Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hætt að stressa sig um of á jólunum

$
0
0

„Jólaundirbúningurinn hefst formlega á sunnudag, fyrsta sunnudag í aðventu. Þá fer ég ekki út úr húsi, er bara inni í eldhúsi að baka og að skreyta húsið. Ég fer í svolitla maníu. Sem er svolítið skrítið því fram að því er ég hálfgerður „grinch“ og finnst allt óþolandi við jólin. En frá og með næsta sunnudegi og fram á þrettándann er ég í jólaskapi. Ætli þetta komi ekki frá móður minni sem er frekar föst í sínum venjum,“ segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir, leikkona og fjölmiðlakona. Lilja er sælkeri mikill og hefur gaman af því að baka eins og bloggsíða hennar, blaka.is, ber augljós merki um. Í hverjum mánuði bakar hún samkvæmt ákveðnu þema og í desembermánuði eru það piparkökur sem ráða ferðinni.

Lilja Katrín GunnarsdóttirJólablaðForsíða

Fyrstu jólin öll saman

Fjölskylda Lilju er nútímafjölskylda; hún á dóttur af fyrra sambandi og maður hennar átti tvö börn fyrir. Saman eiga þau svo fimm mánaða stelpu, Önnu Alexíu. Lilja segir að jólin í fyrra hafi verið þau fyrstu sem hún hélt með unnustanum og þá voru þau bara tvö ein í kotinu. Í ár verða hins vegar öll börnin með þeim.
„Við verðum með eitthvað nýtt í jólamatinn, nú förum við að búa til jólahefðina. Það versta sem gerist, ef eitthvað klikkar, er að við borðum okkur södd af nammi og kökum. Við eigum þá bara góða sögu til að segja. Annars ólst ég upp við að borða alltaf lambalæri á jólunum og elska lambalæri. Það hefði því verið eðlilegt að hafa það á boðstólum en maðurinn borðar helst ekki lambalæri. Það var næstum því „dealbreaker“.“

Jólin eru hátíð fjölskyldunnar og Lilja segist hlakka til að njóta þeirra með fjölskyldu sinni.

„Fyrir mér hafa jólin aldrei snúist um jólaboð, meira bara að vera á náttfötunum með konfektkassann í kjöltunni. Maður vill auðvitað fá frið til að geta étið á sig gat, maður vill ekki endilega ofbjóða öðrum,“ segir Lilja í léttum tón.

Á að njóta lífsins á jólunum

Lilja segist vilja brýna fyrir fólki að það þurfi ekki allt að vera fullkomið á jólunum, mikilvægara sé að njóta þeirra.
„Ég var þannig að ég þurfti að gera allt. Ég fór með stelpuna mína, sem er fimm ára, á alla viðburði, bakaði milljón sortir, skreytti, spilaði öll jólalögin og sendi út billjón jólakort. Ein jólin varð ég veik á aðfangadag eftir að ég var búin að vera að keyra kort út um allan bæ. Þetta var bara komið út í rugl hjá mér. Núna reyni ég því bara að njóta jólanna og hvet aðra til að gera það sama. Ef þú ert ekki lunkin í eldhúsinu skaltu bara kaupa deig, sendu bara jólakort með tölvupósti í stað þess að bíða í röð á pósthúsi og vertu ekki að stressa þig á rykinu úti í horni. Þó það sé mesta klisjan í bókinni þá verður bara aðeins að fá að njóta lífsins á jólunum.“

Alltaf bakað á aðventunni

Áttu einhverja jólaminningu sem tengist bakstri?

„Þær eru ótal margar! Mamma hélt alltaf fast í þá hefð að baka nokkrar smákökusortir á fyrsta sunnudegi aðventu og var það algjörlega heilagur dagur. Alveg sama hvað kom upp á þá var alltaf bakað. Uppáhaldið mitt var að fylgjast með móður minni setja saman hrærivélina með tilheyrandi aukahlutum og sjá fallegar vanillukökulengjurnar líða út eins og sykursæluskýjabogar. Eins og þú kannski heyrir er ég mjög hrifin af vanilluhringjum og gæti borðað þá í tonnatali ef ég mætti.“

Er eitthvað sem þú bakar alltaf fyrir jólin?

„Súkkulaðibitakökur. Þær eru alls ekki uppáhaldskökurnar mínar en ég bara baka þær alltaf. Mamma bakar þær alltaf þannig að ég baka þær alltaf. Þetta er ekki flókið.“

Ekkert áfengi á jólunum

Hvaða hefðir heldur þú í á jólunum?

„Hvar á ég að byrja? Það er ofangreindur smákökubakstur þar sem ég baka alltof margar sortir og ligg afvelta í marga klukkutíma umkringd litríkum dunkum af hreinni hamingju. Og lyktin sem umlykur húsið – maður minn! Er til eitthvað betra? Svo síðustu ár, eftir að ég varð mamma, hef ég farið með dóttur mína allavega einu sinni í Þjóðminjasafnið að heimsækja jólasveina. Svo föndra ég aðventukrans með misgóðum árangri. Og svo er ein hefð sem ég erfi frá foreldrum mínum sem ég rígheld í eins og ég eigi lífið að leysa og það er ekkert áfengi á borðum á jólum. Þetta er nú eftir allt hátíð barnanna og mér persónulega finnst áfengi ekki passa með jólagleðinni en auðvitað heldur hver jólin eins og honum finnst best.“

Hvert er þema desembermánaðar á blaka.is?

„PIPARKÖKUR! Já í hástöfum því ég elska piparkökur. Ég elska að baka piparkökur, ég elska að skera út piparkökur, ég elska að skreyta piparkökur og fyrst og fremst elska ég að borða piparkökur! Í desember býð ég því upp á allt mögulegt og ómögulegt í þemanu, allt frá piparkökuvöfflum til piparköku-tíramísú (áfengislaust að sjálfsögðu) og tryllta ostaköku sem er ólýsanlega góð.

Uppskriftin sem ég deili er einmitt hluti af þemanu. Hún virðist kannski flókin en hún er ofureinföld og það þarf ekki einu sinni að baka tertuna!“

23839 kaka í jólablað 02

Hvít súkkulaðimústerta með piparkökubotni og súkkulaðistjörnum

Botn:

225 g piparkökur
80 g smjör, bráðið

Terta:

700 g hvítt súkkulaði
570 ml rjómi

Súkkulaðihjörtu:

200-300 g súkkulaði að eigin vali
Smá flórsykur

Aðferð:

Byrjum á botninum. Myljið piparkökurnar í matvinnsluvél þar til allir stóru bitarnir eru orðnir að mulningi. Blandið smjörinu saman við og þrýstið í botninn á 22 sentímetra stóru, hringlaga formi. Kælið inni í ísskáp á meðan þið búið til tertuna.

Setjið hvíta súkkulaðið í bitum í pott með helmingnum af rjómanum (285 ml) og hitið blönduna yfir lágum hita þar til súkkulaðið er bráðnað. Hrærið í blöndunni af og til en ekki gefast upp og hækka hitann! Þá brennur súkkulaðið og tertan verður ekki vitund „lekker“.

Á meðan þið eruð að bræða súkkulaðið skulið þið þeyta restina af rjómanum.

Þegar allt hvíta súkkulaðið er bráðnað setjið þið blönduna í skál og leyfið henni að kólna í 10 til 15 mínútur. Síðan blandið þið þeytta rjómanum vel saman við með písk þar til allir kekkir eru á bak og burt og hellið blöndunni svo yfir piparkökubotninn. Og inn í ísskáp í að minnsta kosti 3 klukkustundir en best er ef kakan fær að jafna sig yfir nótt.

Svo eru það súkkulaðihjörtun. Þau gætu ekki verið einfaldari. Bræðið súkkulaði, annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Ef þið notið ofninn megið þið ekki hafa súkkulaðið inni í meira en 30 sekúndur í senn og passið að hræra á milli. Hellið súkkulaðinu á bökunarpappírsklædda ofnplötu og dreifið úr því. Hér ráðið þið hvað þið dreifið mikið úr því – því þynnra sem súkkulaðilagið er því þynnri verða hjörtun. Setjið plötuna inn í ísskáp og kælið þar til súkkulaðið er storknað. Skerið út hjörtu, eða það form sem þið viljið, og skreytið kökuna. „Drissið“ síðan smá flórsykri yfir.

The post Hætt að stressa sig um of á jólunum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652