Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Körfubolti á mannamáli

$
0
0

Sportið er oft fyrirferðarmikið í mínu sjónvarpsáhorfi, enda „sportidjót.“ Á veturna er gósentíð okkar sem fylgjumst mikið með fótbolta og mörgum þykir nóg um. Ég er það heppinn að vera ekki dæmdur á mínu heimili fyrir þennan áhuga þar sem ég er sanngjarn og horfi á rómantískar gamanmyndir með konunni án þess að fara í fýlu.
Á dögunum byrjaði körfuboltavertíðin af miklum krafti hér á Íslandi og á Stöð 2 sport var brugðið á það ráð að byrja með umræðuþætti í anda Pepsi markanna í sumar og messu enska boltans. Í fyrstu var þetta eitthvað sem ég kveikti ekkert á, enda er ég ekki mikill körfuknattleiksáhugamaður. Hef ekki horft á körfu síðan snemma á tíunda áratugnum þegar NBA var í beinni á nóttunni, og minn maður Patrick Ewing gladdi mitt litla hjarta. Ég rambaði samt á þennan umræðuþátt um Dominos deildina um daginn og verð að segja að ég festist. Þessir gaurar sem voru á skjánum, sem ég kann engin deili á, töluðu mannamál. Létu leikmenn bara heyra það ef þeir voru slakir og mærðu svo þá sem gátu eitthvað í hástert. Ef eitthvað var þá fannst mér brotin úr leikjunum skemma fyrir. Ég hefði getað hlustað á þá allt kvöldið frussa út úr sér gullnum frösum og líkingum sem ég hefði ekki einu sinni ímyndunarafl til þess að koma frá mér. Þetta er frábær viðbót fyrir okkur „sportidjótana.“

The post Körfubolti á mannamáli appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652