Tónlistarmaðurinn Egill Ólafsson stendur á ákveðnum tímamótum. Í nýútkominni bók sem nefnist Egils sögur – á meðan ég man, segir Egill sögur frá lífshlaupi sínu, bæði frá bernsku og ferlinum sem spannar um 40 ár, og af nógu er að taka. Egill hefur drepið niður fæti á mörgum sviðum listarinnar og fáir íslenskir listamenn sem hafa tileinkað sér jafn marga stíla og stefnur og hann hefur gert. Hann stefndi á óperusöng á unglingsárum og leiklistin togaði fast í hann á sínum tíma, en alltaf var það músíkin sem var sterkust í hans lífi. Egill sér framtíðina fyrir sér á báti með Tinnu, eiginkonu sinni, og á síðasta ári dvöldu þau um þrjá mánuði á hafi úti.
„Þetta eru Egils sögur og undirtitillinn er Á meðan ég man, og sá titill er kominn frá Tómasi Magnúsi Tómassyni, því hann man að ég man aldrei neitt,“ segir Egill Ólafsson.
„Ég skrifaði sögur í bókina hans, reyndar eftir hans minni og nú kemur Tómas og geldur með þessum líka fína undirtitli á þessa bók. Ég hef löngum verið að skrifa hjá mér gamlar sögur,“ segir Egill. „Sérstaklega sögur sem pabbi sagði mér og ég heyrði hann segja öðrum, hann var ekta fínn sagnamaður. Það voru sumpart sögur úr minni frumbernsku og fyrir mína tíð. Þær rata nú ekki margar í bókina en sumar eru þarna og ég er ekki frá því að stíllinn sé frá þeim gamla kominn.
Við Páll Valsson höfum skrifað þessa bók í sameiningu. Páll heldur utan um sagnfræðina og ferilinn, fléttar við framvinduna sögu langömmu minnar, Sigríðar Jónsdóttur, og varðar þráðinn með kunnuglegum staðreyndum úr lífi mínu og þjóðar. Ég spinn svo áfram með frásögnum af atburðum, sérstæðum og minnisstæðum karakterum, samverkamönnum, samtíðarmönnum og ídólum. Segi af mínum nánustu og kærustu, fjarskyldir ættingjar eru þarna og skávenslaðir og ekki síst segi ég af sterkum konum í mínu lífi. Móður mína, Margréti Erlu, nefni ég auðvitað fyrst í því tilviki. Bókinni má lýsa sem litlum mósaíkmyndum á festi tímans sem er bláþráðurinn. Ég reyni að ná utan um tíðaranda og sviðsetja minningar. Ég trúi því að við höfum þörf fyrir að spegla okkur í sögum annarra til að fá botn í eigið líf, viðmið í eigið líf, til að stilla af kompásinn svo för okkar megi halda áfram. Þegar best lætur getur góð saga orðið til þess að maður gangi hreinlega í endurnýjun lífdaga. Auðvitað er það fyrst og fremst mín sýn á tilveruna, sem kemur fram í bókinni og meðvitað færi ég í stílinn þegar sveiflan verður mest, en Páll sér um að kúrsinn sé í lagi, en ég fæ að búa til veður og magna upp mennskuna.“
Ítarlegt viðtal er við Egil Ólafsson er í Fréttatímanum um helgina
The post Á meðan ég man appeared first on Fréttatíminn.