„Nú er barinn eins og við höfum alltaf viljað hafa hann,“ segir Steinn Stefánsson, rekstrarstjóri Microbars, fyrsta barsins hér á landi sem sérhæfði sig í sölu á handverksbjór.
Microbar hefur verið rekinn í Austurstræti frá árinu 2012 en eigendur hans misstu húsnæðið þar á dögunum. Microbar var opnaður í nýjum húsakynnum að Vesturgötu 2 um síðustu helgi. Staðurinn er í kjallara veitingahússins Restaurant Reykjavík, áður Kaffi Reykjavík, þar sem einhvern tímann var frægur ísbar – áður en túristasprengjan reið yfir Ísland.

„Við Árni eigandi vorum með augastað á öðru húsnæði en Birgitte, kona Árna og meðeigandi, tók fram fyrir hendurnar á okkur og valdi þennan stað. Það reyndist hárrétt hjá henni,“ segir Steinn en staðurinn er huggulega innréttaður – hæfilega hrár með stólum úr Góða hirðinum og flottum ljósum. Auk þess eru myndir á veggjunum eftir Hugleik Dagsson. „Hugleikur sagði að þetta væri verk í vinnslu, hann sagði að alltaf þegar hann kæmi og fengi sér bjór ætli hann að teikna eina mynd til viðbótar,“ segir Steinn.
Á nýja staðnum eru 14 bjórdælur. Misjafnt er hvaða bjórar eru í boði en í vikunni voru þar átta bjórar frá Gæðingi, sem er í eigu sömu aðila og Microbar, tveir frá Kalda, tveir frá Borg brugghúsi og sitt hvor bjórinn frá Steðja og Ölvisholti.

„Þetta er eini staður á Íslandi þar sem litlu brugghúsin fá að koma saman og aðal áherslan verður áfram á íslenska bjóra á krana. Við munum þó líka bjóða upp á erlenda bjóra á krana endrum og sinnum – það fer bara eftir því hvað við náum í hverju sinni,“ segir Steinn. Auk bjóra á dælu er verið að leggja lokahönd á bjórlista staðarins en á honum verða hátt í 200 tegundir á flösku.
Athygli vekur að bjórdælurnar á Microbar eru einkar glæsilegar, merki brugghúsanna hafa verið skorin út í málm á smekklegan hátt. „Þetta var bara gert af mafíunni sjálfri, í heimabæ Árna, á Vélaverkstæði KS,“ segir Steinn.

Ekki fer framhjá bjóráhugafólki sem heimsækir Micro að brugghúsið Gæðingur hefur verið að færa sig upp á skaftið. Einn af þeim bjórum sem nú eru í boði er Zar – sem er imperial Stout bjór sem þroskaður var á mezcaltunnu í níu mánuði. Frábærlega vel heppnaður bjór.
„Ég og Árni ákváðum að þetta yrði já-árið. Að við myndum hætta að tala um að gera hlutina og bara gera það sem okkur dettur í hug,“ segir Steinn. „Hluti af því var að brugga fleiri flotta bjóra og í ár höfum við gert Zar, Túrgosa, MIB og Skyrgosa. Þetta eru allt virklega flottir bjórar.“



The post Heimili litlu brugghúsanna appeared first on Fréttatíminn.