Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Heimilisofbeldi: Kvenkyns gerendum veitt meðferð

$
0
0

„Okkar reynsla er sú að þeir sem leita til okkar eru þannig staddir að það tekur ekki langan tíma að hjálpa þeim að hætta að nota líkamlegt ofbeldi en það tekur lengri tíma að hætta að nota andlegt ofbeldi,“ segir Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur sem vinnur fyrir verkefnið Karlar til ábyrgðar, en hann og Andrés Ragnarsson sálfræðingur hafa séð um verkefnið frá því það var stofnað árið 1998. Einar Gylfi segir tilvísunum hafa fjölgað mjög mikið eftir breyttar verklagsreglur lögreglunnar en á miðju þessu ári var 43% aukning miðað við sama tíma í fyrra.

Gerendur hafa flestir sjálfir upplifað ofbeldi

Rannsóknir sýna að hátt í 70% gerenda hafa sjálfir upplifað ofbeldi og stór hluti vinnunnar við að hjálpa þeim felst í að sýna fram á þessi tengsl. „Þetta er mjög sterk fylgni og einn hluti af okkar starfi felst í því að hjálpa gerendum að sjá þessi tengsl. Þeir sem beita ofbeldi og líta á það sem vandamál vilja gjarna hætta því en segjast ekki ráða við sig. „Ég veit að ég á ekki að gera þetta en ég bara missi stjórn á mér,“ „konan mín veit hvaða takka hún á að ýta á svo ég missi stjórnina,“ eru algengar setningar hjá þessum gerendum. Þá er svo mikilvægt að gerandinn átti sig á því hvaðan þetta viðbragð komi. Afhverju túlkarðu það sem pirrar þig sem svo mikla ógnun að þú þurfir að beita ofbeldi? Viðbrögðin eru umfram tilefnið og algjörlega óviðeigandi og yfir öll mörk. Það er það sem við hjálpum gerendum við að átta sig á.“

Konur beita líka ofbeldi

„Við völdum á sínum tíma að kalla þetta Karlar til ábyrgðar því það að taka 100% ábyrgð á eigin hegðun er lykillinn að bata,“ segir Einar Gylfi en verkefnið var í upphafi einungis hugsað fyrir karla. Það mun þó breytast á næstunni þegar boðið verður upp á aðstoð við kvenkyns gerendur. „Þetta var fyrst og fremst hugsað fyrir karla því þó það sé ekki svo mikill munur á tíðni eftir kynjum, þá er gríðarlegur munur á alvarleika brotanna eftir kynjum. Í 90% tilfella alvarlegs ofbeldis er karl gerandi en svo er líka kynbundinn munur á því hvernig þolandi upplifir ofbeldið. Konur upplifa mun meiri ógnun af ofbeldi heldur en karlar sem eru beittir ofbeldi í nánum samböndum. Það þýðir samt ekki að þeir upplifi ekki vanlíðan eða að ofbeldið hafi ekki alvarlegar afleiðingar fyrir börnin sem verða vitni að því. Konur beita líka ofbeldi þó höggin séu ekki jafn þung. Það er mikilvægt að leggja áherslu á kynbundinn mun en það gengur samt ekki lengur að láta eins og hitt sé ekki til. Þess vegna er það jafnréttiskrafa að bjóða upp á meðferð fyrir bæði kynin og það ætlum við að gera á næstunni, og skipta þá í leiðinni um nafn á verkefninu.“

Árið 2013 vann Félagsvísindastofnun HÍ úttekt á meðferðarúrræðinu Karlar til ábyrgðar fyrir Jafnréttisstofu þar sem fram kemur að karlarnir sem gengu í gegnum meðferðina voru mjög ánægðir með hana. 93% töldu samskipti við maka / fyrrverandi maka hafa breyst til batnaðar.
Síðustu þrjá mánuði áður en meðferð hjá Körlum til ábyrgðar hófst sögðust 54% karla hafa beitt eiginkonu sína eða kærustu líkamlegu ofbeldi einu sinni eða oftar, 2% höfðu beitt kynferðislegu ofbeldi og 74% höfðu beitt andlegu ofbeldi. Aftur á móti sögðust einungis 4% svarenda einhvern tíma hafa beitt líkamlegu ofbeldi á undangengnum þremur mánuðum og 22% höfðu beitt andlegu ofbeldi.
Sjö af hverjum tíu konum, sem tóku þátt í könnuninni, töldu andlega heilsu sína hafa batnað eftir að maki þeirra eða kærasti hóf meðferð hjá Körlum til ábyrgðar. Á undangengnum þremur mánuðum sögðust aftur á móti 15% kvenna hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi af hendi maka, 11% kváðust hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi á þessu tímabili og 50% sögðust hafa verið beittar andlegu ofbeldi.
Umsjónarmenn verkefnisins munu á næstunni bjóða upp á sömu meðferðarþjónustu fyrir konur.

The post Heimilisofbeldi: Kvenkyns gerendum veitt meðferð appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652