Bókin Öll mín bestu ár kom út á dögunum og hefur hún að geyma ljósmyndir og frásagnir úr skemmtanalífi Íslendinga á árunum 1966 til 1979. Það var fyrrum blaðamaðurinn Stefán Halldórsson sem tók saman ásamt myndum úr safni Kristins Benediktssonar sem var iðinn ljósmyndari á þessum árum. Þeir byrjuðu að vinna að þessari bók saman en eftir andlát Kristins árið 2012 hélt Stefán áfram að vinna sig í gegnum ljósmyndasafn hans.
„Ég var að skrifa um popptónlist í Morgunblaðinu á þessum árum og þegar ég þurfti á ljósmyndara að halda, sem var nú yfirleitt á kvöldin, þá var Kristinn alltaf til í tuskið sem ungur maður.“
„Kveikjan að þessari bók er sú að árið 2010 kom út ljósmyndabók eftir Sigurgeir Sigmundsson sem heitir Poppkorn. Hann fékk lánaðar myndir frá Kristni heitnum fyrir þá bók,“ segir Stefán Halldórsson sem skrifar texta bókarinnar.
„Þetta varð Kristni kveikjan að því hann langaði sjálfan að gefa út bók með þessum svokölluðu poppmyndum. Munurinn á þessum tveimur ljósmyndurum er sá að Sigurgeir var meiri uppstillingarljósmyndari, á meðan Kristinn var vettvangsljósmyndari á lifandi viðburðum. Kristinn sá að hans bók myndi sýna aðra hlið á þessum tíma en bók Sigurgeirs. Kristinn var á þessum tíma í krabbameinsmeðferð og við vorum gamlir kunningjar. Við hittumst og ákváðum að vinda okkur í verkið,“ segir Stefán Halldórsson.
„Við komumst nú ekki af stað fyrr en um haustið 2011 og þá lögðum við línurnar um hvaða myndir ættu að vera í bókinni og Kristinn hófst handa við að skanna þessar filmur sínar.“
Árið 2012 lést Kristinn eftir langa baráttu við krabbamein, aðeins 63 ára að aldri. Stefán tók við safni hans og hélt áfram að skanna filmur úr fórum Kristins. „Ég fór í gegnum safnið í samstarfi við dóttur Kristins og afraksturinn má finna í þessari bók,“ segir hann.
„Ég var að skrifa um popptónlist í Morgunblaðinu á þessum árum og þegar ég þurfti á ljósmyndara að halda, sem var nú yfirleitt á kvöldin, þá var Kristinn alltaf til í tuskið sem ungur maður. Hann var líka alltaf með vélina tiltæka svo hann tók mikinn fjölda ljósmynda á öllum sviðum. Hann var í eðli sínu frásagnarmaður og fyrir vikið þá er bókin þannig upp sett að í stað þess að hafa fáar stórar myndir þá höfðum við fleiri í mörgum stærðum,“ segir Stefán. „Fyrir vikið gefur bókin fjölbreyttari mynd af tíðarandanum sem var í gangi á þessum tíma.
Yfirleitt var aldrei pláss í blöðunum nema fyrir tvær til þrjár myndir. Kristinn tók þó alltaf mun meira og var alltaf að leita að góðum augnablikum. Ég skrifa textann í bókinni og reyndi að nota sem mest af þeim texta sem ég hafði skrifað í Morgunblaðinu á sínum tíma, sem passaði við ljósmyndirnar. Þetta er því sameiginleg upplifun okkar á hverjum stað,“ segir hann. „Í bókinni eru rúmlega 1000 ljósmyndir sem er í rauninni bara tíund af myndunum í safni Kristins,“ segir hann. „Ég skannaði á milli tólf og fjórtán þúsund myndir í safninu. Auðvitað eru margar myndir af sama hlutnum og slíkt, en safnið er gríðarlegt.
Ein hugmynd er að koma þessum hugverkum á vefinn en auðvitað er mikil vinna sem fylgir slíkri framkvæmd. Það má segja að bókin sé nokkurskonar vörulisti. Það er mikill fjöldi mynda af þeim viðburðum sem eru sýndir í bókinni og þetta verkefni gæti átt ágætis framhaldslíf ef manni sýnist svo,“ segir Stefán Halldórsson.
Hægt er að panta bókina á síðunni www.ollminbestuar.is

The post Gefur góða mynd af tíðarandanum appeared first on Fréttatíminn.