Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fékk innblástur frá tröllkonu

$
0
0

Steinar Berg gefur út sína fjórðu bók um þessar mundir og nefnist hún Trunt Trunt, sögur af tröllum, álfum og fólki. Steinar hefur undanfarin 13 ár búið og rekið gistiheimili að Fossatúni í Borgarfirði og segir umhverfið uppsprettu sagna og ævintýra. Hann er alltaf með sögur í kollinum og hefur gaman af því að sinna þeim á milli annarra starfa.

„Ég fór í sagnaarfinn sem er í þjóðsögum Jóns Árnasonar og nota sem efnisveitu í þessum skrifum mínum,“ segir Steinar Berg. „Það sem ég geri, fyrir utan það að færa í stílinn og bæta við persónusköpun, er að ég staðset sögurnar á ákveðnum stöðum. Þessar sögur eru allar skrifaðar inn í ákveðið umhverfi og ákveðna náttúru,“ segir hann. „Það er enginn saga þarna sem er eins í grunninn fyrir utan söguna af Búkollu. Það er búið að marg umskrifa hana í gegnum tíðina svo ég ákvað að hafa hana með. Að mörgu leyti er litlu við þann söguþráð að bæta, þó ég bæti þó smá við. Sumar eru alveg frumsamdar og eru skrifaðar inn í þetta umhverfi.“
Steinar keypti jörðina að Fossatúni árið 2001. Flutti alfarið þangað ári síðar og hóf rekstur ásamt konu sinni á staðnum árið 2005. Steinar hafði skrifað um tónlist og útgáfumál í mörg ár enda um árabil plötuútgefandi. „Það var aldrei neinn rithöfundur í maganum á mér,“ segir hann. „Þetta er bara ein af þessum tilviljunum lífsins. Í Fossatúni erum við á bökkum Grímsár og þar eru Tröllafossar fyrir utan,“ segir Steinar. „Ég fór að spyrjast fyrir um af hverju það nafn sé á fossunum. Það vissi enginn neitt um það. Svo um jólin 2006 vorum við með jólahlaðborð á staðnum og lýstum upp fossana. Þá blasti við steingert tröllkonuandlit beint fyrir framan okkur,“ segir hann. „Meira að segja var önnur með henni. Þetta hafði enginn séð fyrr. Þetta vakti svo mikla athygli mína að það endaði með því að ég gaf mig á tal við þessa tröllkonu,“ segir hann. „Úr því varð saga. Bæði út frá Tröllafossum og öðrum örnefnum sem enginn veit af hverju eru til. Þannig urðu þessi skrif til og nú eru komnar þrjár bækur. Þær hafa allar verið þýddar á erlend tungumál og selst prýðilega meðal ferðamanna.
Að setjast við skriftir er skrýtin upplifun sem mér líkar afar vel,“ segir Steinar. „Ég er mjög duglegur og ég á efni í allavega þrjár bækur í viðbót, svo veit maður aldrei hvað af þessu kemur út. Það að skrifa hefur veitt mér mikla ánægju. Mér finnst þetta afar skemmtilegt. Ég geng með þetta í maganum og kem að þessu við og við. Ég sest ekki niður skrifa eitthvað sem verður svo tilbúið. Ég sest niður með hugmynd sem ég vinn að í einhvern tíma, sem er mjög skemmtilegt,“ segir hann.
Trunt trunt eru 12 smásögur sem myndskreyttar eru af sex myndlistarmönnum. Steinar valdi hvern teiknara fyrir hverja sögu. „Það er minn draumur og markmið að þessar bækur séu læsilegar fyrir vel flesta aldurshópa,“ segir hann. „Þetta eru ævintýrasögur og það er hægt að skoða staðina sem þær gerast á. Teikningarnar hjálpa líka til við lesturinn og ég valdi þessa sex teiknara eftir hverri sögu, eftir því hvaða saga hentar hverjum. Þetta gerir það að verkum að engin saga er eins. Mig langar að halda áfram að þróa þessar sögur og hugmyndirnar eru margar. Næsta vor reikna ég með að setja rafrænar útgáfur á mörgum tungumálum sem tengdar verða við GPS tæki, sem gerir ferðamönnum kleift að fara á þá staði þar sem sögurnar gerast. Það er svona vetrarverkefnið,“ segir Steinar Berg rithöfundur.

23595

The post Fékk innblástur frá tröllkonu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652