Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Baltasar vill byggja kvikmyndaver í Gufunesi

$
0
0

Borgarráð hefur samþykkt að ganga til viðræðna við RVK Studios um byggingu kvikmyndavers í Gufunesi. Baltasar Kormákur segir hugmyndina á frumstigi en gangi allt upp verði íslenskt kvikmyndaver að veruleika á næstu árum.

Borgarráð samþykkti í dag tillögu borgarstjóra um að ganga til viðræðna við RVK Studios um alhliða kvikmyndaver sem verður hluti af framtíðarmynd Gufuness. Baltasar Kormákur, kvikmyndaleikstjóri og einn eigenda RVK Studios, segir hugmyndina á frumstigi og næsta skref sé að skoða aðstæður, finna fjárfesta og komast að samkomulagi um verð. „Ef það gengur allt upp þá höfum við mikinn áhuga á að sjá hvort hægt sé að endurhanna húsið og byggja þarna kvikmyndaver. Húsið er í hálfgerðri rúst eins og er, þannig að það er margt sem eftir er að skoða.“
Baltasar segist hafa haft þessa hugmynd lengi og bæði hann og aðrir fulltrúar kvikmyndaiðnaðarins hafi átt í viðræðum við marga borgarstjóra um möguleikann á að reisa kvikmyndaver í Reykjavík. „Þegar þessi möguleiki opnaðist ákvað ég að skoða hvort ég og mitt fyrirtæki gætum gert þetta og nú förum við að skoða möguleikana á því að gera þetta þannig að kostnaðurinn sé innan þess ramma sem íslensk kvikmyndagerð ræður við.“
Spurður hvort hugmyndin sé að leigja kvikmyndaverið jafnframt út til erlendra kvikmyndafyrirtækja segir Baltasar að sá möguleiki sé vissulega fyrir hendi. „Hér hefur verið töluvert af erlendum kvikmyndafyrirtækjum við tökur, mest auðvitað úti í náttúrunni, og það er ekkert því til fyrirstöðu að sá möguleiki opnist að hægt sé að taka meira upp hér. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að gera þetta þannig að íslensk kvikmyndagerð geti nýtt sér það. Ég hef sjálfur rekið kvikmyndaver í Reykjavík, sem gekk bara mjög vel, en það grundvallaðist á því að menn fengu þar aðstöðu fyrir lítinn pening svo íslenska framleiðslan réði við það. Það er grunnurinn að því að þetta sé framkvæmanlegt, því eftirspurnin erlendis frá er ekki það mikil að hægt sé að gera ráð fyrir erlendum verkefnum í tökum hér allt árið um kring. Það þarf að hugsa þetta þannig að allir möguleikar séu til staðar.“
Baltasar hefur þegar ráðið Pál Hjaltason arkitekt til að forvinna hugmyndir að nýtingu kvikmyndaversins og gera kostnaðaráætlun. „Ef fjárhagshliðin virðist vera yfirstíganleg förum við síðan að útfæra þær hugmyndir.“
Eins og er hefur Íslenska gámafélagið svæðið til umráða en leigusamningur þess rennur út í árslok 2018. Baltasar segist þó hafa vilyrði fyrir því að húsið losni mun fyrr. „Það tekur tíma að endurbyggja og skipuleggja og reyna að láta þennan draum rætast. En vonandi gengur þetta allt saman upp og íslenskt kvikmyndaver verður að veruleika.“

 

The post Baltasar vill byggja kvikmyndaver í Gufunesi appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652