Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Gæluverkefni sem vatt upp á sig

$
0
0

Kristján Kristjánsson, KK, er þjóðargersemi og hefur verið frá því hann stökk inn í íslenskt tónlistarlíf með sinni fyrstu plötu fyrir hálfum þriðja áratug. Á þeim tíma hefur hann gefið út fjölmargar sólóplötur en einnig plötur með Magnúsi Eiríkssyni og öðrum. Undanfarin fimm ár hefur verið unnið að heimildarmynd um KK sem gefin verður út í næstu viku. Í heimildarmyndinni Á Æðruleysinu fylgjumst við með KK og félögum á tónleikum og bregðum okkur í róður með honum á trillunni Æðruleysinu þar sem hann segir okkur frá sjálfum sér og deilir með okkur sýn sinni á lífið og tilveruna. Einnig fylgir geisladiskur með átján perlum úr lagasafni KK, þar á meðal tvö lög sem ekki hafa verið gefin út áður og í ríkulega myndskreyttum bæklingi deilir KK með okkur sögunum á bak við hvert lag. Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi segir verkefnið gæluverkefni, en er þó ekki í fyrsta sinn að gefa út tónlist.

„Ég er aðallega að baksa eitthvað í bátnum og tala um leið um lífið og tilveruna. Ég er samt mjög ánægður með útkomuna,“ segir KK um heimildarmyndina Á æðruleysinu.

„Fyrir fimm árum kom upp sú hugmynd að gera heimildarmynd um KK og mér leist strax vel á hugmyndina. Bókhaldsdeildinni leist ekki eins vel á hana, en ég hef gaman af svona gæluverkefnum,“ segir Jóhann Páll Valdimarsson, útgefandi hjá Forlaginu.
„Með myndinni er svo safnplata með átján lögum, þar af tveimur sem ekki hafa komið út áður,“ segir Jóhann. „Svo er 64 síðna bók þar sem Kristján talar um tildrög hvers lags, sem Árni Matthíasson skrifar. Í rauninni er þetta eins og bókaútgáfa með tveimur diskum. Einum hljóðdisk og einum mynddisk,“ segir Jóhann Páll.
„Heimildarmyndin um Kristján er gerð af kvikmyndargerðarmanninum Steingrími Karlssyni sem meðal annars gerði mynd Sigur Rósar, Heima. Mest af upptökunum voru gerðar á árunum 2010 og 2011,“ segir Jóhann. „Svo hafa þeir bara verið að dúlla sér við þetta. Af minni hálfu langaði mig að gera portrett af listamanninum KK fyrir framtíðina, og ég var ekkert í einhverjum útgáfupælingum endilega. Nú er þetta komið í mjög vandaðan pakka,“ segir Jóhann sem er ekki ókunnugur plötuútgáfu þó hann hafi starfað við bókaútgáfu í áratugi. „Ég gaf út Á bleikum náttkjólum með Megasi og Spilverki þjóðanna á sínum tíma, sem og Vísnaplöturnar sígildu og fyrstu plötu Bubba Morthens, Ísbjarnarblús,“ segir hann. „Svo gaf ég út plötuna Svona eru menn, með KK árið 2008. Ég er bara í gæluverkefnum þegar kemur að tónlist.“
Kristján er vanari því að hlusta á sjálfan sig, en að sjá sig á mynd. Hann er hlédrægur að eðlisfari. „Þú hefur ekki heyrt mig mikið tala um þessa mynd,“ segir hann kíminn. „Ég er ekki að ljóstra upp neinum leyndarmálum í myndinni. Ég er aðallega að baksa eitthvað í bátnum og tala um leið um lífið og tilveruna. Ég er samt mjög ánægður með útkomuna,“ segir hann. Pakkinn kemur út á þriðjudag og í tilefni af því verður útgáfufögnuður í Bíó Paradís, þriðjudaginn 24. nóvember klukkan 17. Fyrst verða léttar veitingar og KK tekur lagið, en klukkan 18 verður sýning á myndinni og ókeypis inn. Þetta verður eina skiptið sem myndin verður sýnd í kvikmyndahúsi.

 

The post Gæluverkefni sem vatt upp á sig appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652