Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Sagnfræðin ber glæpinn ofurliði

$
0
0

Hér mæta þeir aftur til leiks Flóvent og Thorson, lögreglumennirnir sem við kynntumst í Skuggasundi, og takast á við sitt fyrsta mál saman; morð á farandsala sem enginn veit til að hafi angrað nokkurn mann, morð sem lítur út eins og hreinræktuð aftaka. Vegna fagmennskunnar við morðið og tegundar byssunnar sem notuð er við það beinast sjónir lögreglu að ameríska hernámsliðinu og þannig hefst samstarf lögreglumannanna tveggja, því Thorson er í herlögreglunni. Böndin berast þó að ýmsum fleirum en hermönnum og leikurinn fer um víðan völl, inn í blandast njósnir og ástamál, ástand og hermannahatur og allt lítur út fyrir að úr verði hinn eldfimasti kokteill framan af.

23727 Þýska húsið

Þrátt fyrir tök Arnaldar á formi og stíl glæpasögunnar og yfirburðaþekkingu á sögutímanum tekst honum illa að ná upp spennu og upp úr miðri bók er lesandanum orðið nokk sama um hver er sekur og hver ástæðan fyrir glæpnum er. Les þó auðvitað áfram því lýsingar höfundar á andrúmi og lífsháttum í Reykjavík hernámsáranna eru áhugaverðar og forvitnilegar og opna glugga inn í annan tíma og aðra veröld. Heldur er þó lopinn teygður þegar á líður og orsakir glæpsins frekar ótrúverðugar þegar upp er staðið.

Stærsti galli sögunnar er þó hversu litlausar persónur lögreglumennirnir tveir eru og hversu lítið við fáum að kynnast þeim. Ein forsenda þess að lesandinn njóti glæpasögu er að hann fái áhuga á rannsakendunum og skipi sér í lið með þeim í leit að lausn gátunnar. Því er ekki að heilsa hér og þrátt fyrir tilraun til að gera Thorson áhugaverðan með hintum um samkynhneigð hans verður hann aldrei meira en einvíður. Flóvent kynnist lesandinn nánast ekki neitt, enda virðist líf hans með eindæmum tilbreytingarlaust og ekki bjóða upp á neina skoðun. Mikill skaði.

Þýska húsið stendur og fellur með áhuga höfundarins á sögutímanum og lýsingum hans á Reykjavík þess tíma og sem slík stendur sagan fyllilega fyrir sínu. Sem glæpasaga er hún hins vegar hvorki fugl né fiskur og spurning hvort Arnaldur eigi ekki bara að hætta að blanda glæpum inn í bækur sínar og snúa sér alfarið að skrifum sagnfræðilegra skáldsagna. Það er greinilega þar sem áhugasvið hans liggur og lesandinn væri eflaust mun sáttari við lestur slíkra sagna en glæpasagna sem ekki tekst að viðhalda spennu.

 

The post Sagnfræðin ber glæpinn ofurliði appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652