Ég á tvö börn sem er kannski ekki beinlínis saga til næsta bæjar nema fyrir það að einu sinni – jafnvel tvisvar á dag langar mig að kyrkja þessi sömu börn – eða þannig. Það er rifist og slegist allan daginn heima hjá mér og ég er farinn að leita í áfengið bara strax um hálfsexleytið. Það var því talsvert raunveruleikatékk á sunnudagskvöldið að í þætti Ragnhildar Steinunnar, Ísþjóðin, birtist tíu barna móðir í Hrútafirði á skjánum í sjónvarpinu mínu. Tíu börn! Það eina sem ég hugsaði á meðan ég horfði á þáttinn var að ef undirritaður ætti tíu börn sæti ég annað hvort í fangelsi eða í bólstruðu herbergi á geðsjúkrahúsi. En hún, tíu barna móðirin sem hlýtur að vera einhvers konar dýrlingur, var bara hress, ódrukkin og allsendis ólíkleg til morðtilrauna. Talaði jafnvel um að hún gæti bætt tveimur við. Pabbinn, sem nota bene á 13 stykki, virtist hins vegar búinn að fylla kvótann og bar af sér frekari barneignir – í bili að minnsta kosti.
Já, og svo fara þau með öll börnin til útlanda. Við hjónin fórum með okkar tvö börn til útlanda nú í haust og ég var bara búinn á því – nálægt því að stinga af til Bólívíu eða hvaða annars lands sem ekki er með framsalssamninga við Ísland. En þau hjónin sem eiga samtals 13 börn! Þau koma ekki bara aftur og það með fullfermi heldur gera þetta jafnvel árlega, að fara með allan skarann utan. Meira að segja til Ameríku sem er minnst sex tíma flug. Ég bara skil þetta ekki.
Þátturinn var sum sé hin besta skemmtun. R. Steinunn hélt sig mátulega til hlés á meðan athyglin var á viðfangsefni þáttarins sem er gott. Það eina sem ég velti fyrir mér er; hvernig á að toppa þetta? Tíu börn! Hvort næstu þættir nái að halda dampi verður bara að koma í ljós en vonandi eru Steinunn og hennar fólk með allt á tæru – vonandi.
The post Tíu börn! Tíu börn!! Tíu börn!!! appeared first on Fréttatíminn.