Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Stórfækkun eldri framhaldsskólanema milli ára

$
0
0

Fjöldatakmarkanir á nemendum yfir 25 ára aldri í framhaldsskólum tóku gildi um síðustu áramót og í óundirbúnum fyrirspurnartíma á þinginu beindi Oddný G. Harðardóttir alþingismaður spurningu sinni til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um hvort þær breytingar væru árangursrík hagstjórn, að hans mati. Bjarni sagði í svari sínu að grunnhugsunin á bak við breytta stefnu stjórnvalda væri sú að það hafi skort fjármagn á bak við hvern nemanda í framhaldsskólakerfinu. Auk þess hafi námsframvinda verið ófullnægjandi þegar Ísland væri borið saman við önnur ríki. Oddný segir það hins vegar ófullnægjandi að takmarka aðgengi að menntun út frá aldri. „Við eigum framhaldsskólana saman og við eigum ekki að taka það í mál að þar fái fólk ekki skólavist vegna aldurs,“ segir Oddný.

„Við eigum framhaldsskólana saman og við eigum ekki að taka það í mál að þar fái fólk ekki skólavist vegna aldurs.“

Nemendum 25 ára og eldri fer fækkandi

Í fyrirspurn sem Oddný lagði fyrir þingið um fjölda nemenda í framhaldsskólum kemur fram að nemendum 25 ára og eldri hefur fækkað um 742 í framhaldsskólum landsins milli áranna 2014 og 2015. Bóknámsnemendum fækkar um 447 og verknámsnemendum um 295. „Að baki þessum tölum eru einstaklingar sem vildu styrkja stöðu sína með því að mennta sig til starfa þar sem stúdentsprófs er krafist,“ segir Oddný.

Fjöldatakmarkanir á nemendum yfir 25 ára aldri í framhaldsskólum tóku gildi um áramótin. Breytingarnar voru til umræðu í óundirbúnum fyrispurnatíma á Alþingi þar sem Oddný G. Harðardóttir, varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýndi breytingarnar og benti á að nemendum 25 ára og eldri fer fækkandi milli ára. Mynd/Hari
Fjöldatakmarkanir á nemendum yfir 25 ára aldri í framhaldsskólum tóku gildi um áramótin. Breytingarnar voru til umræðu í óundirbúnum fyrispurnatíma á Alþingi þar sem Oddný G. Harðardóttir, varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýndi breytingarnar og benti á að nemendum 25 ára og eldri fer fækkandi milli ára. Mynd/Hari

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að rekja megi ástæður fækkunarinnar til annarra þátta en fjöldatakmarkana. „Við erum með allt annað atvinnuástand í dag en þegar fjöldinn fór upp í þessum aldurshópi í skólana og það er því eðlilegt að nemendum fækki í þessum aldurshópi.“ Oddný tengir fækkunina óhikað við fjöldatakmarkanir. „Staðan er sú að það er verið að loka á nemendur, 25 ára og eldri sem vilja sækja sér bóknám í fjölbrautaskólum víðs vegar á landinu. Þess vegna kemur þetta sérstaklega illa niður á nemendum á landsbyggðinni. Þessar breytingar eru því í senn slæm hagstjórn og byggðastefna.“

Leiði til lægra menntunarstigs

Í svari sínu sagði fjármála- og efnahagsráðherra einnig að fólk yfir 25 ára aldri hefði önnur úrræði til þess að ljúka stúdentsprófi. Fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar ásamt háskólabrú Keilis, frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík og háskólagátt Háskólans á Bifröst eru á meðal úrræða sem í boði eru fyrir þá eldri. „Frumgreinadeildirnar eru reknar fyrir ríkisfé þó svo að nemendur greiði skólagjöld til viðbótar,“ segir Oddný. Kostnaður við nám í frumgreinadeildum hleypur þó alla jafna á hundruðum þúsunda.

„Staðreyndin er sú að ríkið er ekki að setja minni peninga í menntunina, heldur þurfa nemendur, 25 ára og eldri, að setja meiri peninga í menntun sína. Auk þess duga próf frá frumgreinadeildum einungis hér á landi og því er um ákveðna takmörkun að ræða,“ segir Oddný. Að hennar mati þarf að endurskoða þessar breytingar. „Það er klikkuð stefna að banna fólki að labba yfir götuna til að ná sér í menntun sem ríkið borgar og krefjast þess að það sæki sér menntun annars staðar á landinu, sem ríkið borgar einnig fyrir. Það vantar eitthvað inn í þessa hugsun og þetta er dýrara fyrir ríkið vegna þess að þetta mun lækka menntunarstig og það hefur slæmar aukaverkanir til lengri tíma.“

Að sögn Unnar Brár munu fjöldatakmarkanirnar verða teknar upp í allsherjar- og menntamálanefnd á næstunni. „Stjórnarandstaðan er búin að biðja um umræðu um þetta mál í nefndinni og hún mun að öllum líkindum fara fram í næstu viku.“

 

The post Stórfækkun eldri framhaldsskólanema milli ára appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652