Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Högni Egils treður upp með pabba sínum á Jómfrúnni

$
0
0

Fley tríó fær góðan liðsauka á tónleikum þess á Jómfrúnni á laugardag þegar Högni Egilsson stígur á stokk og syngur klassískar djassperlur. Högni er sonur Egils B. Hreinssonar píanóleikara sem segir samstarfið við soninn vera frábært. Spáð er góðu veðri á laugardag.

„Við vorum með svipaða tónleika á Jómfrúnni í fyrra en þá var Jóel Pálsson líka með okkur. Hann átti ekki heimangengt núna. Við feðgar höfum oft og mörgum sinnum fengist við ýmislegt saman í heimahúsum en við höfum ekki troðið mikið upp á opinberum vettvangi fyrir utan tónleikana í fyrra. Það getur vel verið að við gerum meira af því í framtíðinni, ég vonast til þess enda samstarfið frábært,“ segir Egill B. Hreinsson píanóleikari.

Egill treður upp á sumartónleikum á Jómfrúnni á laugardag með tríói sínu, Fley. Auk hans skipa tríóið Gunnar Hrafnsson sem leikur á kontrabassa og Kjartan Guðnason trommari. Sérstakur gestur á tónleikunum verður sonur Egils, hinn kunni tónlistarmaður Högni Egilsson úr hljómsveitunum Hjaltalín og GusGus.

Fley tríó er fimm ára gamalt og hefur spilað nokkrum sinnum í Reykjavík, að sögn Egils. „Tríóið varð til þegar okkur bauðst að spila á bandarískum skemmtiferðaskipum og dregur nafn sitt af því,“ segir hann.
Tríóið mun leika íslensk lög sem færð hafa verið í djassbúning en síðan mun Högni syngja klassískar djassperlur. „Þetta eru hefðbundin viðfangsefni djassleikara, þessi klassísku lög og eitthvað til viðbótar því. Högni mun syngja eitthvað af þessum sígrænu perlum úr djassbókmenntunum, Duke Ellington og slíka meistara,“ segir Egill.

Tónleikarnir fara fram utandyra á Jómfrúartorginu á laugardag. Þeir hefjast klukkan 15 og standa til klukkan 17. Aðgangur er ókeypis. Egill kveðst hlakka mikið til tónleikanna. „Ég hef oft spilað á Jómfrúnni og það er alltaf skemmtilegt. Svo skemmir ekki fyrir að það er spáð góðu veðri. Ég er þakklátur fyrir að fá að vinna með þessum frábæru tónlistarmönnum. Bæði þeim Gunnari og Kjartani í hljómsveitinni en ekki síður Högna. Maður er voða stoltur af syninum og ánægður hvað hann hefur staðið sig vel.“

The post Högni Egils treður upp með pabba sínum á Jómfrúnni appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652