Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Björk fimmtug á morgun – Á enn eftir að vinna sín bestu verk

$
0
0

Björk Guðmundsdóttir, frægasti tónlistarmaður Íslands fyrr og síðar, verður fimmtug á morgun, 21. nóvember, og er enn að kanna nýjar lendur í tónlist sinni. Íslenskir tónlistarmenn sem eru að hefja ferilinn í dag njóta allir þeirrar forgjafar sem það gefur að vera landar hennar, segir framkvæmdastjóri ÚTÓN.

 

„Þessi rödd er náttúrulega náttúruafl sem hreyfir við manni á einhvern sérstakan hátt,“ segir Sigtryggur Baldursson, tónlistarmaður og framkvæmdastjóri ÚTÓN.
„Björk hefur þróast og þroskast sem tónlistarmaður og mér finnst hún alltaf verða betri og betri. Síðustu verk hennar hafa verið mjög áhrifamikil og þar er hún að fara inn á nýjar slóðir sem ég átti ekki von á að hún færi á. Hún kemur sífellt á óvart eins og margir mikilvægir listamenn, ekki bara öðrum heldur ekki síst sjálfri sér.“
Spurður hvaða áhrif velgengni Bjarkar á heimsvísu hafi haft á útflutning á íslenskri tónlist segir Sigtryggur engan vafa leika á að hún sé stærsta vörumerki Íslands í tónlist fyrr og síðar á alþjóðavettvangi. „Þannig hefur hún gert meira en nokkur annar tónlistarmaður til þess að móta það jákvæða orðspor sem íslensk tónlist sem vörumerki hefur fengið á heimsvísu sem þýðir það að íslenskir tónlistarmenn njóta ákveðinnar forgjafar, eins og þeir segja í golfinu. Björk hefur ein og sér, með því að vera þessi listamaður sem hún er, gert ómetanlega mikið fyrir íslenskt tónlistarlíf og íslenska tónlistarmenn sem nú eru að vaxa upp og reyna að hasla sér völl erlendis.“
Spurður hvort hækkandi aldur hafi áhrif á sköpun tónlistarmanna segir Sigtryggur svo ekki þurfa að vera. „Það er auðvitað misjafnt hvernig bransinn fer með fólk, en Björk hefur haldið sínu sambandi við listagyðjuna nokkuð heilögu og alltaf gert hluti algjörlega á sínum forsendum. Þannig að ég á von á hennar bestu verkum í náinni framtíð.“
Jónas Sen, tónlistarmaður og tónlistargagnrýnandi, sem hefur starfað með Björk, tekur í sama streng og Sigtryggur. „Björk hefur náttúrulega þessa einstöku rödd sem er ekki lík neinni annarri, en svo er hún líka bara svo frábært tónskáld,“ segir hann. „Verk hennar eru mun metnaðarfyllri og stærri en algengt er í dægurtónlist, hún sver sig meira í ætt við klassísk tónskáld eins og Rachmaninoff eða Schumann. Hún endurtekur sig heldur ekki, hver plata er í allt öðrum dúr en sú sem kom á undan. Hún er líka frábær „performer“ og þróar tónlist sína jafnt og þétt á meðan hún er að túra þannig að það er meira gaman að heyra hana læf en á plötu, svo ekki sé nú minnst á að sjá hana, sem er alltaf upplifun.“
Jónas segir það ekki hvarfla að sér að Björk fari að sinna tónlistinni minna eða draga úr sköpuninni þótt hún sé komin á þennan virðulega aldur. „Ég held hún sé bara rétt að byrja,“ segir hann. „Hún mun halda áfram að koma okkur á óvart.“

 

The post Björk fimmtug á morgun – Á enn eftir að vinna sín bestu verk appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652