Ísland vermir fyrsta sætið í árlegri úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) á kynjajafnrétti, sjöunda árið í röð.
145 ríki voru tekin til greina í úttektinni þar sem lagt er mat á stöðuna á fjórum sviðum; út frá aðgengi að heilbrigðis- og félagsþjónustu, aðgengi að menntun, þátttöku í stjórnmálum og efnahagslegri stöðu þar sem horft er til atvinnuþátttöku, launajafnréttis, heildaratvinnutekna og hlutfalls kynja meðal stjórnenda og sérfræðinga.
Það sem Íslandi er helst talið til tekna er jafnt aðgengi stúlkna og drengja að menntun og völd kvenna, þ.e. í forsetastóli og í stóli forsætisráðherra en fæðingarorlofið, sér í lagi 90 dagar fyrir feður, á einnig þátt í þessum árangri Íslands. Norðurlandaþjóðirnar eru sem fyrr í efstu sætum listans en það vekur athygli að Danmörk er ekki í efstu sætum listans í ár, fellur úr 5. sæti í það 14. Á eftir Íslandi er Noregur í öðru sæti, Finnland í þriðja og Svíþjóð í því fjórða.
Í úttektinni segir að tæp 20% vanti á til að jafna stöðu kynjanna að fullu meðal þessara þjóða. Í fimmta sæti er Írland, Rwanda í sjötta sæti og Filippseyjar í því sjöunda.
The post Ísland í fyrsta sæti í kynjajafnrétti appeared first on Fréttatíminn.