Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Efast um að ohf rekstrarform henti starfsemi RÚV

$
0
0

Skýrsla nefndar sem menntamálaráðherra skipaði til að skoða rekstur RÚV var birt í gær. Þar kemur fram að rekstur RÚV sem opinbers hlutafélags hefur aldrei verið sjálfbær og telur nefndin nauðsynlegt að skoða hvort það rekstrarform henti starfseminni.

Rekstur RÚV ohf. frá stofnun félagsins árið 2007 hefur ekki verið sjálfbær. Gjöld hafa verið meiri en tekjur á tímabilinu í heild og hefur hallarekstur verið fjármagnaður með auknu ríkisframlagi, lántökum og frestun afborgana lána. Þetta kemur fram í skýrslu nefndar undir stjórn Eyþórs Arnalds sem menntamálaráðherra skipaði til greina þróun á starfsemi RÚV ohf. frá stofnun, þann 1. apríl 2007, og fram til dagsins í dag.
Nefndin skilaði skýrslunni í gær, fimmtudag. Þar kemur fram að rekstrarkostnaður RÚV hefur að jafnaði verið 5,4 milljarðar á ári frá stofnun RÚV ohf., á föstu verðlagi, og að á síðasta rekstrarári var heildarkostnaður 5,3 milljarðar króna. Aukning vaxtaberandi skulda árin 2012-2014 var alls 1.100 milljónir króna, sem er um 1,5 milljón króna á dag.
Nefndin telur mikilvægt að endurskoða þjónustuhlutverk RÚV í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á neytendahegðun, sem koma meðal annars fram í miklum samdrætti í áhorfi á hefðbundna sjónvarpsdagskrá, sérstaklega hjá ungu fólki.
Nefndin veltir einnig upp nokkrum álitamálum í skýrslunni. Meðal annars þeirri spurningu hvort ohf. rekstrarformið sé heppilegt fyrir starfsemi RÚV þar sem reynslan sýni að félagið sé ekki rekið með takmarkaðri ábyrgð þegar ávallt sé gert ráð fyrir að ríkissjóður rétti af fjárhag félagsins.
Annað stórt álitamál sé hvort RÚV sé best til þess fallið að ná fram markmiðum ríkisins sem snúa að íslenskri menningu, tungu og lýðræðisumræðu, sérstaklega þar sem innan við 60 prósent af heildarútgjöldum RÚV fari í beinan kostnað við innlenda dagskrá.

Stjórnendur RÚV snúast til varna

Núverandi stjórnendur RÚV sendu í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu þar sem gerðar eru athugasemdir við ýmis atriði í skýrslunni. Nefna má þann tölulega samanburð sem nefndin gerir á milli RÚV og 365. Margoft hafi komið fram að slíkur samanburður sé illmögulegur vegna ólíks eðlis almannaþjónustumiðla og einkamiðla. Þá sé í skýrslunni stuðst við óopinberar og óstaðfestar tölur úr rekstri einkafyrirtækis í samkeppnisrekstri. Ef styðjast ætti við upplýsingar úr rekstri 365, gefnar upp af stjórnendum þess fyrirtækis, þá þyrfti að vera hægt sannreyna þær tölur með gegnsæjum hætti.
„Það má eiginlega segja að þessi samantekt um fortíðina sé svarthvít,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. „Hún er svört að því leyti að hún staðfestir það sem við höfum sagt um fortíðarvandann og skuldabaggann. Hún er hvít að því leyti að hún sýnir að lyft hefur verið grettistaki í að snúa rekstrinum við. Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu hafa rekstrargjöld RÚV lækkað um 11%. Fyrri stjórnendur gerðu vel í því að verja þjónustuna og öfluga dagskrá þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við sem tókum við 2014 höfum svo enn frekar skorið niður yfirbyggingu fyrirtækisins og náð að efla dagskrána á sama tíma. Við leigðum út hluta útvarpshússins og seldum byggingarétt á lóðinni sem mun skila mestu skuldalækkun í sögu félagsins. Stjórnvöld þurfa hins vegar að leiðrétta mistök frá hlutafélagsvæðingunni og ráðamenn að standa við yfirlýsingar sínar um að útvarpsgjald verði ekki lækkað frekar. Ég er þess fullviss að við getum haldið áfram að reka fyrirtækið á sem allra hagkvæmastan hátt, og styrkt enn frekar gæði og sérstöðu dagskrárinnar í samvinnu og þjónustu við almenning.“

 

Úr skýrslunni:

Árið 2013 gerði RÚV samning við
Vodafone um dreifingu, sem fól í sér
skuldbindingu um 4 milljarða króna,
sem ekki er á meðal skulda í
efnahagsreikningi félagsins.

• Árið 2014-15 samdi RÚV við LSR um að
fresta afborgunum og vöxtum af
skuldabréfinu um 570 milljónir króna. Við frestun
afborgana bætast vextir og verðbætur
við lánið sem jafngilda lántöku um 215
milljóna króna.

• Í kjölfar sölu byggingaréttar er gert ráð
fyrir að skuldir lækki um 1,5 milljarða króna.

The post Efast um að ohf rekstrarform henti starfsemi RÚV appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652