Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hélt að konur gætu gert allt

$
0
0

Ég hitti Sif á kaffihúsi í vikunni og hún sýnir mér stolt fyrsta eintakið af Leitinni að Gagarín, næstum eins og móðir að sýna sitt fyrsta afkvæmi. Það er greinilegt að hún er stolt af bókinni og ég byrja á að spyrja hvort hún hafi ekki skrifað eitthvað fyrir skúffuna áður en hún hellti sér út í að semja heila sögu.

„Ég hef aldrei skrifað bók áður, en ég byrjaði í ritnefnd Viljans í Verzlunarskólanum, fór svo í ritnefnd Verzlunarskólablaðsins og varð seinna pistlahöfundur fyrir Markaðinn í Fréttablaðinu. Ég tók BA-próf í enskum bókmenntum og hef alltaf verið viðloðandi einhverja bóka/saumaklúbba þar sem við höfum bæði verið að lesa og skrifa.“

Módel með skipstjórnarréttindi
Sif hefur þó engan veginn einskorðað sig við bókmenntirnar, hugur hennar stefndi á fleiri slóðir. „Ég er lærð í enskum bókmenntum, mannauðsstjórnun og markaðsfræði, hef kennsluréttindi fyrir grunn- og menntaskóla og hef verið stundakennari í mannauðsstjórnun í Háskóla Íslands. Er núna markaðs- og vefstjóri á Félagsvísindasviði HÍ. Ég er bara einhvern veginn þannig að ég hef áhuga á svo mörgu og hef lært svo margt, ef ég fæ áhuga á einhverju þá fer ég í það ef ég get. Ég er með skipstjórnarréttindi, fædd í Vestmannaeyjum og hef sennilega sjómennskuþrána í blóðinu þannig að ég tók skipstjórnarréttindi fyrir báta allt 25 metrum í Sjómannaskólanum/Tækniskólanum. Ég hef nú ekki siglt mikið, en aðeins samt og það er aldrei að vita nema ég nýti mér réttindin betur í framtíðinni þegar fer að hægjast um. Kannski fer ég bara að sigla og skrifa þegar ég verð eldri.“

Sif varð þekkt andlit strax 17 ára gömul þegar hún var kjörin ungfrú Norðurlönd en hún dæsir hálfmæðulega þegar ég impra á því. „Það var fyrir þrjátíu árum! Á þeim tíma var það að taka þátt í svona keppni eiginlega eina leiðin til að komast í módelbransann í útlöndum. Ég hefði aldrei ímyndað mér að árið 2015 væru slíkar keppnir enn við líði. Þarna 1985 var þetta mín leið til að komast út og ég fékk í kjölfarið samninga sem fyrirsæta, vann í eitt ár í París, Finnlandi, Danmörku og Bandaríkjunum, en þessi bransi var ekkert fyrir mig, þótt þetta væri mjög gaman. Mér fannst þetta frekar kjánalegt allt saman.“

Jólagjöf til dætranna
Aftur að skriftunum, hvernig kom það til að þú fórst að skrifa? „Ég fór á námskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni heitnum rétt áður en hann dó. Þar voru tólf konur og enginn karlmaður og Þorvaldur heillaði okkur allar upp úr skónum. Við stofnuðum klúbbinn Þorvald sem er enn starfandi þar sem við ræðum skrif okkar og styðjum hver aðra. Í þeim klúbbi eru margir góðir rithöfundar með handrit í skúffunni. Þorvaldur hvatti mig mikið og sagði mér að hafa engar áhyggjur af afdrifum bókarinnar, ég skyldi bara prenta hana út, hefta saman og gefa dætrum mínum í jólagjöf.

Þá var ég búin að vera með þessa sögu hálfunna í tölvunni mjög lengi, byrjaði á henni 2006, en ekki klárað hana. Ég tók þessu ráði Þorvaldar og kláraði bókina, án þess þó að gefa stelpunum hana í jólagjöf. Þá náði hugsunin ekkert lengra, en allavega náði ég að klára hana og það var áfangi í sjálfu sér. Ég vissi þó að ég yrði ekki sátt við það og fékk Óðinsauga til að gefa hana út. Eftir að það var ákveðið tók hún miklum breytingum og ég fullkláraði hana ekki fyrr en núna í sumar.“

Flókið fjölskyldumynstur
Kápumynd Leitarinnar að Gagarín er eftir eiginmann Sifjar, Búa Kristjánsson listmálara, sem hún giftist 27 ára og gekk sonum hans þremur í móðurstað, en þá átti hún sjálf eina dóttur úr fyrra sambandi. Síðan hafa tvær dætur bæst í hópinn og það liggur beint við að spyrja hvernig hún hafi komið öllu þessu í verk með sex börn á heimilinu og hvort ekki hafi verið flókið að púsla þessum tveimur fjölskyldum saman.

„Ég kem úr mjög normal fjölskyldu, mamma, pabbi og sex börn, og fer yfir í mjög flókið fjölskyldumynstur. Maðurinn minn var ekkill með þrjá syni, ég átti eina dóttur og síðan eignumst við tvær dætur. Það eru sex börn samtals búin að vera með lögheimili hjá okkur í gegnum tíðina og það hefur oft verið flókið að púsla þessu saman, en við eigum góða að, góðar ömmur og afa og það hefur allt gengið vel. Í dag eru þær tvær yngstu einar eftir á heimilinu, þannig að það er orðið mun rólegra hjá okkur.“

Föðurmissir kveikjan að skrifunum
Sif byrjaði að skrifa Leitina að Gagarín fljótlega eftir að faðir hennar, Sigfús J. Johnsen, dó og í sumar þegar hún var að ganga frá bókinni til prentunar dó barnsfaðir hennar eftir sex mánaða veikindi. Það hafði allt sín áhrif. „Það er þetta kaos í lífinu, þessi lífsreynsla sem maður lendir í sem fær mann til að skrifa. Ég missti pabba minn fertug, sem er svo sem ekkert ungt, en ég hafði alltaf verið mikil pabbastelpa og mér fannst það mjög erfitt. Ég er yngst af systkinunum og þegar ég var sex ára fór mamma að vinna úti þannig að ég varð lyklabarn. Ég er alin upp á Háaleitisbraut. Síðan bjuggum við í Garðabæ og fluttum svo í Breiðholtið þegar ég var níu ára, sem er mér mjög minnisstætt. Þetta var barnafjölmennasta hverfi Reykjavíkur, mér fannst þetta hálfgert kaos og bókabíllinn varð mjög góður vinur minn fljótlega eftir að við fluttum. Ég var dálítið mikið ein, búin í skólanum eitt, hálf tvö og fannst þá hálf eilífð þangað til mamma kæmi úr vinnunni. Ég las allt sem ég náði í, byrjaði pínulítil á Öddubókunum og svo lá leiðin í gegnum Fimmbækurnar og Ævintýrabækurnar en í dag er Auður Ava í miklu uppáhaldi og sömuleiðis Gerður Kristný. Þó ég hafi aldrei lent beinlínis í lífshættu þá er það þessi kaótík í lífinu sem kemur manni til að skrifa og vilja segja sögur.“

Skrifar meðan aðrir prjóna
Þrátt fyrir ástina á bókmenntum segir Sif sér aldrei hafa dottið í hug að fara í íslensku í háskólanum, eftir BA-prófið í enskum bókmenntum valdi hún markaðsfræðina en vegna stórs heimilis kom ekki til greina að fara utan í framhaldsnám. Hún stundaði námið á kvöldin og segir oft hafa verið flókið púsluspil að láta þetta allt saman ganga upp. „En það hafðist, maður finnur sér tíma fyrir það sem maður vill gera. Margir spyrja mig núna hvenær eiginlega ég hafi haft tíma til að skrifa þessa bók en ég bendi þeim þá á að það fer tími í allar tómstundir fólks, sumir prjóna, aðrir horfa á framhaldsþáttaraðir og ég skrifaði á meðan vinkonur mínar voru að prjóna og horfa á þætti. Við höfum öll einhvern tíma fyrir okkur sjálf, þetta er bara spurning um hvernig við veljum að ráðstafa honum.“

250 ár fram í tímann
Hvernig kom hugmyndin að sögunni til þín? „Ég veit það eiginlega ekki. Sagan þróaðist mikið á þessum árum sem ég var að vinna hana. Hún gerist á tveimur tímaskeiðum með 250 ára millibili og karakterarnir á hvoru tímabili upplifa nánast það sama. Þetta er sambland af Völuspá, þjóðfræði, spennusögu og fantasíu. Það er þó vissara að undirstrika að ekkert af þessu snýst um mig og enginn karakter er byggður á mér eða mínu lífi. Þótt ég hafi byrjað að skrifa þetta eftir að pabbi dó þá er föðurmissir ekki faktor í sögunni. Ég ætla ekki að gefa of mikið upp en, jú, það er þarna missir en það er ekki minn missir. Ég bý til staði og veruleika, er ekki endilega að festa mig í íslenska landakortinu og eins með tímann, fer 250 ár fram í tímann, þannig að þetta er algjör fantasía, ekki raunveruleikalýsing.“

Konur eru ragari
Spurð hvernig tilfinning það sé að vera komin í sviðsljósið sem rithöfundur segist Sif svo sem ekkert vera farin að upplifa það. „Ég gerði bara mitt besta og vona að fólk kunni að meta það. Mér finnst jólabókavertíðin í ár ansi karllæg og vildi gjarna sjá fleiri konur komast í sviðsljósið fyrir skriftir. Kannski þarf að styðja betur við þær, það lítur út fyrir að þær séu ragari við að koma sér á framfæri og ég veit það af sjálfri mér hvað stuðningurinn og hvatningin skiptir miklu máli. Ég var að velta fyrir mér sögu George Eliot, eða hennar Mary Ann Evans sem skrifaði undir því karlmannsnafni, og ég er ekki viss um að við séum komin sérlega langt frá þeim hugsunarhætti. Reyndar sé ég núna að það eru til karlmenn sem skrifa undir kvenmannsnafni, svo kannski er einhver hreyfing í þá átt að það sé betra að vera kona sem skrifar bækur en karl, en tilfinningin segir mér að það sé ekki raunin, því miður.“

Ekki allt hægt á hnefanum
Þú hefur sem sagt alltaf fengið þau skilaboð að þú gætir orðið hvað sem þú ætlaðir þér? „Já, eiginlega. Mér fannst á tímabili að konur gætu gert allt sem þær ætluðu sér en eftir því sem ég eldist hef ég komist að því að það er ekki alveg rétt. Rannsóknir sýna til dæmis að konur sem eru yfirmenn ráða frekar karlmenn þannig að við þurfum að taka okkur á í því að standa saman og styðja hver aðra. Ég hef því miður orðið að sætta mig við það að það er ekkert alltaf hægt að komast áfram á hnefanum, við þurfum að læra að feta veginn inn í jafnréttið.“

Sif segir áhuga sinn á mannauðsstjórnun einmitt hafa kviknað vegna eigin upplifana á vinnumarkaðnum. „Ég horfði upp á einelti fullorðinna á vinnustöðum, sem ég hélt að væri ekki til nema í gagnfræðaskóla, en maður horfir upp á slíkt út um allan bæ þegar maður opnar augun. bæði á vinnustöðum og í pólitík. Auðvitað er eineltishlutinn bara einn af ótal þáttum mannauðsstjórnunar, en það er sérstaklega sláandi að það er alltaf gerandinn sem situr sem fastast í fyrirtækinu, þeir sem fyrir eineltinu verða fara. Mannauðsstjórnun dekkar eiginlega öll svið mannlegra samskipta og mér finnst hún gríðarlega áhugaverð.“

Sástu líf þitt svona fyrir þér þegar þú varst 17 ára? „Nei, aldrei. Eins og ég sagði þá er ég komin af venjulegu fólki og þekkti engin frávik. En auðvitað verða allar aðstæður eðlilegar þegar maður er sjálfur kominn í þær. Mig dreymdi um að verða ljósmyndari þegar ég var lítil og hef enn mikinn áhuga á ljósmyndun en aðallega ætlaði ég að verða fornleifafræðingur. Það blundaði mjög lengi í mér. Svo fer lífið bara með mann þangað sem það vill. Ég ætlaði alltaf í doktorsnám og ég sé núna að þessi bók er eiginlega doktorsverkefnið mitt. Auðvitað dreymir mig um að geta farið í rithöfundabúðir, vera ein með tölvunni og þurfa ekki að hugsa um neitt annað en að skrifa og kannski kemur einhvern tíma að því.“

Ertu byrjuð á næstu sögu? „Já, ég er svona að byrja að móta karaktera og söguþráð, en það er ekkert sem ég get talað um ennþá. Það er líka unglingasaga en kannski fæ ég einhvern tíma kjark til að skrifa fullorðinsskáldsögu, ég gæti vel hugsað mér það.“

The post Hélt að konur gætu gert allt appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652