Jólasýning Borgarleikhússins að þessu sinni er Njála í uppfærslu Þorleifs Arnarssonar og Mikaels Torfasonar. Æfingar standa yfir og mikil leynd liggur yfir öllu ferli og efnistökum verksins. Meðal leikara í sýningunni eru þau Björn Stefánsson, Brynhildur Guðjónsdóttir og dansarinn Erna Ómarsdóttir og ekkert hefur verið gefið upp um hver mun leika Njál sjálfan. Sú kjaftasaga er farin á flug að jafnvel verði það kona sem leiki Njál og eru þær Brynhildur og Erna taldar líklegar í þeim hópi. Alexía Jóhannsdóttir, kynningarfulltrú Borgarleikhússins, vildi lítið tjá sig um málið þegar hún var spurð.
„Síðast þegar ég vissi var ekkert búið að ákveða neitt um þetta,“ segir hún. „Þetta er víst allt í vinnslu hver leikur hvað. Síðast þegar ég leit inn voru bara tugir lítra af gerviblóði á æfingum og mikið af pilsner, og mikil leit meðal allra sem koma að þessu. Það getur í rauninni verið hver sem er, sem leikur þetta hlutverk. Það mun bara koma í ljós,“ segir Alexía. Ljóst er að hver sem mun leika Njál þá verður fróðlegt að fylgjast með undirbúningnum og líklegt þykir að þetta verði ein áhugaverðasta sýning ársins í íslensku leikhúsi.
The post Er Njáll kona? appeared first on Fréttatíminn.