Borgarráð hefur falið borgarlögmanni að höfða mál á hendur ríkinu vegna ákvörðunar Ólafar Nordal innanríkisráðherra um að hafna lokun NA/SV flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Innanríkisráðherra hefur hafnað kröfu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að loka NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli, svokallaðri neyðarbraut, og á fundi borgarráðs á fimmtudagsmorgun var samþykkt að fela borgarlögmanni að höfða mál á hendur ríkinu vegna málsins.
Á fundinum var lagt fram svarbréf innanríkisráðherra, þar sem mótmælt er rökum Reykjavíkurborgar að innanríkisráðuneytinu fyrir hönd íslenska ríkisins sé skylt að tilkynna lokun NA/SV flugbrautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum. Þá er mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna fyrirhugaðra byggingaráforma á Hlíðarendasvæði mótmælt. Vegna tilvísunar Reykjavíkurborgar til mögulegrar málshöfðunar á hendur íslenska ríkinu til viðurkenningar á kröfum sínum um að brautinni verði lokað og skipulagsreglum fyrir Reykjavíkurflugvöll breytt, er tekið fram að telja verði eðlilegt að Reykjavíkurborg leggi fyrir dómstóla að fá úr þeim álitamálum leyst þannig að skorið verði úr um hvort sú skylda hvíli á ríkinu að loka flugbrautinni eða skipulagsreglum breytt.
The post Borgin í mál við ríkið appeared first on Fréttatíminn.