„Þetta er námskeið sem við Kjartan höfum lengi verið að pæla í, eiginlega bara frá því við byrjuðum að skrifa,“ segir Snæbjörn Brynjarsson spurður um Furðusmiðju sem hann og meðhöfundur hans, Kjartan Yngvi Björnsson, munu halda í janúar. „Okkur fannst bókmenntaflóran á Íslandi dálítið einhæf og okkur langaði til að hvetja fólk til að skrifa fleiri tegundir af skáldskap og kynna það um leið fyrir mismunandi lesefni. Þegar við fórum að hugsa þetta lengra fannst okkur einfaldast að fara bara til framtíðarhöfunda Íslands, unglinga eða krakka, kynntum hugmyndina og fengum styrk frá Barnamenningarsjóði og ákváðum að drífa bara í þessu.“
Þótt þeir Snæbjörn og Kjartan hafi hugsað námskeiðið fyrir unglinga hafa þeir fengið fjölda fyrirspurna frá eldra fólki sem hefur áhuga á að mæta og Snæbjörn segir það að sjálfsögðu velkomið á námskeiðið. „Annars hafa viðbrögðin verið svo góð að við erum að hugsa um að bæta við aukanámskeiði fyrir þá sem eru komnir af unglingsaldri, en hvort af því verður kemur í ljós síðar.“
Sé rýnt í stefnuyfirlýsingu Furðusmiðjunnar vekur athygli að meðal þeirra bókmenntagreina sem talað er um að fjalla um á námskeiðinu eru ástarsögur, telja þeir félagar ástina til furða? „Nei, ég myndi nú ekki segja það, en ástarsagnageirinn er vanmetinn og full ástæða til að beina athygli að honum,“ segir Snæbjörn.
Auk þeirra félaganna verða þau Hildur Knútsdóttir, Bryndís Björgvinsdóttir og Ævar Þór Benediktsson gestakennarar á námskeiðinu. Snæbjörn telur að þau muni styrkja námskeiðið mikið. „Þau eru öll að skrifa fyrir unglinga, en mjög ólíkar bækur og aðkoma þeirra eykur fjölbreytnina í því sem við getum fjallað um,“ segir hann. „Ég vil þó leggja áherslu á að okkur langar að fjalla um bækur sem eru ekkert endilega flokkaðar sem fagurbókmenntir, en eiga samt rosalega stóran lesendahóp. Oft þykja slíkar bækur formúlukenndar en þá er gaman að skoða hver formúlan er, hver er uppbyggingin, hvaða trikk eru notuð og svo framvegis.“
Snæbjörn og Kjartan hafa sagt að ástæða þess að þeir hófu að skrifa Þriggja heima sögu hafi verið sú að þeim hafi þótt of lítið af furðusögum á íslenskum markaði, nú hefur það dæmi snúist við og flestar unglingabækur eru fantasíur eða furðusögur í einhverjum skilningi. „Við erum í rauninni bara rétt að byrja hér,“ segir Snæbjörn. „Þetta eru stærstu bókaflokkarnir í heiminum í dag og það eru svo miklu fleiri möguleikar í þessum geira en við höfum séð hingað til. Sumum raunsæishöfundum finnst meira að segja að sér vegið, hafa þungar áhyggjur af þessari þróun og ég viðurkenni alveg að við Kjartan erum í smá trúboði fyrir furðusöguna. Að því sögðu er rétt að undirstrika að við höfum mikinn áhuga á að komast að því hvernig bækur unglinga í dag langar til að skrifa og hvað þeir eru að lesa. Þegar við vorum ungir var það sem okkur langaði að lesa ekki til og kannski gildir það sama um unglinga í dag. Kannski finnst þeim furðusagan orðin gamaldags og hafa áhuga á að gera eitthvað allt annað, ég vona það eiginlega þá halda bókmenntirnar áfram að þróast út í það óendanlega. Ég er viss um að bestu bókmenntir íslenskrar tungu eru enn óskrifaðar.“
Námskeiðin verða haldin í bókasafni Kópavogs og Gerðubergi og skráning fer fram á heimasíðunni furdusmidjan.com.
The post Bestu bókmenntirnar óskrifaðar appeared first on Fréttatíminn.