Kvennakór Garðabæjar hefur verið starfræktur í 15 ár. Í október tók kórinn þátt í alþjóðlegri kórakeppni í Barcelona og gerði sér lítið fyrir og vann til tvennra verðlauna, gullverðlauna í flokki kvennakóra og silfurverðlauna í flokki kirkjuverka. Stjórnandi og stofnandi kórsins, Ingibjörg Guðjónsdóttir, segir viðurkenninguna frábært merki um gott starf kórsins á undanförnum árum. Á mótinu tóku um 2000 manns þátt frá öllum heimshornum.
„Okkur líður óskaplega vel með þetta,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, stofnandi og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar, um tvenn verðlaun kórsins á alþjóðlegri kórakeppni í Barcelona. „Við vorum búnar að stefna á þetta í um tvö ár að fara á þessa keppni, sem er árleg,“ segir hún. „Keppnin er skipulögð af stóru fyrirtæki sem sér um að halda utan um ýmsar kórakeppnir og viðburði um allan heim. Það eru til ólympíuleikar og Evrópukeppnir í kóraheiminum og þetta var mjög stór keppni í Barcelona, enda vinsælt að fara þangað. Keppnin var í lok október og við fengum gull í flokki kvennakóra, sem var okkar stærsti sigur,“ segir hún. „Svo hlutum við silfur í flokki kirkjuverka. Við fluttum eitt íslenskt verk í hvorum flokki. Annað eftir Báru Grímsdóttur og hitt eftir Mist Þorkelsdóttur, svo við héldum upp á kvennaárið mikla í leiðinni og vorum stoltar af því,“ segir Ingibjörg.
„Ég stofnaði þennan kór fyrir 15 árum. Ég hafði stýrt kór íslenskra kvenna í Kaupmannahöfn áður og fékk svolítið bakteríuna þar,“ segir hún. „Mér datt þetta í hug þegar ég kom heim og þar sem ég er Garðbæingur í húð og hár og fékk allt mitt tónlistaruppeldi þar fannst mér eðlilegast að stofna hann þar. Auðvitað eru konur í kórnum sem koma alls staðar af höfuðborgarsvæðinu en megin kjarninn eru konur úr Garðabæ. Þetta er heilmikið starf hjá kórnum,“ segir hún. „Þegar maður ætlar að gera eitthvað sem er svona metnaðarfullt þá kallar það auðvitað á meiri vinnu og meðlimir helga sig starfinu meira og færa fórnir fyrir starfið.
Við það að fara í svona keppni á alþjóðavettvangi var gaman að sjá það að vinnan var að skila sér. Þarna voru kórar frá Kína, Rússlandi og Púertó Ríkó og mörgum af löndum Evrópu, svo það var virkilega gott að upplifa afraksturinn af allri vinnunni. Við erum með árlega vortónleika og hefðbundna aðventutónleika sem verða þann 9. desember fyrir þessi jól. Við höfum minni tíma en áður í undirbúning aðventunnar sökum þessarar ferðar til Barcelona en við spýtum bara í lófana,“ segir hún. „Við erum með góðan samstarfssamning við Garðabæ, og bæjarfélagið leitar oft til okkar um allskonar verkefni sem við erum afskaplega stoltar af.
Aðventutónleikarnir okkar verða í Digraneskirkju að venju. Við höfum alltaf farið með tónleikana okkar yfir hæðina. Það er því miður enginn fallega hljómandi tónleikastaður í Garðabæ, ennþá,“ segir Ingibjörg Guðjónsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar.
The post Gull og silfur í Barcelona appeared first on Fréttatíminn.