Tónlistarmaðurinn Egill Ólafsson stendur á ákveðnum tímamótum. Í nýútkominni bók sem nefnist Egils sögur – á meðan ég man, segir Egill sögur frá lífshlaupi sínu, bæði frá bernsku og ferlinum sem spannar um 40 ár, og af nógu er að taka. Egill hefur drepið niður fæti á mörgum sviðum listarinnar og fáir íslenskir listamenn sem hafa tileinkað sér jafn marga stíla og stefnur og hann hefur gert. Hann stefndi á óperusöng á unglingsárum og leiklistin togaði fast í hann á sínum tíma, en alltaf var það músíkin sem var sterkust í hans lífi. Egill sér framtíðina fyrir sér á báti með Tinnu, eiginkonu sinni, og á síðasta ári dvöldu þau um þrjá mánuði á hafi úti.
„Þetta eru Egils sögur og undirtitillinn er Á meðan ég man, og sá titill er kominn frá Tómasi Magnúsi Tómassyni, því hann man að ég man aldrei neitt,“ segir Egill Ólafsson.
„Ég skrifaði sögur í bókina hans, reyndar eftir hans minni og nú kemur Tómas og geldur með þessum líka fína undirtitli á þessa bók. Ég hef löngum verið að skrifa hjá mér gamlar sögur,“ segir Egill. „Sérstaklega sögur sem pabbi sagði mér og ég heyrði hann segja öðrum, hann var ekta fínn sagnamaður. Það voru sumpart sögur úr minni frumbernsku og fyrir mína tíð. Þær rata nú ekki margar í bókina en sumar eru þarna og ég er ekki frá því að stíllinn sé frá þeim gamla kominn.
Við Páll Valsson höfum skrifað þessa bók í sameiningu. Páll heldur utan um sagnfræðina og ferilinn, fléttar við framvinduna sögu langömmu minnar, Sigríðar Jónsdóttur, og varðar þráðinn með kunnuglegum staðreyndum úr lífi mínu og þjóðar. Ég spinn svo áfram með frásögnum af atburðum, sérstæðum og minnisstæðum karakterum, samverkamönnum, samtíðarmönnum og ídólum. Segi af mínum nánustu og kærustu, fjarskyldir ættingjar eru þarna og skávenslaðir og ekki síst segi ég af sterkum konum í mínu lífi. Móður mína, Margréti Erlu, nefni ég auðvitað fyrst í því tilviki. Bókinni má lýsa sem litlum mósaíkmyndum á festi tímans sem er bláþráðurinn. Ég reyni að ná utan um tíðaranda og sviðsetja minningar. Ég trúi því að við höfum þörf fyrir að spegla okkur í sögum annarra til að fá botn í eigið líf, viðmið í eigið líf, til að stilla af kompásinn svo för okkar megi halda áfram. Þegar best lætur getur góð saga orðið til þess að maður gangi hreinlega í endurnýjun lífdaga. Auðvitað er það fyrst og fremst mín sýn á tilveruna, sem kemur fram í bókinni og meðvitað færi ég í stílinn þegar sveiflan verður mest, en Páll sér um að kúrsinn sé í lagi, en ég fæ að búa til veður og magna upp mennskuna.“

Flugmiðanum skilað
Egill Ólafsson hefur víða komið við á löngum ferli og varla hægt að stíga niður fæti á einhverju sviði sem Egill hefur ekki í það minnsta daðrað við.
„Sigurbjörg Þrastardóttir sagði uppi á Skaga um daginn, að ef margmiðlun ætti við í einhverjum tilfella, þá ætti hún við mig,“ segir hann. „Ég hef dreift mér ansi víða, skulum við segja, en að mestu dvalið við tónlistina samt. Ég var um tíma að búa til músík í leikhúsunum og áttaði mig ekki á því fyrr en nýverið að ég hef samið tónlist við um 25 leiksýningar. Ég kom svo bakdyramegin að leiklistinni, ef svo má segja,“ segir Egill. „Ég man að ég var munstraður fyrst inn í leikhúsið sem tónlistarmaður og áður en ég vissi af var ég farinn að leika líka, gjarnan hlutverk tengd músíkflutningi. Sveinn Einarsson réð mig þarna fyrst í Gullna hliðið og svo lék ég fleiri hlutverk á sviði í framhaldi af því. Í kjölfarið kom svo íslenska kvikmyndavorið,“ segir Egill og heldur áfram. „Það hagaði þannig til að leiklistarnám lagðist af um tíma á landinu. Og þá fannst kvikmyndaleikstjórum vanta unga leikara í bíómyndir, ég hagnaðist á því. Þjóðleikhússkólinn hætti og stuttu seinna hóf SÁL skólinn göngu sína. Þannig liðu nokkur ár án þess að ungir leikarar útskrifuðust. Ég var alltaf eins og grár köttur í kringum SÁL skólann. Margir af mínum vinum voru þar og ég aðstoðaði við músík ásamt Valla Guðjóns í nemendauppfæslum skólans. Það var einmitt á Jólaballi í SÁL skólanum sem ég hitti Tinnu.“
„Ég var í tónlistarskólanum á þessum tíma og hafði reyndar tekið stefnuna á Mílanó og var kominn með farseðilinn í hendurnar til borgar söngsins, en þá skall á með Spilverki þjóðanna,“ segir Egill. „Löngunin að gera alvöru úr þeirri tónsköpun sem við vorum að fást við varð yfirsterkari og á endanum lagði ég bara inn miðann hjá Flugfélaginu og skrifaði bréf til skólans um að ég mundi líklega koma að ári – sem ekki varð.“
Heldurðu að þú hefðir náð langt sem óperusöngvari?
„Ég held nú ekki,“ segir Egill.
„Ég ætla samt að vera svolítið ánægður með mig og segja að ég hefði örugglega haft margt í það, en röddin hefur allar götur verið lýrísk, og þannig raddir eiga oft erfiðar um vik í óperunni, held ég.“
„Vinsældir myndarinnar urðu til þess að margt af því sem á eftir kom féll í skuggann af vinsældum myndarinnar. Ekki þar fyrir að myndin stendur auðvitað fyrir sínu og við erum stoltir af vinsældum hennar,“
Með allt á hreinu blár skuggi
Leiklistin er harður húsbóndi og tónlistin er það líka og Egill segir að um tíma hafi verið erfitt að reiða sig á gyðjurnar tvær. Hann segir frá því í bók sinni að það hafi verið mikilvægt augnablik í hans lífi þegar hann áttaði sig á því að hann þyrfti að velja á milli. „Ég var farinn að fá stærri hlutverk og á einum tímapunkti er ég farinn að vinna flotta rullu í Ríkharði þriðja í Þjóðleikhúsinu,“ segir hann. „Þá skall á með einhverjum heimsfrægðardraumum hjá Stuðmönnum og ég hætti í sýningunni. Þetta er bókstaflega árið 1986 þegar Strax fer til Kína. Meikþráin náði ákveðnu hástigi og það átti bara að kýla á þetta,“ segir hann. „Við vorum sem betur fer bara rétt grúppa á röngum tíma, eða röng grúppa á réttum tíma, þannig að meikið fór fyrir lítið.
Ég hef oft velt því fyrir mér og kem inn á það í bókinni, þessari leynd sem fylgdi Stuðmönnum lengi vel. Í gamla daga, fyrir okkar tíma, þegar músíkfólk var að semja dægurlög og dægurlagatexta þá var ekki óalgengt að höfundar kæmu fram undir uppdiktuðu höfundarnafni. Ástæðan var gjarnan að það fylgdi því skömm að fást við dægurtónlist,“ segir Egill. „Ég er ekkert frá því að þetta hafi líka verið uppi á teningnum í Stuðmönnum, þegar hugmyndin kom upp um höfundarnöfn. Stuðmenn ætluðu sér e.t.v. annan vettvang í lífinu þegar þetta var, 1975, og því gat verið heppilegt að leggja ekki nafn sitt við það hopp og hí. Svo gerist auðvitað þessi íslenski „suksé“ og á einni nóttu verða Stuðmenn landsfrægir. Ég hafði þá nokkrum árum áður verið viss um að líf mitt ætti að snúast um músík og ekkert annað og þegar ég byrjaði í Tónlistarskólanum 1970, fylgdi því feginleiki að vera kominn á réttan stað – en svo sóttu á efasemdir eins og oft gerist hjá ungum mönnum.“
Með allt á hreinu er ein vinsælasta kvikmynd íslenskrar kvikmyndasögu og tónlistin er innprentuð í alla Íslendinga á öllum aldri. Egill segir þó þessa mynd hanga yfir Stuðmönnum sem blár skuggi í vissum skilningi. „Vinsældir myndarinnar urðu til þess að margt af því sem á eftir kom féll í skuggann af vinsældum myndarinnar. Ekki þar fyrir að myndin stendur auðvitað fyrir sínu og við erum stoltir af vinsældum hennar.“
„Við lentum líka í barningi á Eystrasaltinu þar sem við vorum í einhverjum 18 metrum. En við fengum líka okkar skammt af ánægju og gott betur en það. Því verður ekki lýst með orðum þegar maður er kominn út á sjó og búinn að slökkva á vélinni. Vindurinn er í seglunum og maður líður hljóðlaust um hafið, og stefnan getur verið hver sem er, hvert sem hugurinn leitar.“
Sjómaður siglir um höf
Egill tók þá ákvörðun, ásamt Tinnu konu sinni, á síðasta ári að láta langþráðan draum verða að veruleika. „Í algeru bríaríi buðum við í gamla seglskútu sem við sáum á sölu í Hollandi. Skútan leit vel út við fyrstu sýn og allt virtist virka eins og til var ætlast, þrátt fyrir háan aldur, en henni fylgdi engin saga frá fyrri eigendum og það setti okkur ögn út af laginu. Eftir að hafa ráðfært okkur við sérfróða aðila þarna ytra, ákváðum við að bjóða umtalsvert lægri upphæð en sett var upp, þar sem það fylgdi kaupunum augljós áhætta. Með það fórum við heim og gerðum okkur svo sem engar vonir. Svo leið tíminn og nokkrum vikum síðar fáum við upphringingu þar sem við erum spurð hvort við höfum enn áhuga á bátnum. Eftir andvökunótt ákváðum við að láta slag standa, við lifum bara einu sinni, ekki satt, og til hvers eru draumar ef þeir daga bara uppi og fá aldrei að rætast,“ segir hann.
„Bátur er fljótandi fyrirbæri sem aldrei er kyrr og við vissum sem var að með þessari ákvörðun værum við í raun að hefja nýjan kafla í lífi okkar og við vorum bæði tilbúin til þess. Tinna var nýhætt sem þjóðleikhússtjóri og við sáum fram á að geta gefið þessum nýja fjölskyldumeðlimi þann tíma sem til þyrfti,“ segir Egill. „Ég hafði tekið pungapróf í Stýrimannaskólanum fyrir einhverjum 13 árum, en það er meira en að segja það að stökkva bara um borð og sigla af stað. Það kom á daginn að Tinna er mjög sjóhraust og í henni er sjómannsblóð eins og mér. Ég fór til Hollands snemma í vor og sigldi skútunni við annan mann út á Norðursjóinn og upp Kílarskurðinn til Danmerkur, þar sem hún var tekinn í slipp,“ segir Egill. „Rúmum mánuði síðar vorum við Tinna bæði komin út og fylgdum eftir síðustu viðgerðum og endurbótum og í lok júní var hún tilbúin til sjósetningar. Fyrst fórum við í skemmri ferðir en lögðum svo upp frá Egernsund á suður Jótlandi og sigldum upp með vesturströndinni og síðan fyrir Sjálandsodda, niður Eyrarsundið og upp Eystrasaltið og þaðan í skerjagarðinn sænska allt upp til Stokkhólms.
Við vorum á sjó í 10 vikur, að vísu lögðum við alltaf að á kvöldin, en þetta var mikil eldskírn og ákaflega gaman. Við lentum í allskonar veðrum. Allt upp í sjö til átta metra ölduhæð þar sem við vorum eina skipið á sjó, og mér leist stundum ekkert á blikuna,“ segir hann. „En við stóðum þetta af okkur og vorum stolt og ánægð þegar við lögðum að höfn eftir tólf tíma barning. Aldan í Kattegat getur verið varasöm, en við tækluðum þetta mjög vel, þó ég segi sjálfur frá. Við lentum líka í barningi á Eystrasaltinu þar sem við vorum í einhverjum 18 metrum. En við fengum líka okkar skammt af ánægju og gott betur en það. Því verður ekki lýst með orðum þegar maður er kominn út á sjó og búinn að slökkva á vélinni. Vindurinn er í seglunum og maður líður hljóðlaust um hafið, og stefnan getur verið hver sem er, hvert sem hugurinn leitar.
Nú er báturinn við höfn í Smálöndunum í Svíþjóð og draumurinn er að sigla meira og ferðast víða. Okkur langar að fara vatnaleiðina niður Evrópu. Þar eru nokkrir kostir í boði en við erum helst að stefna á að fara frá Pétursborg niður í Kaspíahafið og þaðan yfir í Svartahafið og svo inn í Miðjarðarhafið. Sigla svo þaðan til Madeira og niður að vesturströnd Afríku og vonandi komumst við af stað sem fyrst,“ segir Egill. „Það fylgir því frelsistilfinning að vera á sjó, fyrir utan það hvað mér finnst það gott. Það er dálítið eins og að fara heim í jóðlífið. Þar sem maður er aldrei kyrr, og það er notaleg þreyta sem fylgir því að hafa verið úti á opnu hafi að takast á við náttúruöflin í heilan dag.“

Alltaf að
„Ég er að verða 63 ára gamall og mér finnst síðustu 20 ár hafa liðið mjög hratt,“ segir Egill. „Ég býst við því að næstu 20 líði enn hraðar. Við erum að komast á þann stað að geta ráðið meira okkar tíma og það er hrífandi hugmynd að dvelja meira til sjós,“ segir hann. „Hvað varðar tónlistina þá dreymir mig alltaf um að gera meiri músík og það hefur lengi legið í loftinu að ég muni setja saman einhverskonar band. Það þarf að vera band sem á endanum spilar músík sem væri eftir minni forskrift, auðvitað í samvinnu við þá sem mundu nenna að vera með mér. Ég hef það alltaf í bakhöndinni.
Svo hef ég líka hugsað til þess að maður má ekki heldur vera að þvælast mikið fyrir þeim sem nýir eru,“ segir hann. „Það er mikið af ofboðslega skemmtilegum hlutum að gerast í tónlistarlífinu í dag. Bæði í poppi og í djassinum. Mér líður afskaplega vel að sjá alla þessa grósku en það kitlar mann alltaf að vera með. Allt hefur sinn tíma í þessu og það er ómögulegt að vita hvaða skref maður tekur næst. Það er gaman að sjá þessa nýju tónlist, sem er alvarlega hugsuð, fá það brautargengi sem hún fær. Þá hugsa ég „Það er ennþá von.“ Svoleiðis efni tekur meiri tíma og það sem er erfitt er að fólk hefur ekki tímann. Það vill geta tileinkað sér allt og vita það fyrirfram hvort eitthvað sé gott, í stað þess að komast að því sjálft. Maður þarf að finna það rétta fyrir sig sjálfan. Þetta er leit og það er ekki hægt að lifa lífinu eftir einhverri forskrift. Ef maður ætlar að lifa eftir því þá er það hol hamingja.“
The post Langþráður draumur listahjóna appeared first on Fréttatíminn.