páll.

Búast má við því að Stríðsárin á Íslandi muni verða í einhverjum jólapökkum þetta árið, enda vantar ekki áhugafólk um sagnfræði hér á landi.
Búast má við því að Stríðsárin á Íslandi muni verða í einhverjum jólapökkum þetta árið, enda vantar ekki áhugafólk um sagnfræði hér á landi.

Allt frá barnaverndarmálum til svínaræktar

Mikil heimildavinna liggur að baki skrifunum. Páll segir að til að hafa sem trúverðugasta stemningu í verkinu hafi hann reynt að nota sem mest af samtímaheimildum, blöð, tímarit og endurminningar. Bókin er sömuleiðis ríkulega skreytt af myndum sem Páll sótti á Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafnið og einkasöfn. Sumar þeirra hafa aldrei komið fyrir sjónir almennings áður.
„Þessi vinna var svoleiðis að það var alveg hægt að halda áfram endalaust. Þegar þú ert kominn með allt undir, frá barnaverndarmálum og yfir í svínarækt og allt þar á milli. Ég hef ekki tölu á öllum greinum og myndum í bókinni en hún átti að verða 500 síður en endaði í kringum 1.100 síður.“

Tímabil sem er partur af lífi mínu

Hefur þessi tími verið þér lengi hugleikinn?
„Já, eigandi foreldra sem voru um tvítugt árið 1944 þá er þetta tímabil partur af minnisbanka manns og lífi. Ég var byrjaður að skoða það talsvert áður en að þessu verkefni kom,“ segir Páll sem liggur ekki á skoðunum sínum frekar en fyrri daginn:
„Hvernig stendur á því að það var svona mikil þöggun um einstaka hluti og hvers vegna er alltaf talað um það sama? Hvaða hagsmunum þjónar það að tala alltaf um að nokkrar stelpur hafi sofið hjá erlendum hermönnum og sumar gifst þeim? Af hverju er það lykilatriðið? Hvað er verið að breiða yfir? Af hverju breytist ástandið, eins og það var kallað, frá því að vera hugtak um þá ótrúlegu veltu sem var í samfélaginu yfir í að ná um stelpur sem skemmtu sér með dátum?“

 

The post Ellefu hundruð síðna stríðsárabók Páls Baldvins appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652