Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, er eðli málsins samkvæmt áberandi þessa helgina. Hann þykir harður og fylginn sér þegar kemur að samningum fyrir hátíðina en öllum ber þó saman um að undir því yfirborði leynist hjarta úr gulli.
Grímur Atlason ólst að mestu upp hjá móðurömmu sinni, Bergljótu Þorfinnsdóttur, í Hlíðunum og varð snemma hugfanginn af tónlist. Byrjaði að spila á gítar og bassa tólf ára gamall og strax í Hlíðaskóla var hann kominn í hljómsveit. Bassinn varð ofan á og að sögn er hann sleipur bassaleikari þótt eigin tónlist hafi á síðari árum lent í öðru sæti á eftir tónlist annarra. Hann þykir nokkuð stífur á meiningunni, en sanngjarn og orðheldinn þegar upp er staðið. Hann hefur „öran púls“, eins og einn viðmælandinn orðaði það, og á erfitt með að vera kyrr á sama stað lengi í einu, sérstaklega þar sem áfengi er haft um hönd, enda hefur hann verið edrú í 20 ár eftir brösótt samband við áfengi á yngri árum. Honum leiðist innantómt kurteisishjal og vill helst alltaf vera að gera eitthvað. Sem framkvæmdastjóri Iceland Airwaves nýtur hann virðingar sem nær langt út fyrir landsteinana. „Hann er fáránlega vel tengdur í tónlistarsenunni um allan heim og gaman að fylgjast með honum á festivölum þegar bransaliðið kemur saman, þar er hann fullkomlega á heimavelli,“ segir samstarfsmaður. „Grímur er kamelljón, hefur sett sig í alls konar hlutverk og masterað þau frá byrjun hvort sem hann er tónlistarmógúll, bæjarstjóri eða þroskaþjálfi.“
„Grímur hefur í ríkum mæli til að bera það sem Íslendinga skortir oft svo áþreifanlega í menningarstarfi, en það er úthald. Hann hefur eflt Airwaves hátíðina jafnt og þétt og gert hana að glæsilegustu tónlistarhátíð landsins með því að vera vakinn og sofinn yfir henni, þrjóskast við þegar vandamál hafa komið upp, verið harður og fylginn sér í samningum en sanngjarn og orðheldinn þegar upp er staðið,“ segir náinn samstarfsaðili í framkvæmd Iceland Airwaves, og það virðist gilda um önnur svið tilverunnar líka. „Grími tekst að vera, á sama tíma, mjög „solid náungi“ og frekar hvatvís maður. Hann er prinsippmaður með lítið þol fyrir kjaftæði,“ segir fjölskyldumeðlimur. „Hann hefur sterkt pólitískt nef en hefur því miður gefið VG allt of oft séns í gegnum tíðina. Grímur er mun frjálslyndari vinstri maður en finnst í þeim félagsskap og veit ég ekki alveg hvaða flokkur myndi henta honum í dag, jú líklega Píratarnir sem þó eru ef til vill of hægri sinnaðir á köflum.“
Sem bæjarstjóri í Bolungarvík naut Grímur vinsælda og virðingar og fyrrum bæjarstjórnarmeðlimur þar segir komu hans og fjölskyldunnar í bæinn hafa verið mikla lyftistöng. „Það var kannski verið að brjóta óskráða reglu með því að velja einhvern úr öðrum geira en viðskiptum eða sjávarútvegi, en um leið og hann var kominn til starfa var ljóst að hann er jafn stór manneskja að innan eins og að utan. Hann stóð sig vel sem bæjarstjóri, kom þorpinu vel á kortið og barðist ötullega fyrir ýmsum réttlætismálum fyrir sveitarfélagið. Það var mikill missir að honum og allri fjölskyldunni úr bænum.“
Stærð Gríms verður viðmælendum tíðrætt um, en hann er einn níutíu og tólf á hæð, eins og konan hans orðar það. Hann stundaði körfubolta á yngri árum og spilar enn, hefur óþrjótandi áhuga á körfubolta og fótbolta og ekki spillir að yngstu börnin tvö hafa nú byrjað að iðka körfubolta sem gefur honum enn fleiri tækifæri til að fylgjast með því þó að þau keppi með „röngu liði“ en Grímur og íþróttafélagið Valur eru í ævilöngu hjónabandi. Það þykir viðmælendum ýmist kostur eða löstur, eftir því hvar í félagi þeir standa sjálfir, en allir virða þó staðfestu hans í stuðningnum við Val. „Grímur er 100% maður hvort sem er í vinnu eða áhugamálum. Hann er líka mjög örlátur við krakkana sína, sinnir þeim vel og vill allt fyrir fjölskylduna gera,“ segir einn viðmælandinn.
Annað sem þykir lýsa Grími vel er að þrátt fyrir andúð hans á áfengisneyslu og afleiðingum hennar lumar hann gjarna á lögg handa götunnar mönnum til að létta þeim lífið. „Grímur er líka góður við litla manninn og sést stundum gauka sjúss að strákunum í Austurstræti ef hann hefur tök á. Þannig gerir hann lífið aðeins léttara fyrir þá sem líður hvað verst.“
Burtséð frá því að vera Valsari finnur fólk Grími fátt til foráttu, helst að hann sé of óþolinmóður og hafi litla þolinmæði fyrir kjaftæði. „Grímur þolir ekki óheiðarleika og hefur sem betur fer lært að loka á slíkan félagsskap frekar en að reyna að vinna úr því með tilheyrandi svekkelsi. Hann getur orðið alveg brjálaður í slíku umhverfi, hef séð hann bregðast mjög hart við slíku fólki,“ segir náinn aðstandandi. „Ég myndi segja að galli Gríms sé kannski helst að hann getur tekið hlutunum svolítið persónulega, en það er fyrst og fremst því hann er að vanda sig í því sem hann gerir.“
Grímur Atlason
Fæddur 6. desember 1970
Foreldrar:
Björk Líndal, sjúkraliði
Atli Magnússon, rithöfundur og þýðandi
Grímur var alinn að mestu upp hjá móðurömmu sinni Bergljótu Þorfinnsdóttur
Maki: Helga Vala Helgadóttir, lögfræðingur og leikkona
Börn:
Emil – móðir Soffía Bjarnadóttir
Ásta Júlía
Arnaldur
Stjúpdóttir Snærós Sindradóttir
Nám:
Ísaksskóli, Hlíðaskóli, MH, Þroskaþjálfaskóli Íslands
Ferill:
Styrktarfélag vangefinna
Félagsþjónustan í Reykjavík
Bæjarstjóri Bolungarvíkur 2006-2008
Sveitarstjóri í Dalabyggð 2008-2010
Framkvæmdastjóri Iceland Airwaves 2010 –
Hljómsveitir:
Rosebud, Drep, Dr. Gunni og Grjóthrun í Hólshreppi.
Grímur var í 6. sæti lista VG fyrir alþingiskosningarnar 2009.
The post Hvatvís Valsari sem þolir ekki kurteisishjal appeared first on Fréttatíminn.